Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 17:35:28 (2049)

2003-11-25 17:35:28# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[17:35]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er sérkennilegur málflutningur hjá hv. þm. Nú er það allt í einu þannig að ríkisfjármál skipta orðið engu máli í sambandi við efnahagslífið. Það er auðvitað alrangt. Það er hárrétt hjá hv. þm. að þau skipta ekki öllu máli. En þau skipta að sjálfsögðu máli.

Í sambandi við þann vanda sem hv. þm. var að fjalla um, þ.e. hugsanlega hækkun vaxta eða gengisþróunina, þá spilar þetta að sjálfsögðu allt saman, hv. þm. Þess vegna skipta ríkisfjármálin máli þó þau skipti ekki öllu máli.

Hv. þm. blandaði saman algjörlega óskyldu máli í raun og veru varðandi hert skattaeftirlit. Ég vil því koma með örlitla leiðréttingu sem verður auðvitað gerð betri skil síðar. Við leggjum til að lagðar verði 200 millj. í hert skattaeftirlit sem mun aftur á móti skila inn í ríkissjóð mun hærri upphæð. Hv. þm.: Það er óþarfi að snúa hlutunum algjörlega á hvolf þó óskhyggja þín sé stundum í þá áttina.

Varðandi framhaldsskólana sem hv. þm. kom líka inn á áðan --- en ræðutími minn er liðinn svo hv. þm. verður bara að lesa það í fyrri ræðu minni --- en fjöldamörg atriði varðandi framhaldsskólana hafa verið skilin eftir, þrátt fyrir að þær tillögur sem lágu fyrir í fyrrahaust verði látnar taka gildi varðandi reiknilíkan.