Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 17:34:57 (1664)

2003-11-13 17:34:57# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[17:34]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag. Hún sýnir mjög ljóslega að mikilvægt er að utanríkismál séu rædd á Alþingi með jöfnu millibili. Ég tel að í dag hafi komið ljóslega fram að mikil þörf er fyrir slíka umræðu og ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í henni.

Alltaf má deila um hvað skal ræða af hálfu utanrrh. í slíkri umræðu. Við höfum kosið á undanförnum árum að velja fyrst og fremst ákveðin mál í stað þess að ætla okkur að fara yfir allt sviðið, enda tel ég að það form sem hér er á þessari umræðu leyfi slíkt vart. Í þetta sinn valdi ég að ræða um öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, framboð okkar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þá framtíðarsýn sem við hefðum í því máli fram til 2008, 2009 og 2010. Við erum þar að bregðast við ítrekuðum óskum um kynningu á þessu máli og mér þótti rétt að það kæmi fyrst og fremst fram á Alþingi að við kæmum með einhverja heildarsýn um málið þannig að hér á fyrstu stigum málsins væri eðlileg umræða.

Síðan má alltaf segja sem svo að það sé algjörlega ófullnægjandi að ekki sé minnst á ýmis önnur mál og þessi vettvangur sé ekki notaður til skoðanaskipta um einhver allt önnur mál, hvort sem það er Írak, atvinnumál á Suðurnesjum, öryggismál þjóðarinnar. Mörg önnur mál snerta utanrrn. eins og staðan í Miðausturlöndum, staðan í Írak, Afganistan, Evrópumál, viðskiptamál og öll þau mál sem verið er að fjalla um á vettvangi utanríkismála. Sannleikurinn er sá að þessi málaflokkur snertir með einum eða öðrum hætti sérhvern þátt okkar innanlandsmála. Utanríkismál eru því ekki lengur utanríkismál. Þau eru jafnframt innanlandsmál og engin leið er að skilja þar í milli. Ég tel í reynd að framboðið til öryggisráðsins snerti innanlandsmál okkar, sýn okkar á það fyrir hvað við viljum að Ísland standi og hvað Ísland eigi að gera í framtíðinni.

Umræðunni er að sjálfsögðu ekkert lokið. Hún er rétt að hefjast. Það mun verða vaxandi samráð við ýmsa aðila um þetta mál á næstu árum. Þetta er stórt og metnaðarfullt verkefni sem krefst atbeina allra stjórnarstofnana og þar á meðal Alþingis. Þess vegna fannst mér eðlilegt að við kynntum þetta mál með þessum hætti hér við þetta tækifæri. Ég er þeirrar skoðunar að þetta mál snerti í reynd þróun þjóðfélags okkar, endurspegli þroskaferli þjóðarinnar. Ég held að öll rök séu fyrir því að við höfum náð því stigi á þeim stutta tíma síðan við urðum sjálfstæð þjóð að geta axlað slíka ábyrgð og tekist á hendur slík verkefni. Það er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því sem þjóð hvað við ætlum okkur að gera og hvaða ábyrgð fylgir því. Það er framlag okkar til alþjóðamála en það er jafnframt tæki til þess að þróa og þroska íslenska utanríkisþjónustu. Þess vegna er mjög erfitt að leggja beint mat á hvað þetta muni nákvæmlega kosta. Við munum hins vegar taka það eins ítarlega saman og við getum. Við erum að leggja lokahönd á það. Hins vegar má vel vera að það breytist í tímans rás. Ég get að sjálfsögðu ekki sagt fyrir um hvernig það muni líta nákvæmlega út árið 2008 því að þeir sem standa fyrir málum á þeim tíma þurfa að bregðast við því sem þar kemur fram því að aðalbaráttan í þessu máli verður einmitt á árunum 2007 og 2008 eða eftir næstu alþingiskosningar. Það er þá stjórnvalda á þeim tíma að ákveða hvað verður endanlega gert. Svo má vel vera að þá hafi orðið breytingar á öryggisráðinu. Við erum að berjast fyrir því að breyta öryggisráðinu þannig að fleiri komi þar að. Það getur haft þau áhrif að við fáum jafnvel tækifæri til þess að koma þarna inn eitthvað fyrr eða jafnvel eitthvað síðar. Um það getum við ekkert sagt á þessu stigi.

Sá kostnaður sem þarna verður fyrst og fremst og hægt er að færa beint undir þetta mál er fjölgun starfsmanna í New York, við fastanefndina þar, og jafnframt fjölgun starfsmanna sem þurfa að sinna þessum málum heima á Íslandi og vera þar nánast á sólarhringsvakt vegna þess að það verður að vera stöðugt samband milli okkar fólks í New York og fólks í ráðuneytinu sem síðan verður líka að geta haft samráð við ýmsa aðra aðila, t.d. hin Norðurlöndin. Það liggur ljóst fyrir að hin Norðurlöndin styðja okkur til þessa framboðs á sama hátt og við styðjum t.d. Danmörku í viðleitni þeirra að gerast aðilar að öryggisráðinu 2006 og 2007, og þar á undan voru það Norðmenn.

