Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 16:20:33 (2038)

2003-11-25 16:20:33# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það virðist svo að sú ríkisstjórn sem nú situr að völdum í landinu og hefur setið undanfarin ár sé alfarið á þeirri línu að þeir sem mest bera úr býtum og hæstar hafa tekjurnar skuli njóta forgangs umfram venjulega launþega til þess að komast enn betur af og greiða enn minni skatta til samfélagsins. Sérstaklega er stefnt að því nú samfara afgreiðslu á fjárlögum næsta árs að þeir sem mest hafa greiði lækkandi tekjuskatt, því nú á að lækka sérstakan tekjuskatt úr 5% í 4% á næsta ári. Þetta er forgangurinn sem ríkisstjórnin vill ná fram. Þessa skattalækkun vilja þeir m.a. á ofurlaunin.

Virðulegi forseti. Það kom vel á vondan, eins og sagt er, að á sama tíma og við lækkum skatta á hærri tekjur þá lætur nú öll ríkisstjórnin eins og einkavæðingarverðlaunin sem leidd voru til öndvegis í þessu þjóðfélagi með óheftu framsali kvótans árið 1990 þegar lög um stjórn fiskveiða voru sett, komi þeim gjörsamlega á óvart. Ég minnist þess ekki að hæstv. forsrh. hafi, þegar sjálftökuarður af fiskikvótanum var seldur af einstaklingum fyrir milljarða, svo mikið sem hrokkið við, hvað þá heldur að farið hafi verið með Júdasarkvæði úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Sáust þó dæmi um arðgreiðslur upp á nokkra milljarða. Ég segi nú bara og bið þess að guð almáttugur haldi hæstv. forsrh. áfram í því samviskubitsfari til nokkurra mánaða sem hann nú er í. Ég tek undir með honum að síðustu dæmi í ofurlaunum forstjóra bankanna, sem hann stóð fyrir að einkavæða með hraði alla saman, eru út úr korti. En það eru líka önnur réttindi sem gefa ofurarð og hafa jafnframt þær afleiðingar að gera fólk atvinnu- og eignalaust eins og sölubraskið með óveiddan fisk í sjó. Þess vegna vona ég að samviskubit hæstv. forsrh. vari meðan hann gegnir því embætti en að fyrir þær sakir snúist honum hugur og sjái að óstýrt frelsi og ofurarður því samfara fái ekki staðist réttlætiskennd venjulegs launafólks á Íslandi.

Vona ég einnig að hæstv. forsrh. vinni næstu missiri hratt að auknu réttlæti og megi vegna þess aftur verða glaður í hjarta og njóta góðra og langra lífdaga á friðarstól með þjóð sinni. Varla er þess að vænta að arftaki hans í embætti breyti arðsemisreglum einkavæðingar ef sá núverandi kemur því ekki í verk.

Hæstv. fjmrh. ætti í ljósi staðreynda að hækka viðmiðun fjárhæða vegna sérstaka tekjuskattsins um t.d. 50 þúsund krónur á mánuði en halda áfram 5% álagningu á hærri tekjur sem nú eru í lögunum. Stefna ríkisstjórnarinnar að þessu leyti fellur ekki að réttlætistilfinningu þorra Íslendinga. Í samræmi við það sem ég hef áður sagt væri hæstv. félmrh. réttast að lagfæra víxlsporin og snúa strax frá því að hafa tekjur af atvinnulausu fólki og því miður virðist atvinnulausum ekki fara fækkandi eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrv.

Því verður vart trúað, virðulegi forseti, að þegar hæstv. forsætis- utanríkis- og viðskiptaráðherra ofbýður óréttlætið sem þeir hafa stuðlað að með verkum sínum sl. 12 ár, komi nýliðarnir í ráðherrastólum til með að halda til streitu stefnu um lækkun á launum og réttindum atvinnulausra. Það hlýtur að mega vitna hér ef allt um þrýtur, virðulegi forseti, í vers eftir stórskáldin við 3. umr. eða síðar í þessari, til þess að beina mönnum af Júdasarbraut.

Í fréttablaði Verkalýðsfélagsins Hlífar, Hjálmi, segir svo, með leyfi hæstv. forseta, um störf hæstv. félmrh.:

Fyrir kosningar:

  • Ef þið kjósið mig til þings
  • þá mun ég bætur hækka,
  • efla kaupmátt almennings
  • og ykkar skatta lækka.
  • Léttvæg reyndust loforð þín
  • og lygi blandin stefna.
  • Var hún eitthvað aulagrín
  • sem aldrei átti að efna?
  • Eftir kosningar:

  • Þær breytingar ég boða vil
  • að bótadögum fækkar
  • og tíminn lengist þangað til
  • að tekjuskattur lækkar.
  • Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. sagði við kynningu á fjárlagafrv. á fyrstu viku þessa haustþings að allir væru sammála um það, og vitnaði þar til erlendra sem innlendra efnahagssérfræðinga sem og alþjóðastofnana, að hér hefði þjóðfélaginu verið forðað frá brotlendingu og létt snertilending væri rétt lýsing. Ástæður þessa eru að sögn aukið frelsi á fjármagnsmarkaði auk afnáms hafta á fjármagnshreyfingum, einkavæðing ríkisfyrirtækja --- þar er sjálfsagt átt við hraðsölu bankanna, einkavæðinguna --- og stórbætt staða ríkisfjármála.

