Staða nýsköpunar á Íslandi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:27:23 (1727)

2003-11-17 16:27:23# 130. lþ. 28.94 fundur 157#B staða nýsköpunar á Íslandi# (umræður utan dagskrár), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu um það mikilvæga málefni sem hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson hóf máls á. Ég ætla að taka fram í upphafi að ég er ekki sammála hv. þm. Sigurði Kára um að allt sé í besta lagi. Við eigum ekki að sætta okkur við 21. sætið. Við eigum að stefna ofar á þessum lista. Samt sem áður tel ég að við eigum ekki að taka útlenda skýrslu sem einhvern stóradóm um hver staðan er, hvort sem við skorum hátt eða lágt. Oft getur verið erfitt að bera saman ólík þjóðfélög og þess vegna verðum við að túlka niðurstöðurnar með varúð. Oft eru teknir inn þættir sem auðvelt er að mæla en skipta kannski ekki öllu máli þegar á botninn er hvolft.

Þessi samanburður er engu að síður gagnlegur. Hann gefur til kynna hvaða þætti eigi að fara betur yfir. Ég tel að fara þurfi betur yfir málin varðandi nýsköpun. Ýmislegt jákvætt hefur gerst á síðustu árum í nýsköpun í atvinnurekstri. Í fyrsta lagi hefur almennt skapast meiri skilningur á að sinna þurfi nýsköpun og þróun og leggja peninga í rannsóknir.

Annað mikilvægt hefur gerst með stofnun á Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Þegar meta á afrakstur nýsköpunarverkefna á að gefa þeim tíma og sjá hvort verkefnin skili í raun árangri. En það sem veldur okkur áhyggjum nú er að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er tómur. Það er orðin æ meiri tilhneiging hjá hæstv. ráðherrum að hafa sína eigin sjóði og jafnvel eigin nýsköpunarverkefni í rassvasanum.

Nýlega var stofnaður sjóður sem hefur að markmiði að auka virði sjávarafurða, AVS-sjóður. Það væri miklu nær að veita fjármuni í þá sjóði sem eru fyrir í stað þess að stofna nýja sjóði eins og ég heyrði hæstv. iðnrh. minnast á áðan. Hæstv. landbrh. er alveg sér á kvisti varðandi rassvasasjóði til hagræðingar og nýsköpunar. Hæst ber þó ótrúleg útgjöld til svokallaðrar nýsköpunar og hagræðingar við sláturhús landsmanna. Ég tel að fjármunir sem varið er til nýsköpunar og rannsókna nýtist betur með því að renna í þá sjóði sem fyrir eru í staðinn fyrir að stofnað sé til nýrra sjóða.