Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 16:34:37 (1646)

2003-11-13 16:34:37# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[16:34]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla öfugt við hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson ekki að huga að fortíðinni og helst ekki að atburðum sl. sumars, heldur horfa aðeins fram á við í utanríkismálum. Hv. þm. upplýsti það að hann hefði verið að koma af fundi með Robertson lávarði og fleiri þingmönnum á vettvangi Íslandsdeildar NATO og hann talaði um það að í viðræðum þarna úti hefði verið rætt um framtíð NATO og hvernig verkefni NATO-liðsins annars vegar og Evrópuhraðliðsins hins vegar sköruðust.

Það sem mér leikur forvitni á að vita er hvernig NATO ætlar að bregðast við þessari nýju ógn, þessum aðsteðjandi ógnum sem á okkar tímum eru hin alþjóðlegu hryðjuverk. Af því sem ég hef kynnst af þessum störfum NATO get ég ekki séð að sú þjálfun sem hermenn og aðrir hafa á þessu sviði sé til þess fallin að bregðast við breyttum tímum eða hinni nýju aðsteðjandi ógn. En af því að þingmaðurinn kemur svona sprenglærður og vígreifur af þessum fundi vildi ég aðeins snúa umræðunni annað en að liðnum tíma og atburðarás sumarsins og heyra hugmyndir sem voru reifaðar þarna um hvernig eigi að bregaðst við framtíðinni.