Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 16:20:20 (1831)

2003-11-18 16:20:20# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Einar Oddur Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Við 2. umr. fjáraukalaga hefur umræðan náttúrlega fyrst og fremst snúist um hækkanir til heilbrigðismála. Það kemur ekki á óvart og er eðlilegt. Þær hækkanir eru um þúsund milljónir og reyndar nokkuð meira vegna þess að í verðlagslið fyrir fjmrn., lið 09-989, eru 280 millj. kr. ætlaðar til heilbrigðismála vegna þess að heilsugæslulæknar landsins fá laun samkvæmt kjaranefnd. Þar er að koma inn hækkun sem því er samfara, 280 millj. kr. Það fer allt til heilsugæslunnar. Ég heyrði að einhver spurði áðan hvort það væru engar viðbótargreiðslur til heilsugæslunnar en þær liggja þarna, í verðlagsliðnum hjá fjmrn.

Það hefur borið töluvert á því hjá hv. þingmönnum, mér hefur fundist nokkur samhljómur hjá þeim um það, að hækkanirnar til heilbrigðismála gangi ekki lengur. Menn telja að standa þurfi betur í ístaðinu og sumir hafa látið sem svo að fjárln. hafi ekki staðið í fæturna. Það er sjálfsagt að taka það til sín og viðurkenna hreinskilnislega. Það er enginn að þræta fyrir þetta. Það liggur fyrir að hækkanir til heilbrigðismála á undanförnum árum hafa verið mun meiri en við ætluðum og meiri en við vildum. Staðreyndin er sú að þingið hefur ekki getað stöðvað þessa þróun. Við höfum haft til þess töluverðan vilja og verið með miklar fullyrðingar um að við skyldum leggja okkur öll fram. Það hefur ekki gengið eftir.

Það er hins vegar rangt þegar hv. þm. Einar Már Sigurðarson kemur og segir að það kveði við annan tón nú í ríkisfjármálum en fyrir fjórum árum. Menn mega ekki vera með svona dylgjur. Ég skora á hv. þm. að finna orðum sínum stað. Ég hef reyndar talað um ríkisfjármálin lengur en fjögur ár. Ég hef mikið talað um þau síðustu 15 árin og hann getur fundið ýmis gögn þar um. Við ljúkum ekki þessari törn um ríkisfjármálin fyrr en 6. des. og ég skora á hann að nota tímann fram að því til að finna þessum orðum sínum stað. Ég er alveg viss um að ég hef ekki breytt um tón. Það er lífsnauðsynlegt hverri þjóð og efnahagslífi hennar að agi sé í ríkisfjármálunum. Það er lífsnauðsynlegt.

Menn hafa líka sagt: Þetta gengur ekki lengur. Við verðum að finna stefnu, hafa aðra stefnu, við verðum að staldra við o.s.frv. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði að aðalástæðan fyrir þessu væri agaleysi í ríkisfjármálum. Menn geta kallað það agaleysi en það er ekki stefnuleysi í sjálfu sér.

Við skulum gera okkur grein fyrir því hver stefnan er. Hv. þm. Gunnar Birgisson kom réttilega inn á það áðan að stefna allra stjórnmálaflokka á Íslandi hafi verið og sé að bjóða bestu heilbrigðisþjónustu í heimi. Við höfum ekki deilt um það, ekki á nokkurn hátt. Reyndar vil ég orða það þannig að stefna okkar hafi verið sú að við vildum gera allt fyrir alla, alls staðar og alltaf. Þetta vildu eflaust aðrar þjóðir gera líka. En engin þjóð hefur á því efni, því miður. Íslenska þjóðin hefur ekki og mun ekki hafa efni á því heldur.

Gagnvart háskólasjúkrahúsinu, Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi, sem fær með þessum fjárauka um 1.730 milljónir, er rétt að koma með nokkrar skýringar. Vert er að gefa gaum nokkrum atriðum sem fram koma hjá spítalanum.

Í fyrsta lagi, sem er stærsti hlutinn, hafa laun lækna hækkað mun meira en gert var ráð fyrir þegar skrifað var undir samninga við þá en þeir samningar tóku gildi í lok síðasta árs, þ.e. mjög seint á því ári. Ég man ekki nákvæmlega, virðulegi forseti, hvort það var í nóvember eða desember. Þar er verulegur munur á og það er mjög alvarlegt. Ég hef reyndar þó nokkuð oft haft orð á því í fjárlagaumræðum undanfarinna ára að sú hugmyndafræði sem liggur á bak við kjarasamninga ríkisins fái ekki staðist. Því miður hafa mjög fáir tekið undir það með mér, ef þá nokkur. Ég minnist þess ekki að nokkur hafi tekið undir það. Hef ég þó haldið um það allmargar ræður. Það verður að breyta þessu. Hugmyndafræðin, þó að hún líti fallega út, fær ekki staðist vegna þess að menn geta aldrei gengið til kjarasamninga öðruvísi en að víst sé um hvað þeir eru að semja.

