Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 15:39:13 (1629)

2003-11-13 15:39:13# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur borið meira á því og oftar verið nefnt í þessari umræðu en áður að þáttur kvenna þurfi að vera meiri. Það hefur verið talað um að stuðningur við konur í þróunarlöndunum sé mikilvægur og hæstv. utanrrh. hefur tekið undir það. Það er talað um að fjölga konum í friðargæslunni vegna þess að á viðkvæmum svæðum og hjá sumum þjóðum geta t.d. trúmál haft það í för með sér að aðeins konur komist að viðkomandi konum, alls ekki karlar. Rætt hefur verið um konur sem fyrirmyndir í stríðshrjáðum löndum og ég get tekið undir það allt. En þá kemur að spurningu minni eða athugasemd.

Gréta Gunnarsdóttir, varafastafulltrúi hjá sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur víða flutt mjög fróðleg erindi, m.a. hjá UNIFEM á Íslandi. Hún hefur sagt að mjög fáar konur taki þátt í alþjóðlegri öryggisumræðu. Hún hefur leyft sér að áætla að þær séu um 6% þeirra sem hafa tekið þátt í öllum þeim alþjóðlegu ráðstefnum af því tagi sem hún hefur sótt eða vitað um, að konur séu 6% þeirra sem sækja þessar stóru ráðstefnur um öryggismál hér og þar um heiminn, hámark 10% í einstökum tilfellum.

Þá er ég komin að kjarna minnar spurningar: Er ekki meinið að allt of fáar konur eru þátttakendur í alþjóðasamstarfi um öryggismál? Þær eru ekki þar sem sverfur til stáls og eru ekki þar sem stefnan er mörkuð. Allsráðandi á þeim vettvangi eru karlar sem taka ákvarðanir fyrir konur.