Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 20:07:37 (2078)

2003-11-25 20:07:37# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[20:07]

Kolbrún Halldórsdóttir (frh.):

Virðulegur forseti. Ég var þar stödd í ræðu minni kl. hálfátta þegar gert var matarhlé á fundinum að ég var að fjalla um framlög til háskólastigsins og komin að Kennaraháskóla Íslands og vildi gera grein fyrir brtt. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs á þskj. 432. Það er Kennaraháskólinn sem um ræðir en við leggjum til að þar verði framlag til rannsókna hækkað um 182 millj. kr. Töluna rökstyðjum við á eftirfarandi hátt, virðulegi forseti.

Fyrir fjórum árum var hlutfallið á milli rannsókna og kennslu í Kennaraháskóla Íslands 40% til rannsókna á móti 60% til kennslu. Nú er svo komið að á yfirstandandi ári er hlutfall --- virðulegi forseti, gæti ég fengið að ganga úr skugga um að það sé verið að halda hér fund.

(Forseti (JBjart): Forseti biður þingmenn um að hafa hljótt svo ræðumaður geti haldið áfram ræðu sinni.)

Nú er svo komið hjá Kennaraháskóla Íslands að hlutfall fjár til rannsókna er komið niður í 24% á meðan hlutfallið til kennslu er 76%. Hljóta allir að sjá í ljósi þess sem ég sagði fyrr í ræðu minni að þetta hlutfall er ekki viðunandi. Við hljótum að stefna að því að við öflugan háskóla sé hlutfallið til rannsókna jafnhátt og það sem fer til kennslunnar. Það hlýtur að vera stefna okkar og ætti að vera stefna ríkisstjórnarinnar og þess vegna er eðlilegt að hér komi leiðrétting sem geri það að verkum að hlutfallið fari aftur í það sem var fyrir fjórum árum hjá Kennaraháskóla Íslands, þ.e. að 40% af framlaginu geti farið til rannsókna og 60% til kennslu. Þannig er þessi brtt. á þskj. 432 hugsuð.

Þá vil ég gera að umtalsefni brtt. á þskj. 443 um framhaldsskólann en þingmönnum mun hafa borist í dag ályktun stjórnar Félags framhaldsskólakennara um fjárlagafrv. og fjárveitingar almennt til framhaldsskólans. Stjórn félagsins hefur fjallað um fyrirhugaðar fjárveitingar til framhaldsskóla á grundvelli fjárlagafrv. fyrir árið 2004. Í ályktun sinni gerir stjórnin grein fyrir því hversu fjármagn til skólanna hefur verið vanáætlað undanfarin ár. Ekki er óeðlilegt að maður spyrji hvernig á því standi að stjórnendur framhaldsskólanna skuli ár eftir ár vera látnir ganga þá píslargöngu sem þeir hafa gengið núna í ár og undangengin ár. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það jaðrar í mínum huga við niðurlægingu hvernig málefni framhaldsskólanna hafa verið höndluð og verð ég að segja að dropinn sem fyllir mælinn í þeim efnum er auðvitað þau mistök sem virðast hafa átt sér stað í ráðuneyti menntamála þegar þetta fjárlagafrv. sem hér um ræðir var undirbúið. Í því er gert ráð fyrir 16.220 nemendum í námi í framhaldsskólunum árið 2004. En upphæðin sem ætluð er til að kenna þeim nemendum er ekki einu sinni í samræmi við það reiknilíkan sem þó er í gildi í ráðuneytinu þegar úthlutanir til framhaldsskólanna eru útreiknaðar. Heilar 400 millj. kr. vantar upp á að ráðuneytið fylgi sínu eigin reiknilíkani í frv.

