Afkoma bankanna

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 14:05:24 (1799)

2003-11-18 14:05:24# 130. lþ. 29.94 fundur 161#B afkoma bankanna# (umræður utan dagskrár), BJJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[14:05]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu utan dagskrár afkoma bankanna. Hér er ekki til umræðu slæmt efnahagsástand hér á landi eða erfiðleikar í bankarekstri líkt og þekktist á níunda áratug síðustu aldar.

Ef við horfum til hagnaðar bankanna á þessu ári þá stafar hann að langmestu leyti annars vegar af gengishagnaði af verðbréfaeign í þeirra eigu. Sá hagnaður stafar m.a. af þeirri gleðilegu þróun að úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur hækkað um 40% á árinu sem sýnir það góða efnahagsástand sem nú ríkir hér á landi. Hins vegar er um að ræða stóraukin umsvif í útlánastarfsemi bankanna, þá fyrst og fremst til fyrirtækja vegna þess að íslensku atvinnulífi vegnar mjög vel og við eigum framsækin fyrirtæki. Ég tel því nauðsynlegt, hæstv. forseti, að umræðan sem hér fer fram sé ekki einfölduð með þeim hætti sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur sett fram.

Á hinn bóginn má segja að hagnaðartölurnar segi að sjálfsögðu líka sína sögu, segi þá sögu að það hefur lengi legið fyrir að vaxtamunur innlána og útlána er talsvert meiri hér á landi en í helstu nágrannalöndum okkar. Þessar hagnaðartölur eru svo háar að þær eru illskiljanlegar venjulegu fólki, viðskiptavinum bankanna. (SJS: En góðar samt.) Og það má spyrja hvort ekki sé nú komið að því að bankarnir fari að minnka þann mikla vaxtamun sem hér ríkir til hagsbóta fyrir heimilin í landinu.