Stytting náms til stúdentsprófs

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:03:29 (1909)

2003-11-19 14:03:29# 130. lþ. 31.94 fundur 173#B stytting náms til stúdentsprófs# (umræður utan dagskrár), GunnB
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:03]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Stytting náms til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú er hugmynd sem ekki er ný af nálinni og hefur verið stefnumarkmið yfirvalda í menntamálum síðan árið 1994. Staðan í núverandi kerfi er sú að hægt er að ljúka stúdentsprófi á þremur árum í fjölbrautaskólakerfinu og einnig í nýstofnuðum hraðbrautarskóla þannig að þriggja ára nám er í raun valkostur í dag. Ef stytting framhaldsskólanáms yrði raunin mundi það þýða þjóðhagslegan sparnað þar sem nemendur koma einu ári fyrr inn á vinnumarkaðinn en í fyrra kerfi og framleiðni og ævitekjur þessa fólks mundu því vaxa. Þá yrði mikill sparnaður fyrir nemendur og foreldra ef námið tæki þrjú ár í stað fjögurra.

Í þriðja lagi mundi einnig sparast kostnaður fyrir ríki og sveitarfélög vegna húsnæðis þar sem hýsa þarf einum árgangi færra. Þær gagnrýnisraddir sem heyrst hafa um þessa skipan mála eru í þá veru að gæðin yrðu ekki þau sömu og áður. Það er ekki raunin. Í tillögum menntmrh. er haft að leiðarljósi að námskröfur séu engan veginn minni en hjá nágrannaþjóðunum.

Það er ljóst að framhaldsskólanám er undirbúningur undir frekara nám, en fyrir um 30--40 árum hafði stúdentspróf allt aðra vigt en í dag. Landsbyggðarfólk hefur haft áhyggjur af því að unga fólkið fari fyrr úr héraði í háskólanám með þessari skipan mála, sem nemur einu ári. Koma mætti til móts við þetta sjónarmið með því að efla háskólasetur á landsbyggðinni sem er einn af hinum nauðsynlegu þáttum til að landið okkar haldist í byggð.