Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 15:58:50 (1633)

2003-11-13 15:58:50# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gleðja hv. þm. með því að ég geri mér engar hugmyndir um að sitja í stóli utanríkisráðherra 2009 og 2010. (Gripið fram í.) Já, já, ég veit að það kemur maður í manns stað. En ég tel að það sé aðalatriðið, ekki aðeins af minni hálfu heldur líka Alþingis og annarra stofnana íslenska ríkisins að leggja grunn að því sem koma skal. Hv. þm. telur að við höfum gert mikið glappaskot. Ég tel svo ekki vera, en ég ætla ekkert að standa í neinum deilum við hann af því tilefni, við höfum nóg tækifæri til þess.

En það er nú svo að dómur sögunnar breytist stundum. Ég man vel eftir dómnum að því er varðaði Bosníu, ég man eftir dómnum að því er varðaði Kosovo, en hann breyttist þegar lengra leið frá. Ég held að það hljóti að vera aðalatriðið hvernig tekst til í Írak í framtíðinni, hvernig takast mun að byggja það samfélag upp með lýðræðislegum hætti.

Ég þakka hv. þm. fyrir vinsamleg orð í garð sendiráðsins í New York. Þar er unnið afskaplega gott starf og ég tel mikilvægt að þingmenn kynnist starfi Sameinuðu þjóðanna, ekki bara sérhver þingflokkur heldur hver og einn einasti þingmaður. Ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur öll. Það var mikilvægt fyrir mig á sínum tíma og ég kynntist því allt of seint á þingmannsferli mínum. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að þingmenn eigi að hafa tækifæri til að koma þar og ég hef tekið eftir því að þingmenn annarra Norðurlandaþjóða dvelja þar lengur en okkar þingmenn án þess að ég ætli að leggja mat á það hversu lengi menn eiga að vera þar. En auðvitað kostar þetta allt nokkurt fé, mér er það ljóst, en við verðum að kosta þessu til bæði af hálfu þingsins og utanrrn.