Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 11:59:13 (1591)

2003-11-13 11:59:13# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[11:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. ver nánast allri ræðu sinni í framboð Íslands til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og ég geri í sjálfu sér ekki athugasemdir við það þótt maður sakni vissulega ýmiss sem hefði verið áhugavert að ræða, það er annað mál. Út af fyrir sig er aldrei hægt að koma öllu fyrir í einni ræðu og það má ekki vera svo að einhverjir tilteknir málaflokkar séu hér endalaust skylduumræðuefni án tillits til þess hvort þannig standi sérstaklega á að þar sé eitthvað uppi við. Vissulega er þetta stór atburður sem fram undan er þannig að í sjálfu sér geri ég ekki athugasemdir við það að ræðan sé byggð upp með þessum hætti, enda hefði það lítið upp á sig, hæstv. utanrrh. ræður sinni ræðu. Hitt er annað mál sem mér er miklu meira umhugsunarefni ef verið er að gefa þann tón að í raun og veru muni meira og minna öll utanríkismál á Íslandi og uppbygging utanríkisþjónustunnar og áherslur snúast um þetta eina mál næstu fimm árin eða sjö því að það er nú ekki nema árið 2003 og það er nokkur tími til stefnu. Ég vona því að við komum öðru að og að hægt sé að sinna öðrum málum þessi fimm ár sem fram undan eru fram til 2008 þangað til á það reynir í lokin með kosningu að hausti 2008 hvort við fáum þarna sæti.

Fyrst held ég að óhjákvæmilegt sé, herra forseti, að fara í ákveðna málsvörn fyrir hann Bjart í Sumarhúsum. Hæstv. ráðherra vitnar í Bjart og, ef ég skil rétt, er Bjartur þar fram dreginn til vitnis um einangrunarhyggju Íslendinga. Fyrir mér endurspeglar þetta algeran misskilning utanrrh. eða ræðuritara hans á eðli Bjarts og því sem skáldið er að láta þessa ágætu sögupersónu segja. Fyrir mér er Bjartur fyrst og fremst dæmi um þann sem er tilbúinn til að fórna nánast öllu fyrir sjálfstæði sitt, fyrir það að vera sjálfs síns herra, og kannski í öðru lagi er Bjartur dæmigerður fyrir þrjóskuna, fyrir seigluna sem er þess auðvitað valdandi að þjóðin lifir af í þessu landi. Kannski er besta sagan í Sjálfstæðu fólki, sem vitnar um þrjósku Bjarts, sú þegar hann ríður hreindýrinu og lætur nú ekki laust fyrr en í fulla hnefana, eins og þeir muna sem kunna þá sögu.

Mér finnst sú tilvitnun sem hæstv. ráðherra tekur í Bjart um mannhelvítin sem eru að murka lífið hver úr öðrum úti í löndum af fábjánaskap eða þó að það sé af hugsjón, fyrst og fremst vera til marks um að þar er heimskan skoruð á hólm, fánýtið og tilgangsleysið í því að vera að murka lífið hver úr öðrum.

Eigi þetta að sýna, sem oft er haldið fram, að Íslendingar hafi verið og séu jafnvel enn einhverjir sérstakir einangrunarhyggjusinnar þá mótmæli ég því. Það er söguleg fölsun að mínu mati að halda því fram. Íslendingar hafa aldrei frá söguöld verið sérstakir einangrunarsinnar. Það er rangt. Íslendingar voru sérstaklega mikil siglingaþjóð meðan þeir höfðu efni til þess, það var metnaðarmál manna að mennta sig með því að sigla og Íslendingar voru frægir í nágrannalöndunum sem miklir ferðalangar. Merkasti ferðalangur sögualdar er Íslendingur, Guðríður Þorbjarnardóttir. Það eru engin dæmi úr sögum frá þeim tímum um manneskju sem ferðast annað eins.

Hvað gerðu Íslendingar þegar þeir gerðu Gamla sáttmála? Þeir lögðu sérstaka áherslu á að halda uppi samgöngum til landsins því þeir vissu hvers virði það var að hafa samgöngur og viðskipti við aðrar þjóðir. Jafnvel á hinum dimmustu dögum síðmiðalda vakti þrátt fyrir allt víðsýni og lærdómur Íslendinga athygli þeirra sem hingað komu. Menn gengu inn í moldarkofana og ræddu þar heimsbókmenntirnar á latínu við menn sem bjuggu við þvílíkar aðstæður. Margir ferðalangar sem sóttu Ísland heim undruðust þrátt fyrir allt, þrátt fyrir fátækt og landfræðilega einangrun þjóðarinnar, þann víða sjóndeildarhring sem hér var oft að finna í þessum efnum.

