Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 17:08:30 (1056)

2003-11-03 17:08:30# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[17:08]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það var engu líkara en hæstv. forsrh. væri að mæla fyrir frv. sem fjallaði um smávægileg formsatriði þegar hann mælti fyrir því að hlutabréfið sem þjóðin á í Landssímanum verði fært frá einu ráðuneyti til annars. Það má til sanns vegar færa að þessi breyting skipti ekki sköpum. En hitt er stórmál hvað verður um Landssímann íslenska. Það er stórmál. Í rauninni spyr ég sjálfan mig hvort þetta sé ekki táknrænt á margan hátt um afstöðu ríkisstjórnarinnar. Landssíminn er fjármálalegt fyrirbrigði sem á að vera komið undir hæstv. fjmrh. að ráðskast með, en ekki samgrh., sem sinnir og á að hafa umsjón og ábyrgð á ákveðnu þjónustuhlutverki sem Síminn hefur gegnt í okkar samfélagi. Þannig að þessi breyting er ekki aðeins breyting á formi, hún er táknræn um pólitíska afstöðu ríkisstjórnarinnar.

Nú má spyrja sem svo: Hvaða máli skiptir það hver á Símann? Skiptir það einhverju máli? Ég skal alveg viðurkenna það að mér fannst hinn stóri slagur sem háður var um Landssímann kannski mikilvægari en það sem nú er að gerast, þegar Landssíminn var gerður að hlutafélagi, vegna þess að þá ákváðu menn að taka þessa stofnun og færa hana undan handarjaðri almannavaldsins og yfir á markað. Þetta fannst mér hinn raunverulegi slagur um Símann. En nú spyr ég þegar þetta hefur átt sér stað, við erum komin með Landssímann yfir á hlutabréfamarkað: Skiptir þetta máli? Ef svo er, hvaða máli skiptir það að færa hann í hendur einkaaðila?

Ég held að einn stærsti veikleiki hlutabréfaformsins þegar um grunnþjónustu í samfélaginu er að ræða, sé óstöðugleikinn. Eðli máls samkvæmt leitar sá sem fjárfestir í fyrirtæki á einkamarkaði eftir hámarksarðsemi hverju sinni. Og þegar gefur á bátinn heldur hann á önnur mið. Þetta hefur reynst veikleikinn í hlutafélagsforminu í raforkugeiranum og annars staðar þegar um grunnþjónustu er að tefla. Þetta hefur gerst í einkavæddum vatnsveitufyrirtækjum og raforkufyrirtækjum í Frakklandi og víðar. Þetta er veikleikinn í þessu formi. Þess vegna getur það skipt höfuðmáli hver eigandinn er, að hann sé samfélagslega ábyrgur. Hverjir gætu komið þar inn aðrir en ríki og sveitarfélög? Menn mundu hugsanlega líta til lífeyrissjóða. Eru þeir ekki samfélagslega ábyrgir? Jú, það er alveg rétt, þeir lúta slíkri stjórn. Hins vegar er þeim, lögum samkvæmt, gert að leita jafnan eftir hámarksarðsemi í fjárfestingum sínum. Þannig að lögum samkvæmt bæri þeim sem eignaraðila í símafyrirtækjum, raforkufyrirtækjum eða annarri slíkri þjónustu að halda á önnur mið ef fyrirtækinu eða starfseminni vegnaði illa.

Ástæðan fyrir því að ég kom aðeins of seint í þingsalinn var sú að ég var einmitt að leita gagna sem ég veit að eru fyrir hendi um þetta: um þessa hættu sem almannaþjónustunni stafar af þessu formi, þessu eignarformi.

Auðvitað sjá menn ýmsa kosti við hlutafélagsformið fyrir markaðinn. Það er auðvelt að skipta um eigendur. Í stað þess að eigandi þurfi að selja fyrirtækið á einu bretti, er hægt að gera það smám saman á hlutabréfamarkaði. Það eru ákveðnir kostir. Það er hreyfanleiki og sveigjanleiki í kerfinu sem þessu fylgir. Og það er ágætt. En þetta eru ókostirnir.

Það var þetta sem Danir óttuðust t.d. þegar danski síminn var einkavæddur. Það var fyrirtæki í Chigaco, Ameritec, sem keypti yfir 30% af hlutunum. Fyrirtæki sem eignaðist síðan símann í Ungverjalandi og einhvers staðar í Suður-Ameríku. Síðan hafa þessir hlutir verið seldir, fyrirtækið fékk ráðandi hlut í símanum fyrir vikið. En þessu fylgdi óstöðugleiki. Það fylgdi ekki traust rekstrarumhverfi sem á að vera grunnur undir þessa almannaþjónustu.

