Sjálfboðastarf

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 18:57:39 (1447)

2003-11-10 18:57:39# 130. lþ. 23.10 fundur 275. mál: #A sjálfboðastarf# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[18:57]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég er ein af meðflm. þessarar þáltill. um eflingu sjálfboðastarfs. Við erum flm. úr öllum flokkum sem styðjum þetta ágæta mál og ég held að allir geti verið sammála um að störf sjálfboðaliða eru mikilvæg og oft vanmetin. Því er ástæða til þess að fara að ráðum Evrópuráðsþingsins og þeim tilmælum til aðildarríkjanna að meta starf sjálfboðaliða að verðleikum. Eins og kemur fram í grg. má ætla að störf sjálfboðaliða geti verið allt að 10--20% af landsframleiðslu hvers ríkis. Þetta er falið í hagskýrslum okkar og því er jafnsjálfsagt að gerð sé úttekt á þessu hér sem annars staðar.

Eins er áhugavert að skoða hvort starfsreynsla í sjálfboðastarfi sé ekki jafngild og í launuðu starfi þegar verið er að sækja um störf og þá eigi atvinnurekendur einnig að taka tillit til reynslu í sjálfboðaliðastarfi sem öðru. Þetta er að hluta til í sama anda og till. til þál. um eflingu félagslegs forvarnastarfs sem við, þrír þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, höfum lagt fram en þar viljum við gera meira en þessa úttekt sem fram kemur í þáltill. og að efla virðingu fyrir sjálfboðaliðastarfi. Við viljum að unnin verði rammaáætlun um eflingu hvers kyns félagslegs forvarnastarfs sem verði liður í aðgerðum til að berjast gegn notkun ávana- og fíkniefna og efla þroska, félagsvitund og bæta andlegt og líkamlegt heilbrigði ungs fólks. Við erum að taka þarna út ákveðna þætti því að eins og við vitum er sjálfboðavinnan ekki síður í íþróttafélögunum og í félagslegu forvarnastarfi barna og unglinga en hjá hinum fullorðnu og þá ekki síður hjá öldruðum. Við þekkjum öll framlög hjálparsveitanna sem eru ómetanleg og vekur aðdáun og umhugsun margra útlendinga. Það vekur virðingu margra hversu óhemjumikið vinnuframlag menn eru tilbúnir til að leggja á sig til að vinna að hjálparsveitarstarfi.

Ég tel að þessi þáltill. ætti eftir slíka kortlagningu að hjálpa okkur að nýta betur störf þeirra sem vinna sjálfboðastörf og meta framlag þeirra að verðleikum og þá á sama tíma að geta styrkt þau félagasamtök sem sjálfboðaliðarnir vinna í því að með meiri virðingu og skilningi fyrir þeirra störfum ætti samhliða að koma aukinn opinber stuðningur og bætt aðstaða til að efla hvers kyns félagsstarf þeirra sem vinna í sjálfboðavinnu.