Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 14:49:14 (1617)

2003-11-13 14:49:14# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni vinsamleg orð í garð utanríkisþjónustunnar. Ég er honum sammála --- auðvitað eigum við ekki að sækjast eftir setu í öryggisráðinu skilyrðislaust eða bara til þess að fara þarna inn heldur til þess að láta gott af okkur leiða. En vegna þess að hér hefur ítrekað verið talað um að við förum þarna inn á einhverjum forsendum Bandaríkjanna vil ég aðeins upplýsa hann um skýrslu á Bandaríkjaþingi þar sem gerð var úttekt á stuðningi Íslands í ýmsum málum sem varða Bandaríkin á undanförnum árum. Það vill svo til að þar kemur fram að við liggjum miklu nær Evrópusambandinu en Bandaríkjunum. Nú ætla ég ekki að fullyrða um hvernig það hefur verið á árum áður en það liggur hins vegar fyrir að Bandaríkin hafa verið mikilvæg samvinnu- og vinaþjóð Íslendinga um áratuga skeið, sú þjóð sem fyrst viðurkenndi sjálfstæði landsins. Mér finnst það svona allt að því skína hér í gegn í umræðunni að við eigum að reyna að komast hjá því að standa með Bandaríkjunum, jafnvel þótt það sé í góðum málum. Ég vona að hv. þingmaður eigi ekki við það. (Gripið fram í.) En það er alveg fráleitt, hv. formaður Samf. og vonandi talsmaður, að halda því fram, eins og formaður Samf. gerir hér skipti eftir skipti, að við eigum að leggja sérstaka áherslu á það að vera í einhverjum slag við Bandaríkin. (RG: Það hefur enginn ...) Það hefur komið skýrt fram hér í dag af hálfu Samf. (RG: Þetta er ekki rétt.) (Gripið fram í: ... sérstakur ...bálkur.)