    Nú er það svo að fjáraukar þessa árs eru upp á 17 milljarða aukin útgjöld. Auknar tekjur af eyðslu einstaklinga vegna kaupa á vöru og þjónustu, þ.e. virðisauka- og vörugjaldstekjur af t.d. bifreiðum sjá til þess að ekki er mínus á fjárlögum yfirstandandi árs en það gerist samfara aukinni skuldsetningu heimilanna.

    Til þess verður að líta að tæpir 13 milljarðar af fjármunum ríkissjóðs á þessu ári eru vegna eignasölu Landsbanka og Búnaðarbanka sem að sjálfsögðu verða aðeins seldir einu sinni af hæstv. fjmrh. Þannig virðist sú niðurstaða vera, virðulegi forseti.

    Svo virðist sem verð sjávarafurða fari enn lækkandi eins og verið hefur undanfarin missiri og að hækkandi verð á sjávarafurðum sé ekki í sjónmáli. Auk þess eru vísbendingar úr loðnuleiðangri norður í höf ekki beint til þess fallnar að auka á bjartsýni í verðmætum sjávaraflans og þar með tekna af útflutningi. Þess er því ekki að vænta, því miður, eins og mál horfa nú að hér sé einungis um tímabundinn vanda að ræða eins og getið er um í riti Seðlabankans um peningamál heldur er óvissan þvert á móti meiri nú en verið hefur. Viðskiptahalli gæti því orðið meiri á næsta ári en gert er ráð fyrir og á landsvæðum þar sem lítið er um framkvæmdir gæti hreinlega orðið um samdrátt að ræða þó svo að þensluáhrifa fari að gæta sums staðar vegna virkjana- og álversframkvæmda. Að þessu þarf að hyggja og sjá til þess með stýringu á framkvæmdum og opinberum fjárframlögum að ekki snarist á milli landshluta ef svo fer fram í sjávarútvegi sem nú horfir.

    Ef sjávarútvegur verður í niðursveiflu bæði vegna minnkandi afla t.d. vegna lítillar loðnu og lækkandi verðum samfara háu olíuverði, hágengi íslensku krónunnar og auk þess hækkandi vaxta, eins og Seðlabanki spáir fyrir næsta ár, þá er næsta víst að útgerð og fiskvinnsla verða í miklum og ört vaxandi rekstrarvanda. Tekjur kunna því að dragast áfram saman með lækkandi fiskverði bæði utan lands og í innlendum viðskiptum með sjávarfang.

    Þó að fjármálafyrirtæki hafi styrkt stöðu sína og séu með mikinn hagnað þá hjálpar það lítið ef vextir bankanna verða áfram háir eins og verið hefur. Það ber því að vara sterklega við því að Seðlabankinn haldi uppi háu vaxtastigi og vafalaust þarf að feta þá braut mjög varlega að hækka hér vexti sem hækka gengi krónunnar. Seðlabankinn telur hins vegar líklegast að til vaxtahækkana komi fljótlega. Virðulegi forseti, það tel ég algjört óráð í stöðunni og þeirri óvissu sem nú er.

    Margar af brtt. meiri hlutans munum við í Frjálsl. styðja, enda höfum við ávallt lýst því yfir að við mundum leggja góðum málum lið hvort sem þau kæmu frá stjórn eða stjórnarandstöðu. Við þá grundvallarafstöðu munu þingmenn Frjálsl. einnig standa nú við 2. umr. fjárlaga. Ég verð hins vegar að lýsa mikilli undrun og vonbrigðum með að meiri hlutinn skuli ekki hafa veitt tveimur málum brautargengi í afgreiðslum sínum. Þau snúa bæði að endurhæfingarmálum, hvort á sinn hátt, sem nú verður gerð grein fyrir.

    [16:30]

    Við 2. umr. fjárlaga á sl. hausti vakti ég athygli á fíkniefnavandamálum, annars vegar með ábendingu um fyrirbyggjandi fræðslu- og forvarnastarf vegna barna og unglinga sem einnig var sótt um lágan styrk til nú í haust en fékk ekki jákvæðar undirtektir hjá meiri hlutanum. Hins vegar vakti ég máls á fjárhagsvanda Byrgisins og fyrirséðum húsnæðisvanda ef því yrði fylgt eftir að knýja fram flutning úr Rockville á Miðnesheiði þar sem búið var að byggja upp á vegum líknarfélagsins Byrgisins fyrir milljónatugi en skuldir ógreiddar. Um þetta var í fyrra talað sem fortíðarvanda Byrgisins og það gerðu fleiri en ég.