Ég held að íslenskir bændur og fólk í sveitunum séu alveg sérstakir heimsborgarar með sterkar rætur að vísu í sínu samfélagi og sínum heimabyggðum. Ég verð að segja alveg eins og er að eina einangrunarhyggjan eða eini komplexinn sem ég verð var við af þessum toga er svona þessi smábæjar- eða smáborgarkomplex, að stærri þéttbýlisstaðir skammist sín eitthvað fyrir það að vera ekki nógu stórir, vera ekki milljónaborgir. En ég verð ekki var við það hjá íslensku sveitafólki þannig að fyrir hönd þess frá upphafi til enda, að Bjarti í Sumarhúsum meðtöldum, þá mótmæli ég þessu. Það er alveg út úr kú að draga hann til vitnis um einhverja skaðlega einangrunarhyggju. Hann var sjálfstæðissinni og hann skoraði heimskuna á hólm þar sem hann taldi sig mæta henni. Það er ekkert sem menn eiga að skammast sín fyrir.

Varðandi framboðið til öryggisráðsins aftur, sem hæstv. ráðherra eyðir miklum tíma í, þá er það að sjálfsögðu þannig að þar eru mörg göfug markmið sett á blað í kaflanum um undirbúning framboðsins og markmið og áherslur Íslendinga. En þá er spurning, eins og t.d. þegar talað er um að framboð Íslands eigi að vera sérstakt framlag til friðar og stöðugleika í heiminum, að Ísland muni leggja áherslu að það verði gert með ófrávíkjanlegri virðingu fyrir grundvallarmannréttindum, eflingu lýðræðis, baráttu gegn fátækt, virðingu fyrir grundvallarreglum þjóðaréttar. Allt hljómar þetta ákaflega fallega, en rísum við þá undir því, Íslendingar, í okkar áherslum? Hvernig var með afstöðu Íslands til innrásarinnar í Írak? Var hún virðing fyrir grundvallarreglum þjóðaréttar? Nei. Grundvallarreglur þjóðaréttarins voru brotnar vegna þess að það var ekki fyrir hendi skýr heimild öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til valdbeitingar á grundvelli þeirra ákvæða stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem krefjast slíks. Hún var bara ekki fyrir hendi. Ég tek undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi hér áðan, og ber þá nýrra við að ég get gert mörg af orðum hans að mínum, um hin undarlegu sinnaskipti utanrrh. sem fram til 17. mars hélt tvennu fram: að það ætti að gefa vopnaeftirlitinu meiri tíma og það þyrfti nýja og sjálfstæða ályktun í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Svo var blaðinu snúið við á tveimur sólarhringum og 19. mars var komið allt annað hljóð í strokkinn.

Ég nefni í öðru lagi það sem utanrrh. segir varðandi markmið og áherslur Íslands, sem út af fyrir sig hljómar líka fallega, að það eigi að leggja sérstaka áherslu á afvopnunarmál með sérstakri áherslu á að vinna gegn útbreiðslu gereyðingarvopna. Þetta er gott og hljómar vel. Ég tel reyndar að það sé ekki síður nauðsynlegt að takast almennt á við vopnaviðskipti og vopnamarkaðinn í heiminum. Ég er eindreginn stuðningsmaður þeirrar hreyfingar sem komin er á að næsti stóri alþjóðasamningur af því tagi sem gerður var t.d. um jarðsprengjur eigi að vera um vopnaviðskipti, hann eigi að vera um upplýsingagjöf og gagnsæi og reglur og takmarkanir á vopnaviðskiptum inn á ófriðarsvæði o.s.frv. Og þá eru menn fyrst og fremst að tala um hin léttu vopn sem eru náttúrlega að uppistöðu til þau sem því miður eru notuð og beitt er á lifandi fólk úti um allan heim í öllum borgarastyrjöldunum og skærunum sem fram fara. En gereyðingarvopnin eru vissulega líka mikilvæg, en erum við þá sjálfum okkur samkvæm í þeim efnum?

