Mælingar á þrávirkum efnum í hvölum

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:53:26 (1565)

2003-11-12 15:53:26# 130. lþ. 26.9 fundur 160. mál: #A mælingar á þrávirkum efnum í hvölum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:53]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Hæstv. forseti. Tilefni fsp. minnar er að undanfarið, raunar nokkur ár en einnig undanfarnar vikur og mánuði, hafa borist fregnir af mælingum á þrávirkum efnum í hvölum og öðrum sjávardýrum á norðurslóðum. Því er sjálfsagt að spyrjast fyrir um mælingar á þrávirkum efnum í hvölum sem hér hafa verið veiddir eða hér hefur rekið. Að mínum skilningi og upplýsingum eru þetta efni af því tagi að dýrið þarf ekki að vera nýskotið til að hægt sé að mæla efnin á skilvirkan hátt í vefjum þess.

Því er spurt m.a. vegna þess að þrávirk lífræn efni eru auðvitað eins og við vitum stórhættuleg og á upplýsingasíðum umhvrn. og Umhverfisstofnunar er sérstaklega varað við ákveðnum matvælum. Þungaðar konur eru t.d. varaðar við að borða oftar en hóf er að ýmislegt sjávarfang og þar á meðal hrefnu oftar en tvisvar í viku, að ég hygg. Þó kemur fram að ekki hafa farið fram mælingar á hrefnunni né öðru hvalmeti á Íslandi sem gefur réttan grunn undir slíkar leiðbeiningar eða höfðu ekki farið fram og voru ekki grunnur þeirra leiðbeiningaa sem þarna komu fram.

Því er spurt:

Hafa verið mæld þrávirk efni í hvölum á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar? Ef svo er, hverjar eru niðurstöður mælinganna?