    Virðulegi forseti. Fíkniefnamál hafa margar hliðar, ekki síst þegar kemur að því að taka á vanda hinna hörðu fíkniefnaneytenda, þeirra sem komnir eru á kaf í fíkniefni, orðnir brotamenn í þjóðfélaginu og gera nánast allt til að ná sér í þá nautn og eitur sem þeir hafa svo mikla þörf fyrir. Nokkrir aðilar hér á landi og nokkur samtök berjast með þessum einstaklingum í að reyna að rétta þá við. Við þekkjum til Krýsuvíkursamtakanna og annarra samtaka og starfsemi Byrgisins. Þau takast á við vanda fólks sem oft á tíðum er illa fyrir komið vegna eiturlyfja og fólks sem gengur illa að fóta sig í þjóðfélaginu og þarf sérhæfða aðstoð. Ég hef trú á að það sem menn hafa verið að gera í Byrginu sé þjóðfélagi okkar mjög verðmætt. Það er verðmætt að geta látið einstaklingana vera þar sem þeir fá einhverja umönnun og þjónustu og þar sem því er haldið að þeim að þeir eigi enga leið til baka aðra en að hætta, hin leiðin liggi til dauðans.

    Þarna er fólk sem illa er fyrir komið og verður ekki betur tekið á málum þess annars staðar en gert er með þessari starfsemi. Þess vegna beindi ég því til fjárlaganefndar að málið yrði leyst milli 2. og 3. umr. á síðasta hausti. Ég hvatti til þess að fortíðarvandi Byrgisins yrði leystur. Við 3. umr. og lokaafgreiðslu fjárlaga síðasta haust kom eftirfarandi fram hjá hv. þáv. formanni fjárlaganefndar, Ólafi Erni Haraldssyni, í framsögu hans, með leyfi forseta:

    ,,Rétt er að minna sérstaklega á Byrgið, dvalarstað á Miðnesheiði fyrir fólk í áfengis- og vímuefnavanda. Nauðsynlegt er að finna varanlega lausn á húsnæðismálum og rekstri Byrgisins þannig að fólk sem þar dvelur fái viðunandi aðbúnað. Húsnæðismál Byrgisins hafa verið kynnt ríkisstjórn og eru þar til meðferðar. Jafnframt lausn húsnæðisvandans er nauðsynlegt að leysa þann fjárhagsvanda sem nú steðjar að Byrginu og tryggja framtíðarlausn í samstarfi við ábyrgðaraðila þess. Fjárln. mun fylgjast með því að þessi mál komist í viðunandi horf.``

    Þessari yfirlýsingu fögnuðu þingmenn í fjárlaganefnd og töldu málið í höfn enda mætti treysta orðum formanns og loforðum ríkisstjórnar varðandi húsnæðis- og rekstrarvanda Byrgisins. Við þeim orðum háttvirtra fjárlaganefndarmanna brást hv. þáv. formaður fjárlaganefndar, Ólafur Örn Haraldsson, og lokaði málinu með eftirfarandi svari, með leyfi forseta:

    ,,Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að endurtaka þær yfirlýsingar sem ég hafði hér um Byrgið. Því fylgir fullur hugur allra þeirra sem að því máli koma.``

    Ekki var annað hægt en að leggja trúnað á að full samstaða hefði verið í fjárlaganefnd um að leysa málið, þar með talið fortíðar- og fjárhagsvanda Byrgisins sem varð til við uppbyggingu og endurbætur á húsum í Rockville. Síðan tók við formennsku í fjárlaganefnd háttvirtur þingmaður Magnús Stefánsson, hinn vænsti maður. Því spyr ég: Hvað fór úrskeiðis? Af hverju var vandinn sem út af stendur upp á 15 millj. kr. ekki leystur? Fær meiri hlutinn ekki að standa við fyrri loforð? Er það markmið ríkisstjórnarinnar að ganga frá starfsemi Byrgisins? Nú er liðið ár frá því að Byrgið sótti um fjárveitingu vegna uppsafnaðra skulda líknarfélagsins vegna óheyrilegs kostnaðar við uppbyggingu starfseminnar í Rockville. En hverjar eru efndirnar að mati starfsmanna? Með leyfi forseta, ætla ég að vitna í bréf Byrgisins sem mér barst sem áheyrnarfulltrúa í fjárlaganefnd. Þar er m.a. vikið að eftirfarandi efnisatriðum:

    ,,Eins og alþjóð veit af umfjöllun um starfsemi Byrgisins í fjölmiðlum hefur ekkert af þessum þremur atriðum verið fyllilega efnt.