[17:15]

Þegar við horfum til baka spyr maður sjálfan sig: Hafa þau skref sem við höfum stigið verið til góðs? Við vorum með fyrirkomulag sem byggði á nánu samstarfi og sambýli símans og póstsins. Menn sögðu sem svo: Leiðir skilja milli þessara tveggja stofnana, þessarar tvenns konar starfsemi. Ég held að það sé ekki rétt. Ég held að þetta sé einmitt að tengjast aftur í gegnum internet og þessa tækni sem hefur litið dagsins ljós í síma og fjarskiptum almennt. Þetta sambýli var mjög gott og hentaði íslenskum aðstæðum mjög vel. Það byggði á því að síminn gat fært arðinn af sinni starfsemi yfir á póstinn og í okkar litla samfélagi þá gagnaðist þetta afar vel. Hvað hefur síðan gerst? Pósturinn er neyddur náttúrlega til að fara að Evrópusamþykktunum sem eru mjög þrengjandi, lýðræðislegar takmarkandi. Mér finnst þessi óður sem menn eru alltaf með um dásemdir EES-samningsins og Evrópusamvinnunnar alveg furðulegur. Þeir horfa þá fram hjá þeim lýðræðislegu takmörkunum að við megum t.d. ekki reka póstþjónustuna eins og okkur helst líkar og sem hentar íslenskum aðstæðum. Nú þarf að reka póstþjónustuna á markaðsgrunni. Þetta hefur haft það í för með sér að félagasamtökum, landsbyggðarblöðunum, eru þröngar skorður settar. Þegar þetta er komið að fullu til framkvæmda þarf Öryrkjabandalagið að borga vel á aðra milljón meira en áður þurfti til að koma félagsblaði á framfæri við félagsmenn sína. Sama á við um verkalýðsfélögin. Landsbyggðarblöðin eiga í vök að verjast af þessum ástæðum. En hér fyrr á tíð var hægt að færa þarna arðinn á milli. Það var hægt að færa á milli símans og póstsins. Þetta er liðin tíð.

Nú er það að gerast að Síminn, Landssíminn er farinn að hugsa afar þröngt, jafnvel þótt hann sé í eign okkar, ríkisins. Það væri fróðlegt að heyra hæstv. samgrh. tjá sig um það efni. Hann er farinn að hugsa um allar þjónustueiningar sem sjálfstæða starfsemi. Ég get sagt það sem dæmi að í sumar var farið að skrúfa niður öryggissímana í orlofsbyggðum verkalýðssamtakanna. Það var farið að skrúfa þá niður. Hvers vegna? Vegna þess að þeir gáfu ekki af sér nægilegan arð. Hér sýnir hæstv. samgrh. mér svona tæki, farsíma. Það eru ekki allir sem hafa slík tæki. Á Eiðum, svo dæmi sé tekið, á Austurlandi, þar sem eru orlofsbúðir, er ekki hægt að ná símsambandi í gegnum þennan síma. Engu að síður átti að skrúfa niður öryggissímann. Hvers vegna? Hann gaf ekki af sér nægilegan arð. Það var hægt að stöðva þetta á síðustu stundu. Það var ekki hægt í öðrum orlofsbyggðum vegna þess að menn eru farnir að hugsa alla hluti þröngt. Það er verið að skrúfa niður almenningssímana í þorpum víðs vegar um landið, jafnvel í pósthúsunum. Það er verið að taka þá niður. Það þykir heppilegra að setja þá inn í verslanir ef það yfirleitt er gert.

Þetta er hugsunin sem verið er að innleiða. Þess vegna segi ég: Það er dæmigert og táknrænt um þessa hugsun og þessa afstöðu að færa ábyrgðina á þessari starfsemi frá samgrn. yfir í fjmrn. Þess vegna er þetta ekki bara spurning um form. Þetta er spurning um hvaða tilgang menn sjá með þessari starfsemi og þá ábyrgð, sem hvílir eða á að hvíla á samfélaginu, að sjá öllum landsmönnum fyrir eðlilegum og góðum fjarskiptum. Um þetta snýst málið.

Hv. þm. Birkir Jónsson sagði að það yrði rætt síðar hvort Landssíminn yrði seldur. Verður það gert? Ég held ekki. En ég minnist þess á hve óendanlega óheiðarlegan hátt allt þetta ferli hefur verið rekið áfram, vegna þess að upphaflega þegar Landssíminn var gerður að hlutafélagi var því aftur og ítrekað lýst yfir og því lofað af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar að ekki stæði til að selja Símann. (Gripið fram í: Ekki þá.) Því var aftur og ítrekað lofað (Gripið fram í.) að það yrði ekki gert. Ég er með þetta bæði í þingræðum og á prenti.