Ég hef einhvern tíma haft orð á því í þinginu, virðulegi forseti, að menn verði við samninga að hnýta hnútana fyrst og semja svo, ekki öfugt. Ekki semja fyrst og henda svo þræðinum til ríkisforstjóranna og segja þeim að binda. Þeir geta það aldrei, ríkisforstjórarnir eru aldrei í stöðu til þess. Þetta er hluti af því að launaþróunin hefur verið mjög óæskileg hjá hinu opinbera.

Í annan stað er það staðreynd að lyfjanotkun okkar er mjög dýr. Við notum í skömmtum ekkert meira af lyfjum heldur en sambærilegar þjóðir í Norður-Evrópu en við notum dýr lyf. Í fyrsta lagi eru keypt til landsins mjög dýr lyf. Það er líka alvarlegt mál. Íslensk innkaup fara nærri því eingöngu fram í gegnum umboðsmenn, einkaumboðsmenn, og þeir eru að stærstum hluta til umboðsmenn umboðsmanna í Danmörku. Þannig er lyfjaverslunin. Því miður er ekki frjáls verslun á Íslandi á þeim innflutningi. Þar er ekki ríkjandi samkeppni og það er alvarlegur hlutur. Við verðum að skoða okkar eigin löggjöf, skoða hvort eitthvað í okkar eigin löggjöf hamlar því að samkeppni geti átt sér stað. Það er mjög brýnt. Í þriðja lagi er það staðreynd og stjórnendur Landspítalans hafa lagt á það áherslu að verðþróun á hjúkrunar- og lækningavörum hefur verið töluvert umfram almenna verðþróun í landinu. Þetta eru staðreyndir sem vert er að gefa gaum og sannarlega rétt að leiðrétta rekstrargrunninn út frá því.

Virðulegi forseti. þær 1.735 millj. kr. sem nú er gert ráð fyrir í fjáraukalögum að fari til háskólasjúkrahússins er verulega hærri upphæð en nemur öllu þessu samanlögðu, verulega hærri upphæð svo nemur hundruðum milljóna. Sannarlega er fjárveitingavaldið að koma mjög til móts við þessa stofnun þó að ég viti að þeir muni segja að þetta dugi ekki, það þurfi meira, miklu meira.

Við skulum fara aðeins yfir þennan rekstur og tala um hvað við erum að fást við. Ég fullyrði og þykist hafa komist að raun um að heilmikil framför hefur orðið við stjórn spítalanna. Á undanförnum árum hefur heilmargt gerst sem leiðir til þess að við munum ná meiri árangri við stjórn þeirra. Við höfum nokkurn veginn lokið mati á hjúkrunarþyngdinni og það liggur núna fyrir. Ég ætla að við getum fljótlega ef ekki strax farið að nota það sem stjórntæki.

Einnig er mjög langt komið með kostnaðargreiningarþáttinn. Ég veit að sumir gera ráð fyrir því að hann geti komist að fullu í gagnið um mitt næsta ár. Ég er sjálfur ekki svo bjartsýnn. Ég held að það sé nær að halda því fram að það gæti orðið um mitt ár 2005 sem því verki mundi ljúka. En þá hefur heilmikil grunnvinna verið unnin til að ná stjórn á svo flóknum hlutum sem hátæknisjúkrahús eru.

[16:30]

Virðulegi forseti. Ég er alveg viss um að þetta mun samt ekki duga til. Ég er alveg viss um það. Þá skulum við koma að þessu viðfangsefni sem er rekstur heilbrigðisþjónustunnar. Til er mjög umfangsmikil fræðigrein á vegum félagsvísinda þar sem menn hafa verið að leggja sig mjög fram lengi í Evrópu og Bandaríkjunum. Hún heitir heilsuhagfræði. Menn verða að hafa í huga ýmsar grundvallarspurningar og grundvallaratriði í heilsuhagfræðinni ef þeir ætla að nýta sér hana til að ná árangri. Á Íslandi er grundvallarspurningarinnar aldrei spurt, en það er spurningin: Hver er þörfin? Við viljum lifa í lúxussamfélagi þar sem ekki er þörf á að spyrja þessarar spurningar. Við viljum ekki spyrja: Hver er þörfin? Þess vegna höfum við ekki gert það. En við munum ekki komast hjá því að gera það. Ef við spyrjum þeirrar spurningar þá liggur fyrir að við ætlum líka að vinna eftir svarinu. Þá kemur næsta spurning. Hver á að forgangsraða? Svarið hlýtur að vera að íslenskir læknar verði að forgangsraða. Það getur enginn annar forgangsraðað en þeir. En þeir munu segja: Við getum ekki forgangsraðað nema við höfum fyrir því tryggingu að stjórnmálamenn standi á bak við okkur. Það þýðir ekki fyrir okkur að ætla að forgangsraða og svo koma stjórnmálamenn daginn eftir og segja: ,,Nei, nei. Þetta má ekki. Við viljum ekki hafa þetta svona. Nei, nei. Við björgum þessu. Við lögum þetta nú og aukum þetta og eflum hitt og betrumbætum og stækkum.`` --- Hvar standa þá aumingja læknarnir? Þeir standa hvergi. Ef við ætlum að forgangsraða þá verðum við að standa að baki íslenskum læknum því þeir munu ekki geta gert þetta nema eiga þetta tryggt.

