Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 12:24:18 (1594)

2003-11-13 12:24:18# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[12:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki, hv. þingmaður, hvað við eigum að dvelja lengi við þessa fortíð. Hann getur kallað það sinnaskipti. Það voru ekki sinnaskipti að mínu áliti, alls ekki. Við verðum hins vegar að meta stöðuna út frá þeim aðstæðum sem eru uppi á hverjum tíma og það gerði ég í þessu máli.

Landfræðileg lega eins og hv. þm. sagði skiptir enn þá minna máli í dag en fyrir nokkrum áratugum. Ég tel að Ísland sé ekki einangrað land í dag. Ég tel hins vegar að Ísland hafi verið afskaplega einangrað land fyrir svo sem eins og einni öld. Við höfðum litlar samgöngur og vorum í litlu sambandi við umheiminn. En við erum ekki einangrað land í dag, þökk sé nýrri tækni og breyttum aðstæðum í heiminum. Það er það sem við eigum að nýta okkur. Ég hef enga ástæðu til þess að deila neitt við hv. þingmann um það. Ég held að við getum verið sammála um það.

Ég vil þakka honum sérstaklega fyrir að tala hér um sendiráð Norðurlanda. Mér finnst það aldeilis fráleitt að ýmsir haldi því fram að við eigum að leggja niður sendiráð okkar annars staðar á Norðurlöndunum, hafa kannski eitt eftir. Hvaða skilaboð væru það til nánustu samstarfsþjóða okkar? Reikna menn þá með því að þær muni halda áfram að hafa sendiráð á Íslandi? Ég tel ástæðu til þess að mótmæla þessum málflutningi sérstaklega og ég trúi því ekki að á Alþingi Íslendinga séu aðilar sem vilja að sendiráð okkar á Norðurlöndunum verði lögð niður. Það kæmi mér a.m.k. afskaplega mikið á óvart og ég tel að þau skipti okkur miklu máli í samstarfi við alþjóðasamfélagið, enda byggjum við mjög á samstarfi við hinar Norðurlandaþjóðirnar í okkar alþjóðlega samstarfi.