Mat á umhverfisáhrifum

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 19:07:35 (1858)

2003-11-18 19:07:35# 130. lþ. 29.8 fundur 301. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (matsferli, málskotsréttur o.fl.) frv., 302. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (úrskurðarnefnd, framkvæmdaleyfi) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[19:07]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kaus ekki að segja neitt varðandi þá yfirlýsingu sem ég gaf í fyrra andsvari, að Svíar væru fyrirsjáanlega að fara að víkka málskotsrétt sinn og að Norðmenn túlkuðu lög sín afar vítt, einmitt með tilliti til Árósasamningsins. Ég held að við séum að þrengja og loka á vitlausum tíma, meðan við ættum að standa vörð um fyrirkomulagið hjá okkur. Nágrannaþjóðir okkar koma til með að feta í fótspor okkar innan skamms og túlka nú þegar lög sín vítt af þeim ástæðum sem ég hef áður greint frá.

Varðandi vanhæfið vil ég bara segja að hæstv. ráðherra hefur auðvitað kosið að skýla sér á bak við þau lögfræðiálit sem segja að hún hafi verið vanhæf í Þjórsárverum en ekki Kárahnjúkamálinu. Ég vil leyfa mér að hafa aðra skoðun á því máli og segja að sem málsvari náttúrunnar hafi hún verið vanhæf í Kárahnjúkamálinu vegna yfirlýsinga sinna um virkjanamál og stóriðjustefnu stjórnvalda.