Stytting náms til stúdentsprófs

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:14:03 (1914)

2003-11-19 14:14:03# 130. lþ. 31.94 fundur 173#B stytting náms til stúdentsprófs# (umræður utan dagskrár), SKK
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Stytting náms til stúdentsprófs verður framfaraskref í menntamálum á Íslandi ef af henni verður. Með henni væri menntakerfið fært enn frekar í átt til nútímans. Íslenska menntakerfið er hluti af alþjóðlegri heild. Flestir nemendur þeirra landa sem við berum okkur saman við ljúka stúdentsprófi eða sambærilegri menntun við 18 eða 19 ára aldur. Með því að stytta námið um eitt ár færumst við nær því að gera íslenska stúdenta hliðsetta kollegum sínum í öðrum löndum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að á árum áður hafði stúdentspróf umtalsvert gildi á vinnumarkaðnum. Þýðing stúdentsprófsins hefur hins vegar gerbreyst. Í stað þess að vera ávísun á gott starf hefur stúdentsprófið nú fyrst og fremst þýðingu sem góð almenn menntun og undirbúningur fyrir frekara nám á háskólastigi. Með styttingu námsins yrði því flýtt að stúdentar gætu tekist á við markvissan starfsundirbúning á háskólastigi.

Þá verður ekki hjá því litið að styttingin hefði í för með sér mikið hagræði fyrir nemendur, foreldra og hið opinbera. Í fyrsta lagi mun hún minnka kostnað nemenda og foreldra þeirra við námið. Í öðru lagi næst með styttingunni fram sparnaður í húsnæðismálum, enda mundu framhaldsskólarnir þurfa að hýsa einum árgangi færra en þeir gera nú en sparnaðinn mætti nýta til þess að efla innra starf skólanna. Í þriðja lagi verður þjóðhagslegur ávinningur af styttingu námsins verulegur þar sem ljóst má vera að unga fólkið sem lýkur námi kæmist fyrr út á vinnumarkaðinn með þeirri framleiðniaukningu sem slíku fylgir. Þá benda kannanir til þess að langur námstími auki líkur á brottfalli stúdenta úr námi. Stytting námsins ætti því að leiða til þess að brottfall úr námi minnki.

Virðulegi forseti. Það er skynsamlegt að stytta nám til stúdentsprófs. Slík stytting styrkir menntakerfið og er í þágu stúdenta, foreldra þeirra, hins opinbera og þjóðfélagsins alls.