Breytingartillögur meiri hlutans gera ráð fyrir að hér verði að hluta til gerð bragarbót. Hver er áætlaður fjöldi nemenda í framhaldsskólum á næsta ári? Varfærnisleg spá skólastjórnenda gerir ráð fyrir 17 þúsund nemendum. Í fjárlagafrv. vantar sem sagt 800 nemendur í heildina, þ.e. fjármuni vantar upp á til að kenna 800 nemendum. Formaður fjárln. sagði fyrr í dag í ræðu sinni að við verklag í vinnu fjárln. hafi verið haft að leiðarljósi m.a. að eiga samstarf við fagaðila. En ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst ekki hafa verið gert nægilega vel í því efni hjá fjárln. því að brtt. sem hér liggja fyrir, um 600 millj. almennt til framhaldsskóla til viðbótar við það sem frv. gerir ráð fyrir, nægja ekki alla leið. --- Og verð ég að segja, virðulegi forseti, að ég sakna hæstv. menntmrh. úr salnum. Ég sá ekki betur en hann hefði verið við atkvæðagreiðsluna rétt áðan þannig að fengur væri að því að hæstv. ráðherra kæmi hér og hlustaði á mál mitt og gerði þingheimi grein fyrir því hvers vegna svona villa gat farið inn í fjárlagafrv. að ekki er einu sinni gert ráð fyrir að kennsuframlag til framhaldsskólanna sé í fullu samræmi við reiknilíkan skólans. En ég treysti því að virðulegur forseti geri hæstv. menntmrh. viðvart um að hér sé verið að fjalla um menntamál og fengur væri að því að hafa hann í salnum.

Virðulegur forseti. Það er sem sagt ljóst að fjárln. ætlar að sjá til þess að hægt sé að kenna 16.220 nemendum og einum 400 í viðbót, þ.e. í heildina 16.620 nemendum, það eru þær 600 millj. sem hv. fjárln. gerir ráð fyrir í brtt. sínum að eigi að dekka. En hvað verður um þá nemendur sem út af standa? Þá 400 nemendur sem líka munu skila sér inn í framaldsskólana á næsta ári ef spáin um 17 þúsund nemendur gengur eftir? Ég vil taka fram, virðulegi forseti, að spár skólastjórnenda framhaldsskólanna hingað til hafa ekki bara staðist, það hefur verið enn meiri fjöldi sem hefur bankað á dyr framhaldsskólanna en skólastjórnendur hafa gert ráð fyrir þannig að þeir telja sig vera með varfærnislega áætlun þegar 17 þúsund nemendur eru taldir í gögnum þeirra.

Virðulegi forseti. Ég spyr: Verður þessum 400 nemendum sem fyrirsjáanlega verður ekki pláss fyrir vísað frá skóla? Verður þeim meinuð innganga í framhaldsskólana? Það virðist vera það sem klausan í brtt. meiri hluta fjárln. þýðir en sú klausa sem fylgir brtt. hljómar svo, með leyfi forseta:

[20:15]

,,Ráðuneytið áformar að gera samninga við skólana um hámarksframlög og hámarksfjölda ársnemenda sem hverjum skóla verður greitt fyrir þannig að útgjöld framhaldsskólanna á árinu 2004 verði í samræmi við fjárveitingar til skólanna í fjárlögum.``

Hvað þýðir þessi klásúla? Hún þýðir nákvæmlega að það verði til fjármagn til að kenna 16.620 nemendum og ekki umfram það. Það þýðir með öðrum orðum, virðulegur forseti, að það verður ekki pláss fyrir alla þá nemendur sem sækja um nám í framhaldsskólunum. (JBjarn: Spyrja menntmrh.) Það er eðlilegt að hæstv. ráðherra, ef hann heyrir orð mín í sjónvarpstækjum í húsinu, reyni að svara þessu að ræðunni lokinni. En þrátt fyrir þessa leiðréttingu vantar enn 200 millj. kr. til að sinna lágmarksþjónustu við nemendur framhaldsskólanna. Þar geng ég sem sagt út frá því að nemendafjöldinn fari ekki yfir 17.000 nemendur á næsta ári.