Hver var það sem hafði þau áhrif á stefnu síns flokks að framsóknarmenn hurfu frá stuðningi við frv. um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum, fyrir gereyðingarvopnum? Ég veit ekki betur en það sé hæstv. núv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson. En flokksbræður hans, þar á meðal formaður Framsfl. og formaður þingflokks Framsfl. á sinni tíð, Steingrímur Hermannsson og Páll Pétursson, fluttu það frv. ásamt með þeim sem hér talar. Það var svo hæstv. utanrrh., nýkominn í það embætti, sem lagðist gegn því og fór að tala gegn frv. en segir svo hér að ein aðaláherslan í okkar starfi og framboði til öryggisráðsins eigi að vera áhersla á að vinna gegn útbreiðslu gereyðingarvopna. Eigum við þá ekki að taka til heima hjá okkur og byrja á því að friðlýsa Ísland?

Í þriðja lagi nefnir hæstv. ráðherra Alþjóðasakadómstólinn, og það er vel og það er mikilvægt mál, í beinu framhaldi af umfjöllun sinni um markmið og áherslur er komið inn á Alþjóðasakadómstólinn. En þá spyr ég aftur: Erum við líka sjálfum okkur samkvæm þar? Hefur Ísland svarað málaleitan Bandaríkjanna um að Bandaríkin komist upp með að vera undanþegin lögsögu Alþjóðastríðsglæpadómstólsins? Hefur Ísland gert það? Ég vildi gjarnan fá það upplýst hér við umræðuna. Er Ísland alfarið andvígt því að Bandaríkjamenn verði undanþegnir lögsögu Alþjóðastríðsglæpadómstólsins? Verður framboðið til öryggisráðsins m.a. rekið á þeim grunni? Þetta er spurning um afstöðu sem mun koma upp og það verður spurt: Er Ísland sjálfu sér samkvæmt í atriðum af þessu tagi? Og haldandi áfram með þá hluti, hver er afstaða Íslands til mannréttindabrotanna sem fram fara af hálfu Bandaríkjamanna í Guantanamo á Kúbu? Hefur Ísland mótmælt því að um 500 manns er haldið þar án dóms og laga, utan alls réttar, eins og skepnum í einangrunarbúrum, njóta hvorki verndar sem stríðsfangar né sem almennir borgarar? Bandaríkjamenn búa til nýtt réttarhugtak, að þeir séu hryðjuverkamenn og þar með séu þeir utan við allan hinn skipulagða alþjóðlega rétt og það sé hægt að halda þeim þarna eins og skepnum mánuðum og missirum og árum saman. Hefur Ísland mótmælt þessu við bandarísk stjórnvöld? Það eru hlutir af þessu tagi, herra forseti, sem ég held að muni koma í sviðsljósið í ríkari mæli í tengslum við framboð Íslands til öryggisráðsins og það er út af fyrir sig ágætt.

Varðandi í fjórða lagi það sem sagt er um endurskipulagningu öryggisráðsins, þá fagna ég því út af fyrir sig að opinberlega er afstaða Íslands sú að við styðjum viðleitni Kofi Annans til endurskipulagningar á starfsemi öryggisráðsins. Nú veit ugglaust hæstv. utanrrh. að það eru miklar efasemdir um að það mál náist nokkurn tíma fram bara í formi einhverra umbóta á núverandi skipulagi, í formi þess að fjölga ríkjum, jafnvel bæta við einhverjum ríkjum með fast sæti og takmarka neitunarvaldið. Þeirri skoðun vex fylgi, a.m.k. meðal fræðimanna á þessum sviðum, að kannski verði að endingu eina leiðin að leggja öryggisráðið niður og stofna á grunni þess nýja stofnun, einhvers konar framkvæmdastofnun öryggismála þar sem gamla neitunarvaldið verður alls ekkert til staðar. Er líklegt t.d. að Frakkar sleppi nokkurn tíma sínu neitunarvaldi og þær þjóðir sem í ljósi aðstæðna í lok seinni heimsstyrjaldar fengu sérstaka stöðu innan öryggisráðsins, sem er algjör og augljós tímaskekkja í ljósi aðstæðna í dag, en er þarna? Og ég spyr hæstv. utanrrh.: Væri Ísland tilbúið til að tala fyrir svo róttækum aðgerðum eins og þeim að öryggisráðið verði lagt niður og stofnuð verði það sem menn hafa þá gjarnan kallað einhvers konar framkvæmdastofnun öryggismála í heiminum þar sem þessu neitunarvaldi gömlu stórþjóðanna verði ekki fyrir að fara?

