Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 15:41:09 (1630)

2003-11-13 15:41:09# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[15:41]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Raunin mun eftir sem áður vera sú að í íslensku utanríkisþjónustunni hefur konum stórfjölgað. Ég hef einnig hlustað á Grétu Gunnarsdóttur fjalla um þessi mál. Hún bendir á að það vantar sýnileika kvenna, konur sem fyrirmyndir og sjónarhorn kvenna í þessa umræðu. Ég tek undir með hv. þm. um það. Þetta er nákvæmlega það sama og Elisabeth Rehn segir í skýrslu sinni.

Konur á þessum stríðshrjáðu svæðum eru að berjast, með öll sín vandamál og sorgir á bakinu, að því að byggja upp samfélagið. Þær eru ekki uppteknar af hefnd. Þær eru uppteknar af verkefnunum fram undan. Til þess að styrkja þær þá þurfa þær að sjá konur, konur í friðargæslu og konurnar sem starfa í þessu alþjóðlega samfélagi. Þær skynja skilning þar á milli sem þær skynja síður frá körlunum.

Hæstv. utanrrh. gat sérstaklega um það í ræðu sinni fyrr í dag að í þeirri vinnu sem fram undan væri í undirbúningi að framboði okkar til öryggisráðsins þyrftu þingmenn, þingflokkar og þingnefndir að koma að starfinu. Ég vænti þess að í því starfi, eins og í ýmsu öðru, verði hugað að því að kynjahlutfallsins sé gætt og konur verði ekki minna áberandi í því en karlar.