Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 17:44:57 (1424)

2003-11-10 17:44:57# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, GAK
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[17:44]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Við höfum lengi dags hlýtt á umræður um þetta mál og þær tillögur sem uppi eru í því. Ég hef skilið hæstv. landbrh. þannig að hans vilji í málinu væri að teygja sig eins langt og mögulegt er, ég veit að hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef ég hef misskilið hann, til að forða því að slys verði í íslensku lífríki og það megi koma í veg fyrir það með öllum tiltækum ráðum. Ég hef jafnvel leyft mér að skilja hæstv. ráðherra þannig að hann vilji hafa þær reglur og lög í hendi sem þarf til að geta stöðvað innflutning á, eins og segir í brtt., jafnvel hrognum og svilum. Hæstv. ráðherra og hv. landbn. virðast, til að koma í veg fyrir að hér verði flutt inn erfðaefni sem gæti borið með sér sjúkdóma, tilbúin að teygja sig ansi langt í að setja upp girðingar í þá veru. Ef ég skil þau orð sem hér hafa fallið í umræðunni í dag þá hlýt ég að skilja þau þannig að tilgangur ríkisstjórnarinnar, hæstv. landbn. og núna landbrh., eftir allar þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið, sé umfram allt að koma í veg fyrir að hér verði nokkurt slys í framtíðinni af þeim völdum sem menn hafa rætt.

Þá held ég að liggi beinast við, virðulegi forseti, að orða það hvort hæstv. landbrh., sem hér hefur lýst hinum mikla vilja sínum til að koma málinu í sem bestan farveg, geti ekki tekið undir það að þær tvær brtt. sem hér liggja fyrir, annars vegar frá meiri hlutanum og hins vegar frá minni hlutanum, verði báðar samþykktar í dag, hvor eftir efni sínu og felldar þannig hvor að annarri að úr megi gera málamiðlun sem kæmist næst því að hafa ekki bara tryggt hæstv. landbrh. kút og kork og gleraugu heldur jafnvel komið honum í flotgallann. Það er kannski akkúrat það sem blessaður ráðherrann hæstv. þarf á að halda í þessu máli, að koma honum í flotgalla.

Ég held að við stöndum í raun frammi fyrir því og ég ætla að spyrja ráðherrann beint að því: Hvað er því til fyrirstöðu, hæstv. ráðherra, að þær tillögur sem hér eru uppi, annars vegar meirihlutatillaga landbn. og hins vegar frá minni hlutanum, verði sameinaðar og felldar inn í málið með þeim hætti sem mér sýnist greiðlega hægt?

Í fyrsta lagi, virðulegi forseti, sýnist mér sem mjög auðvelt yrði að taka tillögu meiri hlutans og fella hana inn í fyrri málslið 1. efnismgr. 6. gr. þar sem inn kæmu orðin: ,,þ.m.t. hrogn og svil`` og síðan komi í lok fyrri málsliðar 1. efnismgr. setningin: ,,reglugerða sem landbúnaðarráðherra setur að fengnum umsögnum embættis yfirdýralæknis, fisksjúkdómanefndar, Veiðimálastofnunar og erfðanefndar landbúnaðarins``. Þannig samþykkt mundi 1. mgr. tryggja, með sáttarvilja og skynsemi hæstv. landbrh., að ekki yrði gengið lengra í þá veru. Á móti kæmi að 2. efnismgr. 6. gr. félli brott samkvæmt tillögu minni hlutans, sem samkvæmt efni sínu á að taka þar nákvæmlega við, því hún bætist við 1. mgr. hvort sem hún verður samþykkt óbreytt eða ekki. Þá mundi 2. efnismgr., eins og lögin eru eftir 2. umr., falla niður en inn kæmi tillaga minni hlutans um að málið heyri ekki aðeins undir landbrh. heldur líka umhvrn. að því er varðar verndun tegunda, stofna, vistgerða eða vistkerfa.

Þar með teldi ég málinu borgið, virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. landbrh. sem hér hefur lýst eindregnum sáttarvilja sínum í málinu geti sagt sem svo að hann hafi ekki bara fengið þau sundtæki sem honum hafa verið fengin heldur einnig að lokum verið troðið í björgunarbúninginn, virðulegi ráðherra. Það dugir kannski mönnum til framdráttar í þessu máli ella sýnist mér það, ef málið verður eingöngu afgreitt eins og meiri hlutinn leggur til, ekki í nægilega góðum höndum.