    Í fyrsta lagi keypti ríkið allan húsakost að Efri-Brú í Grímsnesi fyrir starfsemina en hann rúmaði eingöngu 45 af þeim 86 vistmönnum sem voru í Rockville og þá er búið að nýta allan húsakostinn fyrir vistmenn og því engin aðstaða fyrir starfsmenn, skrifstofur og annað sem tilheyrir slíkri starfssemi ... var ævinlega talað um að starfsemin fengi húsnæði sem ekki yrði minna ... til tals kom að kaupa Brjánsstaði sem hentuðu vel í alla staði, en fyrr en varði og án þess að hlustað væri á Byrgismenn var Efri-Brú keypt.

    Vegna fjarlægðar frá höfuðborginni var í upphafi ljóst að til þyrfti að koma húsnæði þar fyrir aðhlynningu og skrifstofuhald. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir um að Byrgið fengi húsnæði fyrir sambærilegan fjölda vistmanna og það hafði í Rockville, hefur ekkert svar fengist við því frá ríkisstjórn. Tekið skal fram til að fyrirbyggja allan misskilning að ríkið á húseignirnar á Efri-Brú en Fasteignir ríkissjóðs gerðu afnotasamning við Byrgið.

    Í öðru lagi er fjárhagsvandinn enn á sínum stað þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir forsvarsmanna Byrgisins og skiptastjóra búsins til að fá lausn á honum. Á fundi með félagsmálaráðherra vísaði hann á að ræða skyldi það við fjárlaganefnd og þegar rætt var við formann fjárlaganefndar lofaði hann að líta á málið og ræða það við félagsmálaráðherra. Nú standa yfir umræður á Alþingi um fjárlög og fjáraukalög og þar er ekki staf að finna um lausn á fjárhagsvanda Byrgisins.

    Í þriðja lagi var félagsmálaráðuneytinu falið í samvinnu við Byrgið að ganga frá samningi um styrk til starfseminnar fyrir greidda þjónustu. Ráðuneytið sendi að lokum forsvarsmönnum Byrgisins samning í pósti til undirritunar sem hljóðaði upp á styrk að fjárhæð 25 millj. kr. á ári fyrir að vista 55 manns að meðaltali, þrátt fyrir ábendingar óvilhallra aðila um að lágmarksgreiðsla fyrir þann fjölda þyrfti að vera 30 millj. kr. og vitneskju þeirra um að ekki væru nema 45 vistpláss á Efri-Brú og ekki hafði verið útvegað annað húsnæði til starfseminnar. Ekkert tillit var tekið til ábendinga forsvarsmanna Byrgisins um að þeir gætu ekki uppfyllt samninginn með þennan húsakost og þessi greiðsla tryggði engan veginn framtíðarrekstur Byrgisins né tillagna þeirra við samningsgerðina. Gjörningurinn er því alfarið verk starfsmanna ráðuneytisins.

    Stoðunum var kippt undan rekstri Byrgisins þegar vistplássum var fækkað úr 80--90 í 45. Rekstur meðferðarheimilis þarf að vera þrískiptur í höfuðdráttum. Aðhlynningardeild fyrir 8--12 manns, síðan eftirmeðferð og að lokum áfangaheimili ...

    Byrgið hefur frá upphafi tekið við öllum einstaklingum sem leitað hafa eftir hjálp til að hætta fíkniefnaneyslu. Iðulega hefur verið um fólk að ræða sem er húsnæðislaust og þjóðfélagið er búið að dæma sem vonlaust og aðrar meðferðarstofnanir hafa gefist upp á að sinna. Byrgið hefur frá upphafi tapað milljónum ef ekki tugmilljónum króna í vangoldnum vistgjöldum skjólstæðinga sinna þar sem aldrei hefur verið tryggt að greiðslur berist meðferðarheimilinu, hvorki frá félagsmálastofnunum né Tryggingastofnun ríkisins. Byrgið hefur einnig verið með fanga í meðferð fyrir Fangelsismálastofnun ríkisins en aldrei fengið greitt fyrir það eina krónu. Byrgið hefur látið reikna út þann kostnað og nemur hann um 9 millj. kr. frá upphafi.``

    Lokaorð þessa bréfs eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

    Það er krafa okkar að ríkisstjórnin svari því skýrt hvort stefna hennar sé að Byrginu verði tryggður rekstrargrundvöllur eða ekki.``

    Virðulegi forseti. Ég vonast til að þeir sem ráða fjármálum og pólitík í þessu landi, þ.e. ríkisstjórnin, skynji alvarleikann sem felst í fíkniefnavanda fólks sem komið er í harða neyslu og afbrot. Ég hvet til þess að áður en menn afgreiða þetta frv. endanlega við 3. umr. verði tekið af fullri einurð á því að styrkja þau samtök sem hefur sýnt sig að geta leyst vanda fólks sem er komið í mikinn og alvarlegan vanda. Ég held að við getum ekki farið mikið betur með fjármuni okkar en svo. Ég leyfi mér að treysta því að skynsamir og réttsýnir þingmenn í fjárlaganefnd skoði þetta mál af mikilli kostgæfni, hvernig megi betrumbæta og styðja við þá viðleitni sem ég hef gert að umræðuefni.

