Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 20:41:13 (1883)

2003-11-18 20:41:13# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[20:41]

Þuríður Backman (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nær sannfærð um það að hinn almenni launþegi og skattgreiðendur vilja góða stöðuga og trygga opinbera þjónustu, og það sé það sem skiptir máli. Við þekkjum vel lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og við þekkjum líka lífeyrissjóði sem almennir launþegar greiða í, (PHB: Og eru að skerða svona lífeyrinn.) þeir standa ekki jafnt að vígi og réttindi launþega eru ekki þau sömu. Það hafa líka opinberir starfsmenn fengið að gjalda fyrir með lægri launum í gegnum árin, með tilvísun til þess að þeir hafi betri lífeyrisréttindi en aðrir. Það má segja að starfskjörin jafnist út með launum, lífeyrissjóðsréttindum og starfsöryggi.

Ég vil ítreka það að við eigum að hafa góða opinbera þjónustu. Við eigum að gera kröfur, en við höfum líka skyldur og eins hinir opinberu starfsmenn og þeir vita það vel.