Lífeyrisréttindi maka flutningsskyldra starfsmanna í utanríkisþjónustunni

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:21:49 (1948)

2003-11-19 15:21:49# 130. lþ. 31.4 fundur 289. mál: #A lífeyrisréttindi maka flutningsskyldra starfsmanna í utanríkisþjónustunni# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og fyrir áhuga hennar á þessu máli. Það er ekki á hverjum degi sem málefni fjölskyldna starfsmanna utanríkisþjónustunnar koma hér til umræðu. Ég vil þakka henni sérstaklega fyrir þann áhuga sem hún hefur sýnt þessu mál.

Starfshópurinn sem var stofnaður á sínum tíma til að fjalla um lífeyrisréttindi maka flutningsskyldra starfsmanna í utanríkisþjónustunni lauk störfum á liðnu ári. Í þessum starfshópi voru fulltrúar Makafélags sendierindreka utanríkisþjónustunnar, fulltrúi frá starfsmannaskristofu fjmrn. og rekstrarstjóri utanrrn. Helstu tillögur starfshópsins voru:

1. Að koma upp sérstökum fjárvörslureikningi hjá banka fyrir alla maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar.

2. Gert var ráð fyrir því að ríkissjóður greiði lífeyrisframlag inn á fjárvörslureikninginn ár hvert á meðan starfsmaður er við störf á vegum utanríkisþjónustunnar erlendis, þó ekki lengur en til 70 ára aldurs sjóðfélaga.

3. Gert var ráð fyrir því að sú upphæð nemi 11,5% af meðalgrunnlaunum félagsmanna í Félagi starfsmanna Stjórnarráðsins og Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins. Ekki var gert ráð fyrir mótframlagi makans enda eru þeir makar ólaunaðir sem fá þessar greiðslur.

4. Makar flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar njóti lífeyrisframlags samkvæmt þessu fyrirkomulagi. Greiðslur úr sjóðnum hefjist þegar maki sjóðfélaga lætur af störfum, andast eða við skilnað, þó aldrei fyrr en við 60 ára aldur sjóðfélaga og eigi síðar en við 70 ára aldur hans. Gert er ráð fyrir föstum árlegum greiðslum í a.m.k. sjö ár.

Tillögur starfshópsins koma til framkvæmda á þessu ári. Búið er að leita tilboða í ávöxtun sjóðsins og gert er ráð fyrir að fyrstu greiðslur úr honum verði inntar af hendi í lok ársins. Fjárveiting vegna þessa er til staðar í fjárlögum ársins í ár.

Þess má geta að lokum að aðrar utanríkisþjónustur Norðurlandanna hafa allar þegar komið á sambærilegu kerfi og höfum við stuðst við þá reynslu sem þar er í þessum málum.