    Virðulegi forseti. Þá vil ég víkja nokkrum orðum að málefnum Reykjalundar og SÍBS. Samtökin sendu fjárlaganefnd erindi með beiðni um fjárstyrk nú í haust. Það gera þau nú í þriðja sinn samkvæmt upplýsingum mínum. Þetta hefur verið rætt í nefndinni, m.a. af þeim sem hér stendur. Nú virðist sem enn eina ferðina verði þessi samtök og endurhæfingarmiðstöðin á Reykjalundi sniðgengin, þrátt fyrir að allir viðurkenni mikilvægi hennar á undangengnum árum. Ég leyfi mér að vona að úr þessu verði bætt fyrir síðustu umræðu fjárlaga. Fyrir því eru full rök eins og ég mun sýna fram á í máli mínu.

    SÍBS hóf starfsemi á Reykjalundi fyrir um 60 árum og þar er nú langfullkomnasta endurhæfingarstöð landsins. Hálft þriðja þúsund manns leitaði þangað á síðasta ári og horfur eru á að enn fleiri leiti þangað í ár. Þar hafa verið langir biðlistar og þörfin meiri en tekist hefur að uppfylla. Til að bæta þjónustuna og mæta aðsókninni sem vaxið hefur ár frá ári var ákveðið af hálfu SÍBS á síðasta áratug að ráðast í byggingu nýs og glæsilegs þjálfunarhúss sem var tekið í notkun í byrjun síðasta árs. Efnt var til landssöfnunar og með söfnunarfénu, sjóðum Happdrættis SÍBS og byggingarsjóði voru til um 200 millj. kr. í reiðufé til framkvæmda. Auknar kröfur um fullkomnari aðstöðu og aukið öryggi sjúkra, frágangur, gengisfall og fleiri þættir hækkuðu verð hússins. Þegar upp var staðið komst kostnaðurinn í 460 millj. kr. Þar við bættist að bankakerfið hefur ekki boðið sérlega hagstæð lán. Því varð SÍBS að taka hátt og dýrt lán fyrir mismuninum.

    Samkvæmt mínum upplýsingum hefur þrisvar verið leitað til fjárlaganefndar, eins og fyrr segir, um aðstoð vegna þessa en án árangurs. Undirtektir hæstv. heilbrrh. hafa jafnan verið góðar en efndir fjárlaganefndar alls engar verið. Þetta gerist þrátt fyrir að ýmis félagasamtök hafi sótt drjúgt í sjóði ríkisins án þess að skýringar liggi fyrir á því að hvaða leyti þjónusta þeirra sé dýrmætari en sú sem SÍBS veitir á Reykjalundi.

    Veit einhver til þess að nokkur félagasamtök hafi rekið starfsemi á borð við þá sem er á Reykjalundi fyrir eigið félagsfé? Til upplýsingar er rétt að láta koma fram, virðulegi forseti, að innlagnir voru samtals 1.307 og 1.311 á göngudeild eða samtals 2.618 á síðasta ári. Það sem af er þessu ári eru innlagnir 1.148 á fyrstu níu mánuðunum en 884 fyrstu sex mánuðina á göngudeildinni.

    Vita menn að SÍBS hefur lagt fram yfir 2 milljarða kr. til bygginganna sem þar eru, sömu bygginga og lánaðar eru til afnota fyrir heilbrigðisþjónustu sem ríkið veitir? Þjónustusamningur ríkisins vegna starfseminnar á Reykjalundi gerir ekki ráð fyrir húsaleigu til SÍBS af þessum eignum.

    Eftirspurnin eftir þjónustunni sýnir að það var rétt og nauðsynlegt að ráðast í þessa byggingu á sínum tíma. Reyndar er það ekki svo að hjá SÍBS hafi menn setið með hendur í skauti og beðið hjálpar frá æðri máttarvöldum. Samtökin hafa þegar selt eignir fyrir meira en 100 millj. kr. til að lækka byggingarskuldirnar, m.a. seldu þau ofan af sér höfuðstöðvar sínar og eru nú í leiguhúsnæði. Auk þess eru þau að selja eignir á Reykjalundi.

