Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 17:36:45 (2050)

2003-11-25 17:36:45# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[17:36]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég fari enn einu sinni ofan í þetta: Ríkisfjármál Íslands eru og hafa verið í miklu jafnvægi núna í áratug. Þau eru það nú og allt útlit er fyrir að þau verði það áfram. Þess vegna er það rangt að það skipti einhverjum sköpum núna hve margir milljarðar eru í afgang, hvort það eru 2, 3, 4, 5, 6 eða 7, það vegur ekki neitt. Ríkisfjármálin eru í lagi og verða í lagi. Það er sú áhætta sem ég er að gera athugasemdir við. Það skiptir ekki máli, vegna þess að við erum í jafnvægi, höfum verið í jafnvægi um margra árabil. Ríkissjóður hefur verið að minnka sínar skuldir. Ríkissjóður hefur verið að vinna ötullega að því, öfugt við aðrar þjóðir sem eru að auka sínar skuldir. Þess vegna er ekki nein hætta sem stafar af því hvernig við rekum þessi ríkisfjármál núna, 1, 2 eða 3 milljörðum meira eða minna.