Framkvæmdir Landsvirkjunar í Vonarskarði

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:42:42 (1248)

2003-11-05 15:42:42# 130. lþ. 21.17 fundur 63. mál: #A framkvæmdir Landsvirkjunar í Vonarskarði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:42]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fsp. fyrir hæstv. umhvrh. varðandi gamalt mál að vísu, en það eru framkvæmdir sem Landsvirkjun réðst í fyrir alllöngu uppi í Vonarskarði. Lengi hefur leikið mikil dulúð í kringum þær og gengið erfiðlega að fá upplýsingar um hvað þarna fór fram og hver staða þeirra framkvæmda var gagnvart leyfisveitingum og öðru slíku.

Við hæstv. umhvrh. sáum með eigin augum í sumar ummerkin um að Landsvirkjun fór með jarðýtur inn á þetta svæði, inn í mitt Vonarskarð, og gerði þar tilraunir til að snúa við vatni úr upptakakvíslum Skjálfandafljóts og veita því suður yfir heiðar í gegnum Köldukvísl. Að vísu hafa náttúruöflin tekið til sinna ráða og að mestu leyti ónýtt þessar framkvæmdir þar sem um var að ræða sandgarða að hluta til á flötum söndum á vatnaskilum Skjálfandafljóts og Köldukvíslar. En eftir standa þó ákveðin ummerki og m.a. allmikill grjót- eða malargarður sem veitir vatni til suðurs umfram það sem væri ef náttúruleg skilyrði og halli á landi fengju að ráða.

Þetta er athyglisvert mál fyrir ýmsar sakir og mér finnst ástæða til að upplýst sé um það. Ég hef því lagt þessa fsp. fyrir hæstv. umhvrh. sem vonandi getur að einhverju leyti upplýst um málið vegna þeirra stofnana sem með slík mál fara og undir ráðuneytið heyra. Að öðru leyti væri kannski ástæða til að rekja garnirnar jafnframt úr hæstv. iðnrh. og má vera að það verði gert síðar.

Spurningar mínar til hæstv. ráðherra eru eftirfarandi:

,,1. Hvaða upplýsingar hefur umhverfisráðuneytið um framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar í Vonarskarði á árum áður þegar gerð var tilraun, að því er virðist, til að veita vatni úr upptakakvíslum Skjálfandafljóts suður yfir vatnaskil í Köldukvísl?

2. Hafði Landsvirkjun tilskilin leyfi til þessara framkvæmda?

3. Kemur til greina að umhverfisráðuneytið beiti sér fyrir því að verksummerki um þessar framkvæmdir verði afmáð?``