    [16:45]

    Herra forseti. Ég hef ekki komist til þess að gera samanburð á framlögum Alþingis til hinna ýmsu félagasamtaka og stofnana en það gæti orðið fróðleg lesning við 3. umr. og erfitt að finna reglu sem gilti um jafnræði félaga í þeim efnum. Langflest þeirra samtaka og félaga sem fengið hafa framlög á fjárlögum eru vafalaust vel að þeim komin en líklega ekkert betur en þau tvö sem ég hef verið að ræða um. Ég minni á að Náttúrulækningastofnunin í Hveragerði fékk fyrir tveimur árum 65 millj. í styrk til byggingar baðhúss og íbúðarálmu. Flestir fögnuðu þessu, að ég hygg, og með það í huga ætti að vera réttlætanlegt að láta eitthvað af hendi rakna til bygginga að Reykjalundi í stað þess að hafna erindinu nú í þriðja sinn. Hvaða skilaboð er verið að senda með því að hunsa aftur og aftur þetta erindi? Það er köld og óverðskulduð gusa yfir SÍBS og starfsemina á Reykjalundi. Láta menn sér detta í hug að áfram verði haldið að byggja og takast á við vaxandi biðlista til þess að lána ríkinu án endurgjalds? Stefna menn að því að starfsemin á Reykjalundi leggi upp laupana og ríkið taki við öllum rekstri þar? Er það viljinn?

    Er frekari ríkisvæðing á stefnuskrá stjórnarflokkanna í heilbrigðis- og endurhæfingarmálum? Svo gæti farið og ekki yrði það ódýrara. Það hlýtur að mega búast við því að verði umsókn hafnað með öllu einu sinni enn verði leitað leiða til þess að fá meiri arð af húsunum en verið hefur hingað til svo að hægt verði að greiða þau niður án þess að selja þurfi allar eigur samtakanna. Sú áhersla hlýtur að koma fram í næsta þjónustusamningi eða nýjum samningum við ríkið um það hvernig veita eigi þessa endurhæfingu. Rökin fyrir fjárhagslegu sjálfstæði Reykjalundar og starfseminni þar hafa verið að Happdrætti SÍBS fjármagni byggingar og því þurfi ekki að leggja Reykjalundi lið, enda hefur það löngum verið svo. Happdrættið á hins vegar undir högg að sækja nú um stundir og hagnaðurinn hefur stöðugt farið minnkandi.

    Nú eru horfur á að framlengt verði einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands til að reka peningahappdrætti. Þetta beinist einkum gegn tveimur vöruhappdrættum sem starfa hér, þ.e. Happdrætti DAS og Happdrætti SÍBS, en önnur happdrætti sem velta tíföldum upphæðum á við þau fá að greiða vinningana út í peningum. Án þess að ég ætli að gera þetta að sérstöku umræðuefni nú vek ég athygli á því að hér á hinu háa Alþingi er vegna þessa verið að veitast að SÍBS á tvennum vígstöðvum, annars vegar með því að skera mjólkurkúna, happdrættið, og veita háskólahappdrættinu áfram einkaleyfi, og hins vegar með því að hafna fjárbeiðni SÍBS til fjárln., sem í raun leiðir af hinu fyrra.

    Herra forseti. Ég treysti því að meiri hluti fjárln. endurskoði afstöðu sína til þessa þjóðþrifamáls fyrir 3. og síðustu umræðu fjárlaga eða fallist að öðrum kosti á brtt. sem sá sem hér stendur mun örugglega bera fram við 3. umr. málsins.

    Virðulegi forseti. Að lokum vil ég ræða um rekstur, hlutverk og störf Landhelgisgæslunnar. Ríkisendurskoðun gerði árið 2001 stjórnsýsluendurskoðun á skipulagi, verkefnum og rekstri Landhelgisgæslunnar og þar segir m.a. að athugun á rekstri hennar hafi leitt í ljós að þáverandi fyrirkomulag rekstrarins veitti lítið svigrúm til sparnaðar. Hafði verið dregið svo úr umfangi rekstrarins í viðleitni til að halda kostnaði innan fjárheimilda að ekki yrði komið við frekari sparnaði án samdráttar á þjónustu eða með einhvers konar uppstokkun og breytingu á rekstrarfyrirkomulagi. Ekki hafði náðst samræmi milli fjárheimilda og umfangs rekstrarins. Það var mat Ríkisendurskoðunar að um 48 millj. kr. vantaði að meðaltali á ári upp á að reglubundnar fjárheimildir nægðu fyrir rekstri stofnunarinnar miðað við gjöld og tekjur undanfarinna ára. Vöntunin var áætluð um 80 millj. kr. ef aðeins væri miðað við reglubundnar tekjur stofnunarinnar. Þessir útreikningar beindust aðeins að því að meta hversu mikla fjármuni vantaði að jafnaði á ári til að halda svipuðu umfangi í starfsemi og verið hafði án þess að leggja dóm á hvort halda skyldi óbreyttu umfangi eða draga saman í rekstri.