Ég tel að full ástæða sé til bjarstýni í þessu máli. Ég tel engan vafa leika á því að það er okkur mjög nauðsynlegt sem þjóð að takast á hendur þetta starf og fara í þessa baráttu. En við verðum að sjálfsögðu að gera það með þá trú að við getum það.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að hann hefði nú ekki mikla trú á því að það tækist og vildi þá kenna um á þessu stigi málefnum í Írak. Ég tel út í hött að vera með slíkar ágiskanir og vil minna hv. þm. á það þegar við fórum í starfið að því er varðaði Kyoto. Þá sagði hann á Alþingi að það væri nú alveg ljóst hvernig það endaði, þetta væri nú mál sem Íslendingar gætu aldrei landað. Það varð nú samt raunin að við gerðum það og lukum því máli með fullum sóma þannig að mér finnst engin ástæða til að leggja út í þetta mál með einhverja svartsýni í huga, eins og mér fannst koma fram í máli hans.

Að því er varðar öryggisráðið sjálft, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á, og endurskipulagningu þess þá sagði ég í ræðu minni að ég teldi t.d. Íraksmálið vera dæmi um vissan vanmátt öryggisráðsins. Ég ætla ekkert að útskýra það nánar. Ég tel að það hafi farið eins og fór m.a. vegna þess að þarna er mjög ríkt neitunarvald. Ég er ekki trúaður á að samkomulag takist um það --- og allt byggir þetta nú á því að samkomulag náist á þessu sviði sem öðrum --- að stórveldin sleppi algjörlega neitunarvaldi sínu þó að ég vilji ekki útiloka það. Ég tel það mjög vel koma til greina. Að minnsta kosti tel ég fulla ástæðu til að fara þess á leit mjög ákveðið í þeirri endurskipulagningu að þetta neitunarvald verði verulega takmarkað, að ekki sé hægt að beita því hvenær sem er. En þá er að sjálfsögðu vandinn hvenær á að vera hægt að beita því. Ég býst við því að við gætum verið sammála um að það væri í málum sem skiptu sköpum. Ja, fyrir hverja? Þá vandast nú málið. Ef það skiptir sköpum fyrir mannkyn á þá einhver að geta beitt neitunarvaldi? Það er því mjög vandasamt verk að skilgreina hvenær það væri hægt. En ég tel algjörlega óeðlilegt að stórveldin geti beitt neitunarvaldi í tíma og ótíma.

Hv. þm. hafa lagt hér fram fjölmargar fyrirspurnir sem ég vildi gjarnan hafa tíma til að svara. Ég vil þó koma inn á eitt mál sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi í lokin ásamt mörgum öðrum, þ.e. ástandið í Miðausturlöndum. Ísland hefur mjög ákveðna skoðun á múrnum sem verið er að reisa. Við höfum fordæmt það mál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og greitt atkvæði með ályktun þar um þannig að afstaða okkar alveg skýr. Ég tel alveg ljóst að bygging á þessum múr sé eitt af því sem hefur sett friðarferlið í uppnám og sé ekki réttlætanleg aðgerð af hálfu Ísraelsmanna.

Hv. þm. nefndi að fjölmargar ályktanir er vörðuðu Ísrael og Palestínu væru ekki teknar jafnhátíðlega og ályktanir sem Sameinuðu þjóðirnar hefðu samþykkt, t.d. að því er varðar Írak. Við verðum samt að hafa í huga að allar ályktanirnar í sambandi við Írak frá því að byrjað var að ræða um efnavopnaeign þeirra voru á grundvelli VII. kafla stofnsamnings Sameinuðu þjóðanna þar sem gert er ráð fyrir beitingu valds. En ályktanir sem varða Ísrael eru á grundvelli VI. kafla þar sem ályktununum er beint til aðila, en þar er ekki talað um valdbeitingu. Á þessu er grundvallarmunur þó að ég sé á engan hátt að bera í bætifláka fyrir það að þjóðir heims, og þá sérstaklega Ísrael, fari ekki að ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Þarna er ástandið mjög alvarlegt og að mínu mati er báðum aðilum um að kenna, bæði Ísraelsmönnum og Palestínumönnum. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að Palestínumenn eru veikari aðilinn í þessu máli og ástandið þar er skelfilegt. En ástandið í Ísrael er líka vont og það er alveg ljóst að friður á þessu svæði skiptir alla máli, bæði Palestínumenn og Ísraelsmenn og allar þjóðirnar í kring. Það sama á einnig við um Afríku og alls staðar þar sem ófriður ríkir að friður er forsenda framfara. Það á líka við um Afganistan og Írak. En því miður hefur sagan kennt okkur að stundum þarf að berjast fyrir friði. Það er vondur kostur en það er hins vegar staðreynd.