Starfsmenntun leiðsögumanna

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 19:51:50 (1294)

2003-11-05 19:51:50# 130. lþ. 21.23 fundur 175. mál: #A starfsmenntun leiðsögumanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[19:51]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Árið 2000 voru gerðar lagabreytingar á Alþingi sem færðu leiðsögunám eða Leiðsöguskóla Íslands frá samgrn. til menntmrn. Skólinn, sem var sérskóli, var til húsa í húsnæði Menntaskólans í Kópavogi og var sérnám eftir framhaldsskóla. Þessi lagabreyting var mjög umdeild meðal leiðsögumanna sem mótmæltu henni kröftuglega og tóku bæði allshn. og menntmn. Alþingis tillit til athugasemda þeirra og sögðu í nál. og umsögn að ekki væri með þessu verið að breyta inntaki námsins né inntökuskilyrðum, sem eru 21 árs aldur og stúdentspróf, og nefndirnar lögðu ríka áherslu á að það yrði tryggt.

Nú er svo komið að námskráin fyrir leiðsögunámið er komin í vinnslu í deild í menntmrn. sem vinnur námskrár fyrir framhaldsskóla. Ég nálgaðist drögin á slóð undir heitinu ,,leiðsögubraut`` sem er nám á framhaldsskólastigi. Hér eru líka námskrárdrögin eins og ég prentaði þau út og á forsíðunni stendur: Aðalnámskrá framhaldsskóla.

Ég get ekki séð annað, herra forseti, en að ráðherra sé hér að fara þvert gegn vilja og tilmælum Alþingis þar sem hann er að færa námið niður á framhaldsskólastig samkvæmt þessum upplýsingum. Einnig er samkvæmt drögunum ekki lengur krafist stúdentsprófs en þetta eru hvort tveggja kröfur sem Alþingi gerði þegar málið var afgreitt. Virðist hæstv. ráðherra hundsa báðar kröfurnar ef upplýsingarnar af vef ráðuneytis hans eru réttar.

Hingað til hafa þeir sem starfa sem leiðsögumenn verið með stúdentspróf, þeir eru með háskólafagmenntun svo sem jarðfræðingar, sagnfræðingar, arkitektar, verkfræðingar, bókmenntafræðingar eða með háskólapróf í ýmsum tungumálum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Dettur honum í hug að háskólamenntað fólk fari niður í menntaskóla til að ná sér í leiðsögumannsréttindi? Og mig langar að bæta því við að ef sú verður raunin verður námið e.t.v. ekki lengur lánshæft. Ég velti fyrir mér, ef þetta er rétt, hvað hæstv. ráðherra gangi til.

Við fáum 9 milljarða kr. í skatttekjur af ferðaþjónustu á ári. Þetta er mjög mikilvæg atvinnugrein. 11% þjóðarinnar starfa við ferðaþjónustuna og við eigum engan ferðaþjónustuskóla fyrir það fólk. Við erum hins vegar með tvo landbúnaðarháskóla en við landbúnað vinna aðeins 4% þjóðarinnar. Ég veit ekki hverjar skatttekjur þeirrar atvinnugreinar eru.

Með því að krefjast ekki stúdentsprófs heldur tveggja ára framhaldsskólamenntunar er líka hætt við að þetta nám miðist við þá sem detta út úr menntaskóla en ekki hámenntað fólk eins og nú er í þessum störfum. Það verður mikið áfall fyrir ferðaþjónustuna ef hæstv. ráðherra ætlar að fara þessa leið og minnka þær kröfur sem við höfum hingað til gert til þessa hluta ferðaþjónustunnar sem er leiðsögnin. Þetta er fólkið sem er í beinum tengslum við ferðamanninn og það verður að gefa rétta mynd af landi og þjóð og vera trúverðugt. Þetta er ekki leiðin til þess. (Forseti hringir.)

Ég hef, herra forseti, borið nokkrar spurningar undir hæstv. ráðherra sem eru á fyrirspurnablaðinu en ég hef ekki tíma til að lesa þær upp.