    Þrátt fyrir þessar ábendingar Ríkisendurskoðunar um fjárvöntun fyrir Landhelgisgæsluna er enga leiðréttingu að finna, hvorki í fjáraukalagafrv. fyrir árið 2003 né í fjárlagafrv. fyrir árið 2004.

    En í frv. sem við nú ræðum segir svo á bls. 360, með leyfi forseta:

    ,,Framlag til Landhelgisgæslu Íslands er 1.151,5 millj. kr. og er óbreytt að raungildi frá gildandi fjárlögum. Í byrjun þessa árs var komið á fót starfshópi til að fara yfir fjárhags\-áætlanir Landhelgisgæslunnar og fjárhagsútkomu rekstrarins. Var hópnum falið að greina þann vanda sem við væri að etja og benda jafnframt á leiðir til að koma á markvissari áætlanagerð og upplýsingagjöf í rekstri stofnunarinnar ásamt reglubundinni endurskoðun á þeim áherslum og markmiðum sem stofnunin setur sér til lengri tíma. Var hópnum falið að hafa í starfi sínu til hliðsjónar skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Landhelgisgæslunnar frá árinu 2001`` -- sem ég vitnaði til áðan -- ,,og niðurstöðu vinnuhóps um fjármál Landhelgisgæslunnar sem lauk störfum á síðasta ári. Þess er vænst, að starfshópurinn ljúki fljótlega störfum en innan dómsmálaráðuneytisins er hafinn undirbúningur að nýrri stefnumótun fyrir Landhelgisgæsluna og endurskoðun löggjafar á þessu sviði.``

    Í þrjú ár hefur Landhelgisgæslan verið í fjársvelti og enn eru nefndir að störfum sem eiga að skoða störf fyrri nefnda og ábendingar Ríkisendurskoðunar. Í dómsmrn. virðist unnið gegn því að Landhelgisgæslan geti aukið þjónustu sína og úthald skipanna. Um margra ára skeið hafa samtök sjómanna og útvegsmanna ályktað um að efla beri Landhelgisgæsluna en þrátt fyrir það hefur ekkert gerst. Þó er nánast allur tækja- og flugvélakostur Landhelgisgæslunnar kominn á úreldingaraldur og þótt það sama megi segja um þau fáu skip sem eftir eru er engin verkáætlun til um hvernig bæta megi úr.

    Undanfarna áratugi hefur Landhelgisgæslan gert út þrjú varðskip í þessum tilgangi og ekki má minna vera. Eitt þeirra, varðskipið Óðinn, er orðið gamalt og úr sér gengið og gegnir nú eingöngu hlutverki afleysingaskips enda hefur skiparekstur verið dreginn saman í sparnaðarskyni. Langt er síðan ætlað var að láta smíða nýtt skip í stað þess en því miður hefur það dregist úr hófi. Aðeins tvö skip gæta landhelginnar nú og það er engan veginn nægjanlegt á okkar stóra hafsvæði.

    Hjá Landhelgisgæslunni er rekin ein öflugasta og mikilvægasta björgunarsveit okkar. Starfsmenn Gæslunnar eru ávallt viðbúnir og hafa hætt lífi og limum öðrum til bjargar. Hlutverk Gæslunnar er gríðarmikið, hvort heldur er til verndar auðlind okkar eða til bjargar þeim sem í háska komast, á láði eða legi. Því er ekki vansalaust að láta fjárvöntun hefta störf Gæslunnar ár eftir ár.

    Í lokin ætla ég að vitna í ágæta grein Steinunnar Kristínar Pétursdóttur, varaþingmanns Frjálsl., sem ber yfirskriftina ,,Landhelgisgæslan í fjársvelti`` og hefur birst opinberlega. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

    ,,Niðurlæging stjórnvalda í rekstri þessarar stofnunar, sem gegnir lykilhlutverki í gæslu auðlindarinnar og björgunarstörfum á sjó og landi, er algjör. Vart eru til peningar fyrir olíu, að minnsta kosti hljóta Færeyingar að álíta svo. Það er að verða fastur liður að Landhelgisgæslan sigli skipum sínum til Færeyja til þess að taka olíu, þar sem verð á olíu þar er allmiklu lægra en hér. Til að geta keypt sem mest magn notast Gæslan við hið úrelta skip, Óðin, sem birgðastöð í Reykjavíkurhöfn og geymir í því skipi alla umframolíu sem ekki er þörf á að nota í siglinguna út. Þetta rekstrarfyrirkomulag er afar athyglisvert og vekur óhjákvæmilega í framhaldinu upp spurningar um hvort allt sé með eðlilegum hætti í verðlagningu á olíu hér á landi.`` Það er önnur saga.

