Umræða um bréf forsætisráðuneytis til Alþingis

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:00:07 (1716)

2003-11-17 16:00:07# 130. lþ. 28.93 fundur 156#B umræða um bréf forsætisráðuneytis til Alþingis# (um fundarstjórn), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:00]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil taka fram vegna þess sem hv. 1. þm. Reykv. n. sagði hér áður að það er rétt að ég tel að við eigum að halda vörð um þá venju sem skapast hefur samkvæmt þingsköpum að annan hvern mánudag hefst þingfundur með því að það eru óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra. Ég tel að það sé ekki viðeigandi að þingmenn kveðji sér hljóðs um störf þingsins áður en til þeirra spurninga kemur til þess að taka upp einstakar fyrirspurnir til ráðherra. Mér finnst sjálfsagt að þetta mál sé rætt við formenn þingflokka. Við höfum einnig reynt undir vissum kringumstæðum að haga svo til að ekki séu utandagskrárumræður heldur. Nú er senn liðin klukkustund og ekki enn lokið umræðum um fyrsta dagskrárliðinn í raun og veru.

Ég vil að þetta sé alveg skýrt. Ég lít svo á að ef menn, á þeim dögum sem óundirbúnar fyrirspurnir eru á dagskrá, sjá ástæðu til þess að beina fyrirspurnum til ráðherra þá geri þeir það með þeim hætti.