Stuðningur við byggð og búsetu í Árneshreppi á Ströndum

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:22:34 (1917)

2003-11-19 14:22:34# 130. lþ. 31.1 fundur 51. mál: #A stuðningur við byggð og búsetu í Árneshreppi á Ströndum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Virðulegi forseti. Hinn 12. mars sl. samþykkti Alþingi þáltill. sem kvað á um að fela ríkisstjórninni að setja á stofn nefnd er vinni að gerð tillagna um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi í Strandasýslu á grundvelli samþykktar norrænu ráðherranefndarinnar frá 12. nóvember 1996, og leita eftir víðtæku samstarfi heimamanna og félagasamtaka í þeim tilgangi. Umhvn. hnykkir á í samhljóða áliti sínu til þingsins, með leyfi forseta:

,,Árneshreppur á Ströndum er á margan hátt einstök jaðarbyggð, landfræðilega afmarkaður, nokkuð þéttbýll, auk þess sem þar er að finna fjölbreyttar minjar um búsetu, atvinnuhætti og sögu þjóðarinnar.``

Mál þetta á sér nokkurra ára aðdraganda en norræna ráðherranefndin samþykkti 12. nóvember 1996 framkvæmdaáætlun um verndun menningararfs og nálgast þannig á sértækan hátt aðgerðir til stuðnings verðmæta sem felast í byggðinni. Sett var það markmið að stuðla að varðveislu norrænnar strandmenningar með því að draga fjölbreytileika hennar og ríkidæmi fram í dagsljósið og unnið samkvæmt þeirri meginreglu að setja markið eins hátt og aðstæður leyfa, segir í skýrslunni. Landvernd, undir forustu þáv. formanns Jóns Helgasonar, bar málið fram við stjórnvöld og heimamenn.

Hinn 21. desember 1998 skrifaði hreppsnefnd Árneshrepps bréf til forsrh. og lýsti yfir stuðningi við þær hugmyndir að sveitarfélagið yrði tekið inn í sérstaka framkvæmdaáætlun á grundvelli samþykktar norrænu ráðherranefndarinnar og var reiðubúið til samstarfs við stjórnvöld.

Flm. þáltill. í Alþingi, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, talar um að byggðin hafi sína möguleika. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Þeir möguleikar byggja fyrst og fremst á því að byggðin sé efld á forsendum byggðarinnar sjálfrar. Það er auðvitað til staðar einstæð menning og þekking og reynsla sem þarna er til en hvergi annars staðar í landinu. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það eigi að vera ein af skyldum okkar að verja þetta m.a. með þeirri menningarlegu og sérstöku skírskotun sem þetta byggðarlag hefur.``

Virðulegi forseti. Þær þúsundir ferðamanna sem leggja leið sína norður á Strandir og norður í Árneshrepp á sumri hverju undirstrika mikilvægi þessarar byggðar og þeirra menningarverðmæta og mikilvægi búsetu í Árneshreppi. Það er því ljóst að heimamenn og við sem unnum þessari byggð bárum miklar vonir í brjósti gagnvart þessari tillögu sem samþykkt var á Alþingi og vísað til ríkisstjórnarinnar til aðgerða. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. forsrh.:

Hvað líður skipan og störfum nefndar sem ríkisstjórninni var falið að setja á stofn samkvæmt þingsályktun sem Alþingi samþykkti 15. mars sl., en nefndinni var ætlað að gera tillögur ,,um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi í Strandasýslu``? Því það er nú svo að tíminn líður og varðandi byggð og búsetu í Árneshreppi er ekki tími til mikilla vangaveltna heldur þarf að grípa til aðgerða. Því ber ég þessa spurningu fram til hæstv. forsrh.: Hvað líður störfum og skipan þessarar nefndar?