Þátttaka sveitarstjórnarmanna í Evrópusamstarfi

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:56:58 (1231)

2003-11-05 14:56:58# 130. lþ. 21.7 fundur 212. mál: #A þátttaka sveitarstjórnarmanna í Evrópusamstarfi# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi EKH
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:56]

Fyrirspyrjandi (Einar Karl Haraldsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir yfirferð hans á þessu máli. Enginn þarf að efast um áhuga hans á að koma áfram auknum áhrifum sveitarstjórnarmanna á Evrópusamstarfið eins mikilvægt og það nú er eins og hv. þingmenn hafa bent á í umræðunni.

En það sem mér fannst vanta í málflutning hans var kannski það mat á því hvort það væri líklegt að EES-leiðin í þessu væri í rauninni líkleg til árangurs. Er líklegt að hægt sé að fá aðgang að svæðisnefnd sveitarstjórna innan ESB? Og er líklegt að EFTA vilji koma upp einhvers konar sveitarstjórnarráði?

Mjög mikilvægt er að átta sig á því hversu raunhæfar þessar leiðir eru. Eins og áður hefur komið fram hjá framsóknarmönnum hefur það verið stefna þeirra að byggja á EES-samningnum til þrautar. En takist ekki að ná fram endurskoðun á honum eða uppfærslu innan tíðar hlýtur að reka að því að hugað verði að aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Athyglisvert er í þessu sambandi að samkvæmt blaðafregnum virðist ekki vera mikil samstaða meðal utanríkisráðherra EFTA um hvað eigi að leggja áherslu á í sambandi við endurskoðun EES-samningsins né heldur mikil líkindi til þess að framkvæmdastjórnin og ráðherraráð Evrópusambandsins ljái máls á slíkri endurskoðun.