Nágrannaþjóðir okkar forgangsraða. Danir forgangsraða. Norðmenn gera það, Svíar, Finnar, Englendingar, Þjóðverjar, Frakkar, allir. Allir gera það. Stjórnmálamönnum leyfist þá ekki að hrópa og kalla hvenær sem einhver segir: ,,Þetta er ekki nógu gott. Þetta verður að vera betra. Það verður að auka þetta og efla.`` Við munum aldrei ná árangri nema gera okkur grein fyrir því að okkar er líka ábyrgðin. Við berum þessa ábyrgð og við verðum að hafa þrek til þess að standa þar við. Það mun taka á marga. Plagsiður hefur verið á Íslandi að hlaupa upp til handa og fóta hvenær sem einhver segir: ,,Þarna er einhverju ábótavant. Nei, nú verðum við að koma og gera betur.`` Menn verða að aga sig til þess að standa við þær ákvarðanir sem teknar eru ef þeir ætlast til þess að aðrir agi sig, stjórnendur spítalanna og læknarnir. Það fer saman.

Annað atriði en það að spyrja hver þörfin sé og sem við Íslendingar svörum ekki er það skrýtna fyrirkomulag á Íslandi að við erum alveg hætt að gefa út heilbrigðisskýrslur. Þær hafa ekki sést hér árum saman. Vitum við þó að við eigum mjög góða faraldsfræði, mjög góða og mjög mikið upplýsingasafn. En það er ekki notað. Það er ekki gefið út. Ég held að síðustu heilbrigðisskýrslur hafi komið út --- ég þori ekki alveg að fullyrða það, virðulegur forseti, --- ég held að það hafi verið 1995. En til hvers erum við að safna upplýsingum, til hvers ætlum við allar þær upplýsingar sem til eru um heilbrigðismálin ef við ætlum ekki að nýta þær til þess að stjórna, til þess að átta okkur á því og meta hver þörfin er? Það virðist ekki vera. Því miður virðist þess ekki þörf. Ástæða er til að spyrja landlæknisembættið hvað dvelji, hvernig þetta megi vera. Þetta er meira að segja áberandi í erlendum skýrslum, í skýrslum OECD. Það er mjög áberandi. Lengi vel var það Ísland og svo Tyrkland sem var með elstu upplýsingarnar. Nú er þetta orðið alveg breytt. Tyrkir eru búnir að taka sig taki þannig að þeir eru farnir að koma með tölurnar nokkurn veginn eins og aðrar þjóðir. Við sitjum einir eftir í mörgum tilfellum. Þetta er alveg hörmulegt. Þetta má ekki vera svona áfram.

En ef við ætlum að taka okkur taki og tala um heilbrigðismál af hreinskilni eins og mér sýnist að menn hafi mikinn vilja til að gera --- og það er ágætt --- þá spyr ég, virðulegur forseti: Hvaða lærdóm getum við dregið af því að okkur hefur síðustu 10--20 árin ekki tekist að hemja útgjöld ríkisins í heilbrigðismálum? Hvaða lærdóm getum við dregið af því? Jú, virðulegi forseti, einn lærdóm er hægt að draga af því sem liggur alveg fyrir. Ríkið er lélegur kaupandi. Það lætur vaða yfir sig. Ríkið svarar ekki fyrir sig. Ríkið er ekki með dónaskap. Nei, ríkið er bara pent og kurteist og borgar. Þá er spurningin: Erum við með þetta í réttu fari? Ef við vitum og erum öll sammála um að þetta hafi gengið illa --- ég fullyrði að enginn sé neitt að þræta fyrir það. Þetta hefur bara ekki gengið hjá okkur --- eigum við þá t.d. að reyna að hugsa nýja hugsun og spyrja sjálfa okkur: Gætu verið til einhverjir betri kaupendur? Pólitískt erum við alveg sammála um eitt. Við erum alveg sammála um að við ætlum að viðhalda hér samhjálp. Enginn ágreiningur er um það og hefur aldrei verið. Við ætlum að viðhalda samhjálp, samhjálp í heilbrigðismálum sem er meiri á Íslandi en í nokkru öðru landi og við viljum viðhalda henni.

