Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 16:43:28 (1408)

2003-11-10 16:43:28# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, AKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[16:43]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir hefur misskilið orð mín áðan þegar ég var að tala um þátttöku í umræðunni. Ég var ekki að vísa til umræðunnar um lax- og silungseldi heldur var ég að vísa til umræðunnar hér á Alþingi almennt. Hér brennur því miður mjög oft við að engir aðrir eru í þingsölum en þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna. Hér hafa nokkrir þingmenn stjórnarflokkanna verið viðstaddir umræður um lax- og silungsveiði, ekki alltaf margir en þó alltaf hv. formaður landbn., það má hún eiga.

Það var ekki þessi umræða sem ég var að vísa til heldur umræðan almennt. Ég ítreka að það er mikilvægt að sem flest sjónarmið komi fram í umræðum. Ég benti á að meðferð frv. sem við höfum hér í höndunum núna og þær fjölmörgu breytingartillögur sem við það hafa verið gerðar eru vottur um hversu mikilvæg umræðan er.

Mér er fullkunnugt um allar tillögur meiri hluta landbn. við frv. sem upphaflega lá fyrir og var samþykkt í vor. Þær eru vissulega allar til bóta en ekki nægilega, að mati okkar í minni hluta nefndarinnar.