Fráveituframkvæmdir sveitarfélaga

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:01:41 (1990)

2003-11-19 19:01:41# 130. lþ. 31.11 fundur 228. mál: #A fráveituframkvæmdir sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:01]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Spurt er: Er fyrirhugað að lengja tímabil fjárhagslegs stuðnings ríkisins við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga?

Því er til að svara að það er ljóst að fyrir Íslendinga sem byggja afkomu sína á matvælaframleiðslu og eru í auknum mæli að markaðssetja landið sem ferðamannaland og hafa hafið sem sína mikilvægustu auðlind, er mjög mikilvægt að fráveitumál séu í lagi og að vandað sé til úrlausna á þeim vettvangi.

Með lögum nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, er komið til móts við þau sjónarmið sveitarfélaga að ríkisvaldið taki þátt í kostnaði við framkvæmdir að ákveðnu marki eða sem nemur 20% af raunkostnaði við tilteknar framkvæmdir en þó að hámarki 200 millj. kr. á ári.

Samkvæmt ákvæðum reglugerðar um fráveitur og skolp, nr. 798/1999, sem tekur mið af tilskipun 91/271/EBE, um hreinsun skolps frá þéttbýli, skal þessum málum vera komið í viðeigandi horf fyrir 1. janúar 2006.

Um 70% landsmanna búa við viðunandi aðstæður í fráveitumálum þar sem stærstu framkvæmdirnar hafa verið á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni þar sem mannfjöldinn er mestur. Ef svo heldur sem horfir munu um 80--85% landsmanna búa við viðunandi aðstæður í lok ársins 2005.

Umrædd lög gilda til og með 2005 þannig að síðustu greiðslur samkvæmt þeim koma til úrborgunar á árinu 2006. Ég tel ólíklegt að hægt sé að ná því markmiði að ljúka framkvæmdum í fráveitumálum á árinu 2005. Framkvæmdir fóru hægar af stað en reiknað var með, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, þannig að fyrst á árinu 2001 náðu styrkir 200 millj. kr. Á síðasta ári fór fram könnun á ástandi fráveitumála með það að leiðarljósi að gera tillögu um framhaldið. Niðurstöður þessarar könnunar voru kynntar í skýrslu og á ráðstefnu fyrr á þessu ári.

Í framhaldi af því fól ég fráveitunefnd umhvrn. sem starfar samkvæmt áðurnefndum lögum að endurskoða lögin og vinna frv. til laga þar sem tekið er á framhaldinu með það að leiðarljósi að lagt yrði fram frv. á næsta ári. Á þessari stundu liggur tillaga ekki fyrir og engin ákvörðun um hvort það verði lengt í lögunum eða hvernig tekið verði á þessum afgangsframkvæmdum. Ég vil hins vegar alls ekki útiloka að lengt verði í lögunum, en engin ákvörðun liggur fyrir um það á þessari stundu.