Virðulegur forseti. Er það nema von að stjórn Félags framhaldsskólakennara gagnrýni þann árvissa hráskinnsleik, sem hún kallar svo í ályktun sinni, með tölur um fjárveitingar til framhaldsskólanna sem þingi og þjóð er boðið upp á? Stjórnin telur hráskinnsleikinn hæfa illa ríkisstjórn sem kenni sig við viðleitni til umbóta í ríkisrekstri með tilheyrandi langtímastefnumótun og ábyrgri fjármálastjórn. Í lokin segir, með leyfi forseta:

,,Stjórnin hvetur ráðherra í ríkisstjórn, fjárlaganefnd og alla þingmenn til þess að bæta nú um betur og setja fjárframlög til framhaldsskólanna á raunhæfan grundvöll fyrir árið 2004 þannig að í minni mæli þurfi að koma til síðbúinna björgunaraðgerða með fjáraukalögum.``

Virðulegur forseti. Undir þetta tökum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Við viljum sýna viðleitni í verki með því að hvetja Alþingi til að samþykkja að 800 millj. kr. verði bætt við fjárveitingu til framhaldsskólanna árið 2004 en ekki einungis 600 millj. kr. eins og meiri hluti fjárln. gerir ráð fyrir.

Virðulegur forseti. Þá sný ég mér að breytingatillögum á þskj. 435 sem lúta að Þjóðminjasafni Íslands, Safnasjóði og menningarstofnunum, þ.e. viðhaldi og stofnkostnaði.

Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslu. Það er ein merkilegasta menningarstofnun okkar og hróður þess hefur farið vítt um lönd. Sá galli hefur verið á ráðslagi löggjafans í málefnum safnsins að það hefur ekki getað tekið á móti gestum í sex ár vegna endurbóta á safnahúsinu við Suðurgötu. En nú hillir undir að biðinni eftir að húsið opni með endurnýjaðri sýningu okkar helstu þjóðargersema ljúki. Eins og kunnugt er þá er áformað að opna safnið í vor, á sumardaginn fyrsta. Ég held að ég hafi vikið að málefnum Þjóðminjasafnsins í hverri einustu ræðu minni um fjárlög á síðasta kjörtímabili. Meginumkvörtunarefnið hefur ævinlega verið hið sama, skortur á fjármunum til nýrrar grunnsýningar safnsins. Því miður, virðulegur forseti, verður engin breyting á því í ár. Enn þarf ég að hreyfa sama máli og það í umræðu um fjárlög á opnunarári safnsins.

Á síðustu árum hefur þjóðminjavörður orðið að skera niður í starfsemi safnsins, þ.e. taka út úr rekstrinum svo undirbúa megin nýja grunnsýningu. Það hefur aldrei verið gert ráð fyrir þeim kostnaði í áætlunum um endurbætur hússins. Þannig hefur ævinlega litið út fyrir að stjórnvöld hafi viljað að húsið yrði opnað nýmúrað og málað með þetta fína gólfefni, nýja glugga og allt sem heiti hefur en bara enga gripi. Nú hefur, með hressilegum niðurskurði í rekstri safnsins og reyndar líka með fjármagni frá Landsvirkjun sem hefur verið styrkur bakhjarl safnsins á seinni árum, tekist að öngla saman fyrir forvörslu gripa og kaupa á skápum og innréttingum sem geymt geta gripi safnsins í nýrri grunnsýningu. En hv. fjárln. og menntmrn. neita enn að sýna því skilning að það kosti peninga að setja sýninguna upp. Þannig fær Þjóðminjasafnið ekki svar við beiðnum sínum um fjármuni til uppsetningarinnar og frágang sýningarinnar eða gerð kynningarefnis.

Það er ekki sæmandi að Alþingi sendi Þjóðminjasafnið út á guð og gaddinn til að safna fé fyrir grunnsýningu þjóðminjaarfs okkar. Slíkt er niðurlægjandi fyrir okkur sem þjóð. Ef byggingarnefnd hússins hefur ákveðið að hluta af sýningunni verði komið til þeirra sem hennar eiga að njóta fyrir milligöngu margmiðlunarbúnaðar þá verður fjárveitingavaldið að tryggja fjármuni fyrir hugbúnaðinn sem til þarf. Ef samþykkt handrit að sýningunni gerir ráð fyrir prentaðri sýningarskrá og kynningarefni þá þarf fjárveitingavaldið að tryggja fjármagn til hönnunar og prentunar þess efnis á þeim tungumálum sem búið er að ákveða. Verði þessir þættir ekki til staðar verður sýningin vængstýfð. Hverjum verður hún þá til sóma? Ekki íslenskri þjóð.