Ég tel að Ísland sem smáríki ætti að taka það alvarlega til athugunar að skipa sér í hóp þeirra ríkja sem fremst eru og lengst vilja ganga í því að endurskipuleggja þetta kerfi, m.a. og ekki síst til þess að gera það lýðræðislegra, gera möguleika smáríkja með samtökum sínum til þess að hafa áhrif meiri o.s.frv.

Auðvitað munu síðan hlutir eins og framlög til þróunaraðstoðar koma þarna við sögu og það er fullkomlega réttmætt að hafa það uppi á borðinu í þessum umræðum, þó ekki væri nema í sjálfs síns rétti þá eigum við að ræða það. Þar er staðan sú, því miður, að þó að menn flaggi því að með heildarútgjöldum og þar með talið og ekki síst til íslensku friðargæslunnar hafi þetta hækkað, þá eru framlög til hinnar eiginlegu uppbyggilegu þróunarsamvinnu, þ.e. til framkvæmda í þróunarríkjunum, áfram jafnsorglega lág vegna þess að aukningin er að minnstu leyti þar. Hún er til friðargæslunnar, og ef það er dregið frá standa áfram eftir þessi 0,11--0,12% af þjóðartekjum. Ef það er svo haft í huga að inn í það flokkast t.d. framlög til ýmissa alþjóðastofnana, reksturs Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér og annað í þeim dúr, þá stendur eftir til eiginlegrar uppbyggingarstarfsemi í þróunarríkjunum langt innan við 0,1 af hundraði af þjóðartekjum. Það er hin dapurlega staðreynd þessara mála.

Ég vil líka taka undir það og hafði hugsað mér að spyrja sérstaklega um kostnaðaráætlun í sambandi við framboð til öryggisráðsins. Er búið að vinna kostnaðar- og aðgerðaáætlun sem taki til þeirra ára sem fram undan eru fram til 2008 og síðan auðvitað rekstursins á þeim tveimur árum sem Ísland verður þarna inni ef svo fer?

Kjarnaatriði í þessu finnst mér þó vera, herra forseti, að það veltur allt á því í mínum huga, og ég held að ég tali þar fyrir munn margra, margra fleiri, hvort Ísland á uppbyggilegt málefnalegt erindi inn í öryggisráðið. Þetta er ekki eitthvert formsatriði, þetta er ekki skrautfjöður, þetta er ekki titill sem er kaupandi fyrir marga milljarða króna. Ef reisn verður hins vegar að framgöngu Íslands inni í öryggisráðinu, ef til kemur, vegna þeirrar pólitíkur sem þar verður fram flutt, þá getur það verið mikils virði fyrir okkur. En þá þarf líka, herra forseti, að reka sjálfstæða utanríkisstefnu á Íslandi. Þá verðum við að þvo það af okkur að vera eitthvert leppríki Bandaríkjamanna þarna inni og hengja okkur aftan í þá með niðurlægjandi hætti eins og gert hefur verið í sambandi við Írak, Afganistan og fleiri slík tilvik. Og væri nú fróðlegt að ræða það hressilega við hæstv. utanrrh. við betra tækifæri, t.d. þegar nú er notuð sem höfuðröksemd að Saddam Hussein hafi verið vondur maður.

