Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 20:13:30 (1875)

2003-11-18 20:13:30# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[20:13]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að í þeim tilvikum sem hv. þm. nefndi varðandi lagfæringu á launakjörum starfsstétta t.d. í heilbrigðiskerfinu, þá hafi í minna mæli verið um samkeppni eða samanburð við almenna vinnumarkaðinn að ræða. Aðalvandinn var auðvitað sá eins og í tilviki hjúkrunarfræðinga eða slíkra að fólk fékkst ekki til starfa, það var að flýja stéttina á þeim kjörum sem í boði voru. Þetta á t.d. við um stéttir sem að uppistöðu til vinna hjá ríkinu af því að ekki er öðrum vinnuveitendum til að dreifa í fagi þeirra. Ég held að það hafi ósköp einfaldlega verið raunsæi og menn horfst í augu við þá nauðsyn að ekki var hægt að manna slíka starfsemi og veita þá þjónustu í landinu, nema launin væru þannig að einhverjir fengjust til að vinna þau störf. Svona er þetta í mínum huga, herra forseti. Og ég held að hv. þm. þurfi að fara betur yfir þetta atriði.