Virðulegur forseti. Til þess að safnið þurfi ekki að opna hið nýuppgerða hús með tóma skápa liggjandi á gólfunum tvist og bast leggja þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til að safnið fái umbeðnar 47 millj. kr. til viðbótar við almennan rekstur. Það er sú fjárhæð sem safnið telur sig þurfa til að grunnsýningin geti orðið að veruleika.

Við leggjum einnig til, virðulegur forseti, að orðið verði við beiðni safnsins um úrvinnslu uppgreftrargagna vegna fornleifarannsókna á bæjarstæðinu í Reykholti. Til þess verks þarf 5 millj. kr. á næsta ári eigi verkefnið ekki að stöðvast. Þetta er verkefni sem safnið hefur fengið úthlutað fjármunum til. Nú er svo komið að það vantar lokahnykkinn. Það skýtur skökku við að fjárln. skuli ekki ætla að heimila safninu að ljúka því sem ljúka þarf við rannsóknina í Reykholti. Þegar haft er í huga hversu miklum fjármunum er úthlutað af fjárln. án faglegrar milligöngu eða umsagnar Þjóðminjasafnsins tel ég í hæsta máta eðlilegt að Þjóðminjasafnið fái þá litlu fjármuni sem hér er beðið um til að ljúka mikilvægri og mjög merkri fornleifarannsókn í Reykholti. Rannsóknin fer meira að segja fram í Norðvest. Þannig mætti taka undir orð hv. þm. Helga Hjörvars sem ræddi áðan um misvægið milli framlaganna þegar kjördæmin voru skoðuð.

Virðulegur forseti. Við leggjum til að Þjóðminjasafnið fái 15 millj. kr. til að halda áfram skráningu þjóðargersema okkar inn í gagnasafn eða upplýsingakerfið Sarp. Þessi skráning hefur verið unnin í fjarvinnslu frá starfsstöðvum á Hvammstanga og Húsavík. Nú virðist fjárln. hafa ákveðið að það fólk sem sinnt hefur þessum störfum hingað til getið gengið um atvinnulaust. Eða hvað á maður að halda? Þjóðminjasafnið hefur verið mjög ötult við að skapa störf úti á landsbyggðinni gegnum almenna starfsemi safnsins en ekki síður í tengslum við húsasafnið sem eðli málsins samkvæmt er staðsett vítt og breitt um landið. Læt ég þar með lokið umfjöllun minni um beiðni okkar til hækkunar á almennum lið safnsins. Sú hækkunarbeiðni var upp á 67 millj. kr. og varðaði grunnsýningu safnsins, Reykholtsrannsóknina og skráningu í upplýsingakerfið Sarp.

En úr því að ég minntist á húsasafn Þjóðminjasafnsins þá er það afar merkilegt. Þjóðminjasafnið hefur lengi barist fyrir því að húsasafnið fái að starfa af þeirri reisn sem það á skilið. En á sama tíma og alþingismenn þykjast þess umkomnir að velja hús, í einkaeign flest, og láta gera upp vítt og breitt um landið fyrir 88 millj. kr. af opinberu fé þá grotna niður húseignir húsasafns þjóðarinnar, torfbæir og önnur verðmæt hús sem eru menningarminjar og viðurkennd sem slík og segja sögu mannlífs í landinu. Alþingismenn í fjárln. telja sig þess umkomna að ákveða hvaða hús skuli gera við og hver ekki. Þeir virðast þar með telja sig vita meira um málið en fagfólk sem er í vinnu hjá þjóðinni við að meta slíka hluti.