[12:15]

Auðvitað var Saddam Hussein vondur maður. Auðvitað var þetta skelfileg harðstjórn og ástandið í Írak ömurlegt í mannréttindamálum og öðru slíku. En ástandið í Írak var líka skelfilegt vegna viðskiptabanns í á annan áratug sem Bandaríkjamenn höfðu forustu um að halda þjóðinni í og kostaði um eina og hálfa milljón manna lífið, og því hefur ekki verið mótmælt. Og Saddam Hussein var jafnmikill mannhundur á 9. áratugnum þegar Bandaríkjamenn og Bretar studdu hann og mokuðu í hann peningum og vopnum. Það er ástæðan fyrir því t.d. að ekki heyrðist múkk á Vesturlöndum þegar efnavopnaárásirnar voru á Kúrda í norðausturhéruðum Íraks. Þá var nefnilega Saddam Hussein bandamaður Vesturlanda. Ef hann hefur notað vopnin, sem er nú reyndar deilt um, hafa það verið efnavopn úr breskri verksmiðju framleidd m.a. með bandarískri tækniþekkingu. Það er staðreynd mála. Og reyndar er ósannað, svo að sagan fái að njóta sannmælis, að um íröksk efnavopn hafi verið að ræða. Bandarískar skýrslur liggja fyrir sem leiða að því líkur að efnavopnin hafi verið frá Íran, enda notuðu þessar þjóðir, sem áttu í stríði á þessu landamærasvæði, efnavopn á víxl hvor gegn annarri. Það er vitað. Þessi mikli glæpur, sem nú er alltaf dreginn fram til réttlætingar því að fara með her inn í Írak, er í því sögulega samhengi að það var þáverandi bandamaður Vesturlanda sem átti í stríði. Hafi hann notað þarna efnavopn á þegna sína voru þau framleidd með vestrænni aðstoð, aðstoð Breta og Bandaríkjamanna. Þannig er hræsnin og tvískinnungurinn í þessu öllu ef farið er ofan í saumana á því.

Sendiráð Íslands hefur borið nokkuð á góma undanfarna daga og hafa ýmsir spekingar verið leiddir þar fram á völlinn til að vitna um þau. Hafa sumir kannski ekki mjög þurrir á bak við eyrun úttalað sig um það mál og talið að þau væru ýmist allt of mörg eða þá á vitlausum stöðum. Ég ætla að segja það um sendiráð Íslands að ég mótmæli því hve lítið er gert úr hlutverki sendiráða Íslands annars staðar á Norðurlöndunum. Mér finnst það furðulegur málflutningur að tala af lítilsvirðingu, næstum að segja niðurlægingu, um hlutverk sendiráða Íslands í Finnlandi og Svíþjóð. Við hverja viljum við helst eiga samstarf? Hvar eru Íslendingar á ferð? Hvar er atriði í sjálfu sér að sinna þeim ef ekki á Norðurlöndunum? Ég hef stutt það sem ég hef talið vera skynsamlega og nauðsynlega uppbyggingu íslensku utanríkisþjónustunnar og geri það hér eftir sem hingað til. Ég áskil mér að sjálfsögðu rétt til að gagnrýna þar einstaka hluti. Ég hef t.d. haft vaxandi efasemdir um að það væri þarft að reka tvö mjög dýr sendiráð í Austurlöndum fjær. Kannski hefði okkur átt að duga annað hvort, sendiráð í Kína eða Japan eða einhvers staðar á því svæði en fyrir því eru auðvitað líka rök.

Herra forseti. Ég hefði ef tíminn hefði leyft gjarnan viljað ræða sérstaklega ástandið í Austurlöndum nær, eins og það er kallað, í deilum Ísraelsmanna og Palestínumanna, og þó sérstaklega þann atburð sem þar er uppi núna og er alvarlegastur af öllu sem gerst hefur síðustu missirin, uppbygging aðskilnaðarmúrsins, apartheid-múrsins. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh.: Hver er afstaða utanrrh. til þess máls? Við höfum lagt fram þáltill. sem gerir ráð fyrir því að Alþingi feli ríkisstjórninni að mótmæla alveg sérstaklega við ísraelsk stjórnvöld byggingu þessa hroðalega aðskilnaðarmúrs. Hann er eitt af því hættulegasta sem nú er að gerast hvað varðar möguleikana á framtíðarlausn deilunnar. Komist Ísraelar upp með að byggja þennan 700 km langa múr, að mestu leyti inni á palestínsku landi, herteknu landi, króa af margar byggðir Palestínumanna, verður lausn deilunnar enn illviðráðanlegri en ella. Það er alveg ljóst þannig að ég tel sérstaka þörf á því að horfa til þessarar aðgerðar þarna, mótmæla henni og gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að þessi áform nái þarna fram að ganga. Ég kem kannski, frú forseti, aðeins nánar inn á þetta mál síðar í umræðunni.