    ,,Það er hins vegar annað mál, en sé horft til þeirrar hentifánastefnu sem tekin hefur verið upp í sívaxandi mæli í flutninga- og fiskiskipaútgerð mætti halda að þetta væri fyrsta skrefið í þá átt að flagga varðskipunum einnig út. Stjórnvöld hafa kannski í hyggju að biðja Færeyinga að gera þau út?

    Miðað við reynslu undanfarinna ára af rekstri Gæslunnar er greinilega brýnt að endurskoða fjárveitingar til hennar hið fyrsta og styðja við bakið á þessari mikilvægu stofnun af myndarskap. Reisa þarf Gæsluna aftur til vegs og virðingar þannig að niðurlæging á alþjóðavettvangi heyri sögunni til; niðurlæging sem annars vegar felst í því að versla í öðrum löndum vöru sem ætti að fást á svipuðum kjörum hér á landi og hins vegar að ganga um betlandi til að fjármagna mikilvæg tækjakaup. Einnig ber að hraða sem kostur er smíði nýs varðskips svo eftirlit og björgunarstörf í landhelginni verði aftur eins og þarf að vera.``

    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður, Jón Bjarnason, vakti athygli á samkomulagi milli heilbrrh. og Öryrkjabandalagsins þar sem gert hafði verið samkomulag um að bæta stöðu öryrkja. Talið var að sá kostnaður sem samkomulaginu fylgdi næmi 1.200 til 1.500 millj. kr. Nú er ljóst, virðulegi forseti, að það vantar 500 millj. upp á til þess að hægt sé að standa við samkomulagið. Hæstv. heilbrrh. svaraði áðan og gerði grein fyrir því að þetta stæði út af en vonaðist til að hægt yrði að leysa þetta mál sem allra fyrst. Sá sem hér stendur hvetur til þess að það verði gert og að reynt verði með öllum ráðum að standa við það samkomulag sem gert var milli hæstv. heilbrrh. og Öryrkjabandalagsins. Því verður auðvitað treyst miðað við svör heilbrrh. að þannig verði staðið að málinu.

    Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur hefur verið í hálfgerðu læri í fjárln. á sl. hausti, setið þar sem áheyrnarfulltrúi, hlustað og lagt eyrun við hvernig þar er að málum unnið og úr erindum skorið uns samþykkt eða látin bíða eftir atvikum. Ég ætla ekki að halda því fram, virðulegi forseti, að ég sé fullnuma í fræðum um fjárlagagerð og tala því ekki hér sem maður með yfirburðaþekkingu á fjárlögum. Ég hef vakið hér máls á málum sem mér eru hugleikin, virðulegi forseti, og tel að þurfi að vera afgreidd öðruvísi en meiri hluti nefndarinnar hefur gert nú við þær tillögur sem hér liggja fyrir til 2. umr. Ég treysti því, virðulegi forseti, að miðað við þau rök sem ég hef hér flutt varðandi þau mál sem ég gerði að umræðuefni taki þeir menn við sér sem stjórna verkum í fjárln. og hafa að mínu viti, eins og ég hef skynjað málin, unnið verkin ágætlega. Þó að ég sé kannski ekki sammála ríkisstjórninni í öllum atriðum lýsti ég því yfir í upphafi máls míns að að sjálfsögðu mundum við í Frjálsl. styðja góð mál hvaðan sem þau væru komin, hvort sem þau væru frá stjórn eða stjórnarandstöðu.

    Ég vil, virðulegi forseti, taka undir þau álit sem hér hafa verið kynnt af 1. og 2. minni hluta varðandi þróun og vinnu í fjárln. og þær aðgerðir ríkisvaldsins að senda sérstök bréf um að hafna því að stofnanir komi til fjárln. Við því hafa formaður og varaformaður fjárln. brugðist og lýst því yfir og staðið við hingað til og ég á ekki von á öðru en að framvegis komi allir til fjárln. sem menn vilja þangað boða. Ég hef svo sem ekki undan því að kvarta að menn hafi ekki getað fengið alla á sinn fund í fjárln. sem þeir hafa óskað eftir.

    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem hér birtist m.a. í áliti 1. minni hluta varðandi framhaldsskólana og fjárframlög til þeirra. Ég tek líka undir það sem hér er sagt í áliti 2. minni hluta varðandi sveitarfélögin og fjárhagsstöðu þeirra. Það hefur greinilega komið fram að í mörgum sveitarfélögum sjá menn fram á mikla fjárvöntun. Fyrirhugað er að sveitarfélögin taki í framtíðinni að sér fleiri verkefni en þau hafa haft hingað til og að verkefni verði færð frá ríki til sveitarfélaga. Undir þá stefnumótun get ég vissulega tekið en tel að þá þurfi að tryggja sveitarfélögunum betur en mér fannst vera gert við færslu á verkefnum grunnskólans nægjanlegar tekjur til þess að takast á við þau nýju verkefni sem þeim hafa verið falin.

    Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu við 2. umr. fjárlagafrv.