Virðulegur forseti. Þessi stefna fjárln. kemur fram í brtt. við fjárlagalið húsafriðunarnefndar sem nú hækkar við 2. umr. um 88 millj. kr., úr 66,4 millj. kr. í 154,4 millj. kr. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggjum til brtt. varðandi húsasafn Þjóðminjasafnsins. Hún gerir ráð fyrir því að 35 millj. kr. verði bætt við á fjárlagaliðnum Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður, undir 6.21 Endurbótasjóður menningarstofnana. Við leggjum til hækkun á framlagi til húsasafnsins sem við það mundi hækka úr 55 millj. kr. í 90 millj. Þess skal getið að framlag til húsasafnsins er eingöngu lítill hluti af þeim fjárlagalið sem hér um ræðir.

Það eru ekki bara hús sem fjárln. hefur valið til varðveislu. Nefndin hefur líka einkar mikið dálæti á gömlum bátum og skipum hvers konar. Þannig hefur nefndin, milli 1. og 2. umr. um fjárlagafrv., ákveðið án tillits til faglegs mats þjóðminjavörslunnar að 20 millj. kr. fari í að gera upp gamla eikarbáta og vélbáta á næsta ári.

Virðulegur forseti. Ég hef áður gagnrýnt fjárln. fyrir hið sama á þessum vettvangi. Ég tel nauðsynlegt að breyta um kúrs í þessum málum og það af alvöru. Hinn nýi safnasjóður er ekki búinn að slíta barnsskónum. En fjárln. virðist ekki hafa þolinmæði til að leyfa honum að vaxa upp í að geta sinnt hlutverki sínu. Þannig úthlutar fjárln., að því er virðist án nokkurs faglegs mats eða úthlutunarreglna, 100 millj. kr. af opinberu fé til safna og sýninga af ýmsu tagi. Á sama tíma fær safnasjóður eingöngu 66 millj. kr. til að úthluta til allra byggðasafna landsins auk þess sem sjóðnum ber að styrkja ýmiss konar verkefni, svo sem einstakar sýningar. Þannig viðheldur fjárln. Alþingis tvöföldu styrkjakerfi til safna. Annað lýtur lögum og faglegri stjórn en hitt stjórnast af hagsmunapoti þingmanna á Alþingi Íslendinga --- það verður að segjast eins og er --- aðallega landsbyggðarþingmanna.

Fyrir tæpu ári birtist grein í Morgunblaðinu sem fjallaði um nákvæmlega þetta. Það var reyndar umfjöllun í miðopnu blaðsins en þar var viðtal við Jóhann Ásmundsson, formann FÍSOS, sem er Félag íslenskra safna og safnamanna. Þar gagnrýnir Jóhann Ásmundsson harðlega þetta tvöfalda styrkjakerfi sem viðgengst. Hann segir að á meðan safnasjóður fái aðeins 66 millj. kr. til úthlutunar --- sem voru reyndar 58 millj. þá --- séu réttmætar umsóknir til safnasjóðs upp á a.m.k. 100 millj. kr. Það gefur augaleið hversu mikla möguleika stjórn safnasjóðs á til að úthluta þeim sem sem sinna starfinu á akrinum með ekki hærri framlög. Á sama tíma þarf sjóðurinn að horfa upp á að fjárln. Alþingis úthluti næstum tvöföldu fjármagni safnasjóðs til safna og sýninga vítt og breitt um landið.

Hæstv. forseti. Má ég leyfa mér að stinga upp á því að við tökum þessi mál til alvarlegrar skoðunar og afnemum slíkar úthlutanir þingmanna sem byggja á hagsmunapoti og sporslupólitík. Við erum komin áleiðis inn í 21. öldina og ég tel að við ættum að innleiða fagmennsku í alla úthlutun til safna, til menningar og til lista. Við eigum grunn að fínu kerfi í safnasjóði ef þingmenn gætu setið á sér og leyft því kerfi að dafna.