En að sjálfsögðu stóð aldrei annað til, enda eru það ákveðin rök fyrir því að selja hlutina í hlutafélagi. Það heitir hlutafélag vegna þess að það eru margir hlutir væntanlega. Það er hugsunin. Hugsunin er sú að fara úr einu eftirlits- og aðhaldskerfi, almannaeftirliti í gegnum þing eða lýðræðislega kjörnar stjórnir og yfir í annars konar form sem er markaður og aðhald þá þeirra sem hafa hlutabréfin á hendi. Þetta eru ákveðin rök fyrir þessu.

En þá finnst mér að við eigum líka að íhuga þær röksemdir sem ég er að vekja máls á núna, þ.e. stöðugleikann sem er að tryggja að þessi grunnþjónusta sé í höndum aðila, undir eignarhaldi aðila sem er treystandi og sem hlaupast ekki undan merkjum ef gefur á bátinn, eins og hefur gerst í grunnþjónustunni og ég hef áður vikið að.

Ég mun við síðari umræðu koma með dæmi um þetta í þeirri von að sé hægt að ræða þetta með tilvísan til reynslu annarra þjóða, þ.e. að við tökum á þessu máli á þann hátt og teflum fram rökum og skoðum reynslu annarra. Ég minni á að hér á þinginu var samþykkt ekki alls fyrir löngu, einhverjum missirum, að skipa nefnd til að rannsaka reynsluna af einkavæðingu víðs vegar um heiminn, einkavæðingu grunnþjónustu. Hún er ekki enn þá farin að starfa enda hefur ekki verið skipað í hana. Ég vil minna hæstv. forsrh. á að það er ógert af hans hálfu að skipa í þá nefnd. Hins vegar get ég alveg sagt að mér finnst ekki skipta öllu máli hvernig að slíkri umræðu er staðið svo framarlega sem hún fer fram.

Nú fáum hvern gestinn á fætur öðrum hingað til lands sem varar okkur við að halda út á þessar brautir. Ekki eru margar vikur síðan ljósið slokknaði hjá 50 milljónum Ameríkana. Hæstv. iðnrh. ætlar að hlusta á þá sem slökktu ljósin en ekki hina sem haldið hafa ljósunum logandi því það var almannaþjónustunni í Bandaríkjunum, rafveitunum í eign og umsjá sveitarfélaga og ríkja, sem var haldið gangandi. En það á að horfa til hinna sem mistókst verk sitt.

Ætla menn að leita uppi öll mistök sem gerð hafa verið í heiminum og elta þau? Er ekki kominn tími til að reyna að fara í smiðju til þeirra sem hefur vegnað vel, sem hafa búið fyrirkomulag sem hefur skilað góðum árangri? Á að elta uppi mistökin og apa þau eftir?

Við erum að fá hingað gesti úr heilbrigðisþjónustunni einnig. Æðstu ábyrgðarmenn í bandaríska heilbrigðiskerfinu hafa komið hingað til lands til að vara okkur við því að fara út á þá refilstigu sem sú þjóð hefur ratað í skipulagi heilbrigðismálanna. En hvað gerist þá? Þá vill Verslunarráð Íslands apa þetta kerfi eftir. Það vill apa þetta upp. Og sterk öfl í Sjálfstfl. hafa tekið undir þetta. Og nú á helginni eru tónarnir frá landsþingi Samfylkingarinnar þeir að einmitt þetta eigum við að gera, nú eigum við að byrja að einkavæða og markaðsvæða í heilbrigðisþjónustunni. Til hvers eru þessi spor stigin?

Einn af þingmönnum Samfylkingarinnar hefur kvatt sér hljóðs í andsvari. Ég hlakka til að heyra hans mál vegna þess að mér fannst dapurlegt ... (Gripið fram í: Um Símann?) Um einkavæðingu og markaðsvæðingu á grunnþjónustu samfélagsins sem Samfylkingin er núna að taka undir og þar sem síst skyldi, innan heilbrigðisþjónustunnar.

Þetta eru nefnilega tímamót. Það eru tímamót að flokkur sem kennir sig við félagshyggju og félagsleg sjónarmið sé að taka undir með íhaldinu, með Verslunarráðinu, sem vill koma klónum í arðinn sem má hafa af sjúku fólki og öldruðu. Og ég furðaði mig á því í vor þegar tekist var á um það hér í þingsölum hvort heimila ætti einkavæðingu á drykkjarvatninu að Samfylkingin skyldi taka undir þau sjónarmið. Nú eru menn að sýna andlit sitt á öðrum sviðum í heilbrigðisþjónustunni. Mér finnst þetta dapurlegt og mér finnst það mjög alvarlegt að það skuli vera að gerast.

Já, ég tengi þetta allt saman, rafmagnið, vatnið, Landssímann, heilbrigðismálin og menntamálin. Það er um þessa þætti sem félagsleg öfl í samfélaginu, í verkalýðshreyfingunni eða í stjórnmálum eiga að taka höndum saman um að verja gegn gróðaöflunum.