Eigum við að spyrja okkur spurninga? Eigum við að velta því fyrir okkur hvort til gæti verið annar kaupandi? Ég svara: Já, það er a.m.k. ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort við ættum ekki að búa til nýjan kaupanda.

Hvernig væri nú að hugsa dálítið róttækt og segja sem svo: Hvernig væri að endurreisa sjúkrasamlög, ekki í þeirri gömlu mynd sem þau voru með ofboð lítilli fúnksjón og einhverjum góðum gjaldkera heldur endurreisa þau í þeirri mynd að biðja lífeyrissjóðina að taka þetta hlutverk að sér, gefa eftir einhverja tugi milljarða, 60--70 þús. millj. í sköttum, færa þetta til lífeyrissjóðanna? Þeir mundu sameinast í svona tvö, þrjú, kannski fjögur sjúkrasamlög og segja: ,,Gerið svo vel. Gerist þið kaupendur. Þetta er fyrir ykkar fólk. Þið skuluð gerast kaupendur. Kaupið þið.`` Og þeir munu semja og ég er alveg viss um að þeir eru betri kaupendur en fjárln. Alþingis sem ekki getur staðið í fæturna eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson orðaði það áðan. Ég er alveg viss um að þeir yrðu betri kaupendur. Þeir mundu gera kröfur. En það þarf að gera kröfur. Ríkið héldi svo áfram og ætti eitt sjúkrasamlag. Við getum breytt Tryggingastofnun ríkisins í sjúkrasamlag. Það væri fyrir þá sem eru á okkar vegum, okkar minnstu bræður. Það væri bara sjúkrasamlag þeirra sem væru á framfærslu ríkisins. Mönnum finnst kannski fjarstæðukennt að tala um að afhenda 60--80 þús. millj. og hætta þessu. En ég varpa þessu fram vegna þess að menn hafa verið að segja að við þurfum nýja stefnu. En það kemur enginn með nýja stefnu. Við þurfum að setjast niður og átta okkur á þessu. Ég vil heldur standa hérna upp og koma með hugmynd. Menn velta henni þá fyrir sér og átta sig á þessu. Eru til betri kaupendur en við?

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að ræða heilmikið um heilbrigðismálin og við skulum gera það. Við munum gera það áfram í vetur. Hins vegar eru ýmis önnur mál hér á dagskrá og ég get alveg tekið undir það með stjórnarandstöðunni að það er ákaflega hvimleitt hversu há fjáraukalögin eru oft hjá okkur. Þó vil ég, virðulegi forseti, vara við samanburði eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson var með áðan, þ.e. að telja upp fyrirtæki og segja að þau séu einhverjir áskrifendur að fjáraukalögum o.s.frv. Menn verða að fara mjög varlega þegar þeir segja svona. Ástæður hinna ýmsu stofnana geta verið mjög breytilegar. Það er ekki þar með sagt að menn séu að keyra út af í rekstri.

Tökum Landgræðslu ríkisins sem dæmi. Jökulfljótin hafa nú verið okkur skeinuhætt síðustu missirin og árin. Þegar við erum að setja fyrirhleðslur í fjáraukalög þá erum við kannski að bjarga þjóðfélaginu frá fleiri hundruð milljóna tjóni. Það er mjög skynsamlegt að grípa til aðgerða og borga í staðinn fyrir að bíða eftir að tjónið verði. Menn verða að skoða þannig aðstöðu hinna ýmsu stofnana ríkisins og mega ekki leggja þetta allt að jöfnu vegna þess að það getur verið mjög eðlilegt í sumum tilfellum að setja á fjáraukalög greiðslur til ýmissa stofnana. Það getur verið mjög þarft og nauðsynlegt og vítavert að gera það ekki. Við skulum því ekki leggja alla að jöfnu í þessu heldur reyna að meta hvert tilfelli fyrir sig. Þannig er það með þessi fjáraukalög að ég held að menn hafi verið að vanda sig, virðulegi forseti, við að gera þetta af nákvæmni. Ég minni á að í fyrra hreinsuðum við þetta nokkurn veginn upp gagnvart heilbrigðisstofnunum. Við skildum bara eftir það sem eðlilegt var í daglegri veltu. Við gerðum það og reyndum að gera okkar allra besta. Ég ætla að sama viðleitni sé núna. Þessi fjáraukalög eru því að sýna raunverulegan kostnað. Hann er að vísu meiri en við ætluðum. En þó minni ég á að við göngum samt fram með þá vissu að við skilum fjárlögum fyrir árið 2003 með verulegum afgangi. Það er verulegur afgangur og við skulum fagna því vegna þess að mjög fá ríki í Evrópu búa við þá stöðu að geta ár eftir ár sýnt fjárlög í reynd sem eru með miklum afgangi.