Annað kerfi vil ég nefna sem hefur verið komið á af hinu opinbera og virkað ákaflega vel. Það er úthlutunarkerfi menntmrn. til sjálfstæðu leikhúsanna. Þar fara allar umsóknir til leiklistarráðs sem starfar samkvæmt ákveðnum reglum sem öllum eru kunnugar. Ráðuneytið úthlutar svo þeim fjármunum sem Alþingi ákveður að skuli renna til starfsemi frjálsu leikhúsanna til einstakra hópa samkvæmt úthlutunartillögum leiklistarráðs. Þetta kerfi hefur reynst afar vel síðan því var komið á. Um það ríkir víðtæk sátt og ég skora á fjárln. að beita sér fyrir því að þær tilraunir sem löggjafinn hefur reynt að útfæra til að koma á sams konar kerfi varðandi úthlutanir til safna fái tíma og tækifæri til að dafna á sama hátt og kerfið sem leiklistarráð hefur þróað. Að öðrum kosti lendum við á villigötum. Það verður endalaust gagnrýnt að fjárln. skuli beita þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru. Þau stangast fullkomlega á við orð hv. formanns nefndarinnar í inngangsræðu hans í dag, að nefndin leitaðist við að fara eftir faglegu mati og eiga samstarf við fagaðila.

[20:30]

Virðulegur forseti. Þá er ég komin að þeirri breytingartillögu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem er að finna á þskj. 433 og er við fjárlagalið 07-190 Ýmis verkefni. Þessi tillaga gerir ráð fyrir því að hafið verði átaksverkefni á vegum ríkis og sveitarfélaga til þess að koma á gjaldfrjálsum leikskóla. Svo sem kunnugt er hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lagt fram þáltill. um samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um gjaldfrjálsan leikskóla. Það hefur verið talað fyrir henni. Þetta er í samræmi við kosningaáherslur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs frá því í vor þar sem gengið var út frá því að forgangsverkefni yrði að ríkið tryggði fjármuni í sameiginlegt átaksverkefni með sveitarfélögunum til að fella niður leikskólagjöld í áföngum.

Það sjá allir í hendi sér þvílík kjarabót slíkt yrði fyrir fjölskyldurnar í landinu. Í ljósi þess hvernig þau mál hafa verið að þróast, þ.e. hvernig tekjuskiptingin í samfélaginu hefur verið að breytast, teljum við afar mikilvægt að koma á þessu verkefni og leggjum því til við 2. umr. fjárlaga að ríkissjóður veiti 30 millj. kr. til þess að koma af stað þessu átaksverkefni. Við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir því að þetta er verkefni sem taka yrði í þrepum. Fyrsta skrefið gæti verið stigið á næsta ári með því framlagi sem hér er gert ráð fyrir að lagt verði fram, þ.e. 30 millj.

Á þskj. 434 gera tveir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, auk mín er það hv. þm. Jón Bjarnason, tillögu um að Ríkisútvarpið verði eflt. Við fögnum því að ríkisstjórnin skuli hafa ákveðið að leyfa hækkun afnotagjalda þó ekki sé hún mjög veruleg. Við sjáum í hendi okkar að það muni létta eilítið á spennitreyju þeirri sem Ríkisútvarpið og rekstur þess hefur verið í undanfarin ár.

