Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 17:14:44 (2046)

2003-11-25 17:14:44# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[17:14]

Einar Oddur Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Í upphafi umræðunnar gerði hv. þm. Magnús Stefánsson formaður fjárln. ítarlega grein fyrir störfum nefndarinnar í sambandi við tillögur sem þar liggja fyrir og hér hafa verið kynntar og ekki er ástæða til að fjölyrða um það frekar.

Ég vil hins vegar vekja aðeins athygli á nál. 1. og 2. minni hluta, sem eru þó nokkur ritverk og liggja hérna fyrir.

Annar. minni hluti fjárln. skilar nokkuð þykku ritverki en þar getur að líta eftirfarandi setningu, með leyfi forseta:

,,Það frumvarp sem hér liggur fyrir er atlaga að velferðarkerfinu.``

Atlaga að velferðarkerfinu, þar höfum við það. (Gripið fram í.) Það er svona sem þessi blessaði flokkur vill ræða þau mál í mesta velferðarríki heimsins, atlaga að velferðarkerfinu. Og úr því að þeir ágætu menn vilja haga orðum sínum svo þá held ég að ég láti bara umræðu lokið um þann kafla sem snýr að Vinstri grænum. (JBjarn: Þú þorir ekki að tala um það.)

Fyrsti minni hluti fjárln. er nú ekki miklu betri í þeirri einkunnagjöf sem hann velur tillögum um fjárlögin, en í nál. stendur að það sé ,,ábyrgðarhluti að leggja fram frumvarp til fjárlaga sem einkennist af óvönduðum vinnubrögðum og fljótaskrift``.

Óvönduðum vinnubrögðum og fljótaskrift. Nú geta menn haft hver sína skoðun á því hvað eru vönduð eða óvönduð vinnubrögð og ég ætla ekki að deila við neinn um það. Staðreyndin er hins vegar sú sem liggur fyrir og við megum aldrei gleyma, að svo heppilega hefur viljað til á Íslandi síðasta áratug að Ísland er nú í hópi örfárra ríkja Evrópu þar sem ríkisfjármálin eru í miklu jafnvægi. Í öllum skýrslum og vitnisburði frá öllum aðilum sem um Ísland fjalla erlendis er það tekið mjög skýrt fram að það sé til mjög mikillar fyrirmyndar hvernig Íslendingum hefur tekist á síðasta áratug að haga ríkisfjármálum sínum. Svo geta menn, virðulegi forseti, kallað þetta allt ábyrgðarleysi, ábyrgðarlaust að leggja fram slíkt frumvarp.

Ég held að þetta sé ekki heppileg afstaða hjá stjórnarandstöðunni, virðulegi forseti. Ég held að stjórnarandstaðan, hversu mikið sem henni kann að leiðast hér á Alþingi, ætti samt að reyna að fjalla um þetta á hlutlægan hátt. Við skulum fagna því að vera þeir lukkunnar pamfílar, sú þjóð sem fær að búa við það umhverfi að ríkisfjármálin séu í lagi. Stærstu þjóðir í Evrópu, hinar ríku þjóðir sem hafa borið af í fjármálum, eins og Þýskaland, Frakkland og fleiri, þjást nú af því að á hverju einasta ári er ríkissjóður þar að safna botnlausum skuldum. Reksturinn hjá þeim þjóðum er frá 3--3,5% af landsframleiðslu --- öfugur, mínusinn er alltaf, halli er á hverju einasta ári og hann safnast upp. Menn skulu gera sér grein fyrir hvaða tölur þetta eru ef við setjum þær inn í íslenskan veruleika. Þetta er sama og við værum árum saman að reka ríkissjóð með halla upp á 25--30 milljarða kr. Það er ógæfan sem blasir við svo mörgum Evrópuþjóðum. Það getur hver og einn séð það í hendi sér, virðulegi forseti, að þegar svo gengur fram ár eftir ár blasir ekkert annað við en að óreiðan í ríkisfjármálum muni hefta framgang slíkra þjóða og muni hefta vilja þeirra til að bæta kjör þegna sinna og mun hefta þær að öllu leyti. Að þessu leyti berum við af örfáum öðrum þjóðum Evrópu. Því skulum við fagna og ekki gleyma því. Við skulum ekki tala um þetta af slíkri léttúð eins og lesa má í greinargerðum hinnar góðu stjórnarandstöðu.

