Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 17:04:27 (1054)

2003-11-03 17:04:27# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[17:04]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef engin orð lagt í munn hv. þm. í þeim efnum hvað hann hafi sagt í kosningabaráttunni. Hitt er alveg ljóst að þetta var ekki í hópi þeirra forgangsverkefna og áherslumála Framsfl. sem mig rekur minni til að sá flokkur hafi auglýst í kosningabaráttunni sérstaklega og vantaði þó ekki að talsvert væri auglýst. Framsfl. auglýsti sig í kosningabaráttunni, eins og kunnugt er, sem eitthvað allt, allt annað fyrirbæri en hann er í raun og veru. Það má út af fyrir sig hrósa þeim fyrir þá hugkvæmni og að komast upp með það: að selja sig inn á þjóðina sem stjórnarandstöðuflokkur, svona félagshyggjuflokkur í stjórnarandstöðu. Eins og kunnugt er þá gagnrýndi Framsfl. ekki síst eigin verk í ríkisstjórninni. Byrjaði langar sjónvarpsauglýsingar á ófremdarástandinu í húsnæðismálum sem Framsfl. var búinn að fara með í átta ár og lofaði svo úrbótum. (Gripið fram í: Þið ættuð bara að gera betur.) En ég tel að ég muni það rétt, það verður þá leiðrétt ef annað er, að það kom hvergi fram í þessum fallegu auglýsingum framsóknarmanna að eitt af fyrstu verkum þeirra yrði að selja Landssímann, það væri sérstakt baráttumál þeirra.

Eins og ég var að undirstrika hér þá hafði Framsfl. tækifæri til þess, í ljósi þeirra ófara sem þetta mál allt saman var undirorpið á síðasta kjörtímabili, að reisa skorður við. Mönnum var það í lófa lagið. Staðreyndin er auðvitað sú að Framsfl. gafst upp í málinu. Framsókn þóttist hafa stefnu og sagði það við fólk út um byggðir landsins að þeir vildu ekki einkavæða grunnnetið. Þeir gáfust upp. Þeir kyngdu stefnu Sjálfstfl., nýfrjálshyggju-einkavæðingarstefnunni. Og nú koma hér ungir hv. þm. og tala eins og það sé frá þeirra innstu hjartans rótum runnið, stefna Sjálfstfl. Hún sé þeim vaxin í blóð og merg. Kannski er hin nýja kynslóð framsóknarmanna bara klassískir frjálshyggjumenn. Þá verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni einnig að því leyti.