Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:07:02 (1939)

2003-11-19 15:07:02# 130. lþ. 31.3 fundur 297. mál: #A samþjöppun á fjölmiðlamarkaði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að hreyfa þessu afar mikilsverða máli og sömuleiðis hæstv. forsrh. fyrir athyglisverð og í raun jákvæð svör. Ég held að það verði seint of oft undirstrikað hversu mikilvægt er að fjölmiðlar séu til staðar, sjálfstæðir, óháðir, heiðarlegir og allt sé gagnsætt hvað varðar eignarhald á þeim eða mögulegt áhrifavald yfir þeim eða þeirra framgöngu.

Það er augljóst mál að samþjöppun í fjölmiðlaheiminum er sérlega varasöm. Fjölbreytni er nauðsynleg enda víða talsvert á sig lagt til að tryggja hana þar með talið með fjárframlögum, samanber blöð í Svíþjóð, sem hæstv. forsrh. vitnaði til, og sama er við lýði í Noregi og víðar. Það er sérstaklega varhugavert ef umsvifamiklir aðilar í viðskiptum, sem jafnvel starfa í fákeppnisumhverfi þar, gerast jafnframt fjölmiðlakóngar. Þá er stutt í hið rússneska ástand, íslenska ,,ólígarka``, nýríka viðskiptajöfra sem eru jafnframt með fjölmiðla eða fjölmiðlakeðjur á sínum höndum til að reka áróður fyrir umsvifum og störfum sínum.