Lögmæti innrásarinnar í Írak

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:43:59 (1226)

2003-11-05 14:43:59# 130. lþ. 21.6 fundur 110. mál: #A lögmæti innrásarinnar í Írak# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er mjög athyglisvert að fulltrúar stjórnarandstöðunnar víkja yfirleitt aldrei einu orði að ógnarstjórn Saddams Husseins. Eins og það komi málinu ekki við. Ég spyr þá: Ef gereyðingarvopnin væru fundin, teldu þeir þá að rétt ákvörðun hefði verið tekin? Auðvitað skiptu gereyðingarvopnin miklu máli í þessu sambandi, því skal ekki neitað. Og það er vitað mál að þau voru til. Það liggur alveg ljóst fyrir. Hins vegar er ekki vitað hvað varð um þau.

En er það þannig að alþjóðasamfélagið beri enga ábyrgð þegar ógnarstjórnir eins og stjórn Saddams Husseins myrðir eigin borgara með gereyðingarvopnum eða öðru því sem tiltækt er? Ber þá alþjóðasamfélagið enga ábyrgð? Bar alþjóðasamfélagið enga ábyrgð í Bosníu? (SJS: Það á að fara að sínum eigin forsendum.) Bar alþjóðasamfélagið enga ábyrgð í Kosovo? Bar alþjóðasamfélagið enga ábyrgð í Afganistan? Í Rúanda? Í öllum þessum tilvikum er ljóst að samþykki Sameinuðu þjóðanna lá ekki fyrir. En það lá fyrir að Sameinuðu þjóðirnar voru þeirrar skoðunar að þarna væri mjög alvarlegt ástand. Og í öllum tilvikum er talið að gripið hafi verið of seint til aðgerða.

Hins vegar verðum við líka að líta þetta mál í ljósi þess ástands sem er hjá Sameinuðu þjóðunum. Hvernig neitunarvaldi er beitt. Og hvernig Sameinuðu þjóðirnar starfa. Okkur ber að bæta starfsaðferðir Sameinuðu þjóðanna. Það gengur ekki að þjóðir hafi jafnríkt neitunarvald og þær hafa eins og raun ber vitni. Eða er hv. þm., Steingrímur J. Sigfússon, sammála því að Bandaríkjamenn beiti neitunarvaldi skipti eftir skipti (SJS: Nei.) að því er varðar Palestínu? (SJS: Nei.) Vill hann halda því áfram? (SJS: Nei.) Áttu Frakkar þá heimild til þess að beita algjörlega neitunarvaldi að því er varðar Írak eins og þeir gerðu? (SJS: Hvað höfðingjarnir hafast að ...)