Fráveituframkvæmdir sveitarfélaga

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 18:58:52 (1989)

2003-11-19 18:58:52# 130. lþ. 31.11 fundur 228. mál: #A fráveituframkvæmdir sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi SÞorg
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[18:58]

Fyrirspyrjandi (Sigurrós Þorgrímsdóttir):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa mörg sveitarfélög lyft grettistaki í fráveitumálum. Segja má að með þessum framkvæmdum hafi verið stigið eitt stærsta skref í umhverfisátaki í sögu þjóðarinnar. Í nýlegri úttekt á fráveituverkefnum sveitarfélaga kemur fram að lokið er um 35% þeirra fráveituverkefna sem sveitarfélögin stóðu frammi fyrir á árinu 1995 og á lögum samkvæmt að vera lokið í árslok 2006. Þetta eru gífurlega kostnaðarsöm verkefni og fjárþörf til framkvæmda er ólík milli einstakra sveitarfélaga og einnig fjárhagsleg geta þeirra.

Árið 1995 voru sett lög nr. 53, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum. Samkvæmt 3. gr. laganna getur tiltekin fráveituframkvæmd sem unnin er á tímabilinu 1. maí 1995 til 31. desember 2005 notið styrks úr ríkissjóði. Gert er ráð fyrir að framlag ríkisins nemi allt að 20% framkvæmdakostnaðar eða heildarraunkostnaði styrkhæfrar framkvæmdar næstliðins árs. Árlegt fjárframlag ríkissjóðs til stuðnings við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga er þó bundið ákveðnu hámarki eða 200 millj. kr. sem nú hefur verið hækkað í 220 millj. kr.

Til þessa verkefnis er áætlað að ríkið veiti samtals 2,2 milljarða kr. á árinu 1995--2005. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef lá fyrir árið 2002 að frá gildistöku laganna 1995 hafi fráveituframkvæmdir sveitarfélaga, þ.e. framkvæmdir á árunum 1995--2001, verið minni en sem nam samanlögðu árlegu hámarksframlagi ríkissjóðs.

Vegna mikilla framkvæmda við uppbyggingu grunnskóla undanfarin ár, m.a. vegna flutnings grunnskóla til sveitarfélaganna og ákvæða grunnskólalaga um einsetningu, er ólíklegt að öll sveitarfélög hafi bolmagn til að ljúka tilskildum fráveituframkvæmdum fyrir árslok 2005. Ljóst er að mörg sveitarfélaga sem skemmst eru á veg komin í fráveituframkvæmdum muni eiga í verulegum erfiðleikum með að fjármagna þær án frekari stuðnings. Því spyr ég hæstv. umhvrh. hvort fyrirhugað sé að breyta núgildandi lögum og lengja tímabilið með fjárstuðningi ríkisins vegna fráveituframkvæmda og koma þannig til móts við þau sveitarfélög sem enn hafa ekki lokið fráveituframkvæmdum.