Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 16:28:23 (1642)

2003-11-13 16:28:23# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem af nógu að taka þegar ræða hv. þingmanns er annars vegar en ég ásamt viðkomandi þingmanni tók þátt í störfum utanrmn. í sumar þegar þessi mál bar á góma.

Eitt vakti athygli mína þá sem ég spurði viðkomandi þingmann um og vil spyrja hann aftur vegna þess að engin voru svörin þá. Eins og menn þekkja eru málefni utanrmn. og það sem fer fram í henni, og svo sannarlega á það við um þetta mál, í trúnaði. Það er augljós ástæða af hverju slíkt er; hagsmunir þjóðarinnar eru í veði.

Ég tók eftir því að hér talaði hv. þm. mikið um að utanrrh. hefði átt að upplýsa, ef ég heyrði rétt, formenn flokkanna í trúnaði um málið. Gott og vel. Hvert var útspil Samf. í sumar í þessu máli, Samf. sem samkvæmt hv. þingmanni lagði mikið upp úr því að vinna með ríkisstjórn að þessu máli, í þessu mikla hagsmunamáli? Jú, útspilið var það að aflétta trúnaði af þessum málum. Það var stóra málið sem áhersla var lögð á og ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig samræmist það hagsmunum Íslands í þessu máli --- af því að hér eru menn að velta upp fortíðinni og þetta er bara nokkurra vikna gamalt mál --- á þeim tímapunkti að aflétta trúnaði af þessu viðkvæma deilumáli þegar það stóð sem hæst? Ég fékk ekki svar á þeim tíma þegar ég spurði og vildi gjarnan fá svar við því núna.