Hæstv. menntmrh. kom hér og leiðrétti nokkuð efnislega misskilning hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar um kostnaðinn við framhaldsskólana. Mjög þarft var að gera það vegna þess að hér var um heilmikla villu að ræða. Framhaldsskólarnir eru nú afgreiddir með 600 millj. kr. viðbót og þannig er módelið rétt að dómi allra þeirra sem af kunnáttu hafa farið um það. Auðvitað er það svo um alla liði, allar stofnanir og öll samtök sem eiga að fá greitt frá ríkinu að þau geta komið til fjárln. og sagt að þetta sé nú ekki nóg og hitt sé ekki nóg heldur o.s.frv., lengi má þar til finna. En meginatriðið var að leiðrétta þetta módel þannig að sú villa sem við vissum að var þarna vegna þess að við vorum að auka vægi verkmenntaskólanna, yrði leiðrétt.

Ég sé að hinn ágæti flokkur Samf. leggur fram þó nokkrar tillögur til breytingar á fjárlagafrv. Ég ætla ekki að ræða þær efnislega. Þó að mér sé ekki hlátur í hug fór ég að brosa þegar ég sá eina þeirra. Samf. hefur um nokkurt árabil haft þann sið að leggja fram tillögur um að auka tekjur ríkissjóðs og gert það frekar billega að mínum dómi, en nú yrði það gert með því að herða skatteftirlitið. Fyrir nokkrum árum kom tillaga frá henni um að herða skatteftirlitið. Það átti að gefa ríkissjóði 1.000 milljónir. Í fyrra var þetta orðin dálítið lægri upphæð, mig minnir 500 milljónir, og núna kemur tillaga um að herða skatteftirlitið og það á að gefa 200 milljónir, þannig að eitthvað er hin góða Samf. að linast í hinni miklu hörku sinni í skattamálum. Nema hitt að ríkissjóður sé að ná svo góðum árangri í skattinnheimtunni að hún telji ástæðu til að lina á þeirri miklu hörku. (Gripið fram í.) Það getur kannski verið hvort tveggja.

Ég ætla ekki að gera þær tillögur sem hér liggja fyrir að umræðuefni heldur fara aðeins í það efnahagsumhverfi sem við störfum núna í og fjalla um og gera nokkrar athugasemdir við þá umræðu sem mér finnst vera í þjóðfélaginu. Af því tilefni, virðulegi forseti, ætla ég að gera nokkra tilbreytingu frá málflutningi mínum fram til þessa og lýsa því yfir að ég er mjög sammála þeim orðum hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar sem hann sagði hér áðan, að það væri vert að átta sig á því hvort peningastefna Seðlabankans um sífellt hækkandi vexti gæti ekki auðveldlega snúist upp í andhverfu sína.

Ég er nefnilega alveg viss um, virðulegi forseti, að þetta er rétt hjá hv. þm. Þessi stefna Seðlabankans, sífelld vaxtahækkunarstefna, hefur áður snúist upp í andhverfu sína. Hún snerist upp í andhverfu sína á árunum 1998 og 1999 með hörmulegum afleiðingum. En það er eins og hin góða stofnun Seðlabankinn hafi ekki getað lært neitt af því.

Það er ástæða til að ræða þetta vegna þess að það er sérstaklega eitt að mínu áliti sem skyggir á annars mjög gott ástand íslenskra efnahagsmála en það er að við erum núna með tæplega 3% atvinnuleysi. Að ég best veit, virðulegi forseti, hefur ekki verið gerð vísindaleg eða fræðileg úttekt á því hvert er hið náttúrulega atvinnuleysi á Íslandi. En ég er sannfærður um og allir þeir kunnáttumenn sem ég hef heyrt tala um það telja að það sé mjög lág tala. En við vitum það öll að tæplega 3% atvinnuleysi á Íslandi er allt of há tala.

Núna er vaxandi viðskiptahalli og krónan hefur styrkst mjög umfram það sem ég ætlaði að flestir menn teldu að íslensk framleiðsla og íslenskt samkeppnisumhverfi þyldi. Ég hef oft haldið þessa ræðu hér áður, virðulegi forseti, og minnt á að það er bara ein víglína hjá einni lítilli þjóð sem býr úti við Atlantshaf á þessari eyju, það er bara ein víglína og sú víglína er samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega. Það er ekkert annað, við erum hvergi annars staðar að berjast.

Það er mjög hættulegt ef við missum gengið mjög hátt upp. Það gæti orðið verulega alvarlegt fyrir alla atvinnustarfsemi úti á landi, það gæti orðið verulega alvarlegt fyrir samkeppnisiðnaðinn og sjávarútveginn í heild sinni, og ég tala nú ekki um nýsköpunina, vaxtarbroddana, það virkar á vaxtarbroddana eins og frostnótt á nýgræðinginn að vori. Stóra atvinnugreinin, sem menn hafa verið að binda svo miklar vonir við og heitir ferðaþjónusta, má síst við þessu.

