Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 18:24:00 (1755)

2003-11-17 18:24:00# 130. lþ. 28.5 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[18:24]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er það fyrst og fremst spurning um pólitík og áherslur hversu mikið fjármagn er veitt til þessara niðurgreiðslna. Ég veit að hv. þm. og Samf. hefur lagt mikla áherslu á ábyrga efnahagsstjórnun þannig að ég veit að hv. þingmenn vilja ástunda aðhald í ríkisbúskapnum og þar erum við áreiðanlega alveg sammála.

En hvað varðar þá fjárhæð sem fer til niðurgreiðslu á rafupphitun þá er það fyrst og fremst ákvörðun sem tekin er með fjárlögum hverju sinni eins og kom fram í máli mínu áðan.

Ég vil taka fram út af þessum 5% að það er ákveðið svigrúm vegna þess að með setningu laganna um niðurgreiðslur kom í ljós að einhver lausung hafði verið og eitthvað ekki nægilega nákvæmt í þeim efnum, eins og oft vill nú vera. Við höfum náð að taka á því máli með lagasetningu frá því fyrr á þessu ári og teljum að við höfum eitthvert svigrúm innan þessarar fjárupphæðar án þess að við séum í raun að lækka og það er alls ekki meiningin að lækka framlög til hvers og eins.

Auðvitað verður þetta skoðað betur í hv. nefnd en okkur sýnist að þetta geti orðið og verði vandræðalaust með þeim hætti sem það er sett fram í frv.