Þess vegna er það, virðulegi forseti, að mér hafa fundist umræður ýmissa hagfræðinga, ekki síst Seðlabankans, dálítið undarlegar um fjárlagafrv. þar sem þeir hafa lagt áherslu á að höfuðmáli skipti að hér væri mikill afgangur eða þó nokkur afgangur í ríkisfjármálunum. Nú erum við að skila fjárlagafrv. með miklum afgangi, tæpum 7.000 milljónum, sem er ágætt og mjög fáar þjóðir sem geta státað af því. En ég ætla jafnframt að fullyrða, virðulegi forseti, að þetta er ekki tala sem skiptir máli. Við værum alveg jafnnær hvort sem hún væri 2 eða 3 milljörðunum hærri eða lægri. Það er mjög rangt þegar menn einblína á slíka tölu því að hún er mjög lítil, menn hafa enga þekkingu og enga tækni til að mæla að þetta geti skipt sköpum.

Það er líka mjög rangt sem mér finnst vera í umræðunni um ríkisfjármálin að það sé svo mikið höfuðatriði að skera niður opinberar framkvæmdir. Opinberar framkvæmdir, virðulegi forseti, eru mjög litlar um þessar mundir á Íslandi. Þær eru rúmar 16.000 milljónir eða innan við 2% af landsframleiðslunni. Hvar eru þær framkvæmdir? Þær eru í þeim infrastrúktúr sem við þurfum að efla, þ.e. gagnvart skólum, framhaldsskólum, sjúkrahúsum og þess háttar. Þessar tölur eru ekkert of háar á Íslandi, alls ekki. Undir eðlilegum kringumstæðum, sem ég tel að séu núna, mættu þær þess vegna vera miklu hærri. Við megum gjalda varhuga við því þegar menn byrja að tala svona um efnahagsmálin eins og hefur verið gert af forustu Seðlabankans frá því á miðju sumri og svo kemur hver stofnunin á fætur annarri eins og ekkó að taka undir.

Við Íslendingar stöndum mjög vel. Ríkisfjármálin eru mjög góð. En það er ekki afgangurinn í ríkisfjármálum sem mun ráða úrslitum um hvernig okkur mun vegna á næsta ári. Hvernig okkur vegnar á næsta ári og hvernig efnahagslífið gengur fram mun fyrst og fremst og aftur og aftur, segi ég þar, ráðast af þeim kjarasamningum sem gerðir verða á næsta ári. Það mun ráða öllum úrslitum.

Hinir góðu, duglegu, heiðarlegu og samviskusömu starfsmenn ríkisins hafa á umliðnum árum fengið mjög mikla umbun kjara sinna jafnframt því sem lífeyrissjóðir þeirra hafa verið stórefldir. Hinir ágætu starfsmenn ríkisins --- svo ég haldi áfram þeirri ræðu enn einu sinni sem ég hef oft haldið áður --- verða og mega ekki undir neinum kringumstæðum ætla að launakjör þeirra geti ráðist af nokkru öðru en framleiðslugetunni í landinu. Öll önnur hugsun og allar aðrar óskir geta ekki leitt nema til ófarnaðar, mikils ófarnaðar fyrir alla. Gagnvart stöðu gjaldeyrisins í dag, gagnvart stöðu íslensku krónunnar og hvað hún hefur hækkað mikið, þá er verið að setja framleiðsluatvinnuvegina í mjög mikla úlfakreppu þannig að þeir munu lenda í því strax núna á útmánuðum að eiga mjög erfitt uppdráttar í samningaviðræðum við launafólk sitt. Menn verða því að átta sig á að við stöndum frammi fyrir alvarlegum hlutum þar sem það gildir að menn verða að fara mjög varlega. Það skiptir öllum sköpum fyrir framtíðina. Á þetta verðum við að horfa, við megum ekki undan líta. Við verðum að vita að sterk bein þarf til að þola góða daga. Það hefur verið mikil velferð á Íslandi, við höfum verið að auka hér kaupmátt meira og lengur en nokkur önnur þjóð í Evrópu. Við getum haldið því áfram, það er hugsanlegt að við getum aukið kaupmáttinn áfram á næsta ári og þá eru mestu möguleikarnir til þess ef kauphækkanir verða litlar. Því minni sem kauphækkanir eru, þeim mun meiri líkur eru á að við getum aukið kaupmátt hinnar íslensku þjóðar. Og það er verkafólkið, það er fólkið við framleiðsluatvinnuvegina sem verður að hafa allan forgang í þessu. Það er geta atvinnuveganna til að borga kaup sem verður að ráða, ekkert annað má ráða undir neinum öðrum kringumstæðum. Það verða örlagaspilin sem ráða því hvernig þessi fjárlög koma fram. Eins og þau standa í dag, eins og þau hafa verið hugsuð og eins og þau eru grunduð og lögð fram þá stendur ríkissjóður mjög traustum fótum og við skulum fagna því öll.