En við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs viljum brydda upp á annarri leið. Við leggjum hér til að Ríkisútvarpið fái sjálfstæða fjárveitingu upp á 140 millj. kr. sem því beri að setja í innlenda dagskrárgerð því öllum er ljóst, virðulegur forseti, að í þeim þrönga stakki sem Ríkisútvarpinu hefur verið skorinn rekstrarlega hefur innlend dagskrárgerð mætt afgangi og setið á hakanum. Það skýtur mjög skökku við því að Ríkisútvarpið sem menningarstofnun --- það hefur menningarlegu hlutverki að gegna samkvæmt lögum --- hlýtur að eiga að geta haft fjármuni til þess að standa við bakið á innlendri dagskrárgerð, enda er það sú dagskrá sem nýtur mestra vinsælda hjá áhorfendum, hjá þjóðinni. Það hefur sýnt sig hvað eftir annað það er einmitt það sem íslenskir áhorfendur vilja, þ.e. vandaða, metnaðarfulla innlenda dagskrárgerð. Þá erum við ekki að tala um viðtalsþætti í beinum útsendingum sem kosta sáralítið. Það er verið að tala um metnaðarfulla dagskrárgerð sem lýtur lögmálum miðilsins, dagskrárgerð sem tekur mið af menningarsamfélagi okkar og menningu og gerði þá stofnuninni kleift að standa undir nafni sem menningarstofnun. Við leggjum sem sagt til sjálfstæða fjárveitingu til Ríkisútvarpsins til eflingar innlendri dagskrárgerð upp á 140 millj. kr.

Að auki viljum við tryggja styrkingu dreifikerfisins sem sömuleiðis hefur verið útgjaldaþáttur sem Ríkisútvarpið hefur ekki getað sinnt nægilega vel vegna þröngs fjárhags. Við gerum ráð fyrir því að það komi sjálfstæð fjárveiting upp á 70 millj. kr. til að styrkja dreifkerfið til að tryggja að það nái út um allt land.

Virðulegur forseti. Á þskj. 440 er komið að náttúrustofunum. Eins og kunnugt er var lögum um náttúrustofurnar breytt á síðasta ári þar sem ábyrgð á rekstri þeirra var færð yfir til sveitarfélaganna, þó með lögbundnu ákveðnu framlagi frá ríkinu til þessara stofa. Lögbundið framlag ríkisins til náttúrustofanna á að nema launum forstöðumanns að viðbættri sömu upphæð til almenns rekstrar.

Forstöðumenn náttúrustofanna komu á fund umhvn. í aðdraganda fjárlaganna eða þegar verið var að ræða fjárlagatillögurnar og þá kemur það upp úr kafinu í erindi þeirra að upphæðin sem ríkið gerir ráð fyrir til stofanna, þ.e. 7,7 millj., nægir ekki fyrir því sem lögbundið framlag ætti að duga til.

Líffræðingar sem gegna stöðu forstöðumanna náttúrustofanna eiga að hafa samkvæmt eðlilegum launatöxtum 5,8 millj. í laun á ári og eru þá launatengd gjöld öll sömul þar innifalin. Það þýðir að ríkið ætti að láta til stofanna tvisvar sinnum 5,8 millj. eða 11,6 millj. í grunnframlag til hverrar þeirra. Að öðrum kosti er ríkisvaldið ekki að standa við lagalega skyldu sína sem er að finna í lögum um náttúrustofurnar. Við gerum því ráð fyrir því í þessari breytingartillögu að þetta verði leiðrétt og allar stofurnar fái hækkun úr 7,7 millj. upp í 11,6. Sömuleiðis setjum við hér inn Náttúrustofu Norðausturlands á Húsavík sem virðist hafa gleymst í fjárlagafrv. því búið er að taka ákvörðun um að stofna þá stofu. Það kemur reyndar fram í breytingartillögum meiri hlutans að sú gleymska er viðurkennd þar sem meiri hlutinn gerir ráð fyrir því að framlag til þeirrar stofu komi inn.

Meiri hluti fjárln. gerir sömuleiðis breytingartillögur varðandi framlög til náttúrustofa en ekki breytingu sem gerir ráð fyrir því að grunnframlag ríkisins verði hækkað, heldur gerist fjárlaganefndin verkefnavalsnefnd fyrir stofurnar og fer að útdeila fjármunum til einstakra verkefna stofanna. Auðvitað þurfa þessar stofur stuðning við einstök verkefni og við viljum öll sjá þessar stofur aukast og eflast. Ég held að allir sem hér eru inni, virðulegur forseti, geri sér grein fyrir því að einmenningsvinnustaðir eins og náttúrustofurnar sem komið var á fót á sínum tíma verði ekki lengi öflugar stofur ef þær verða stöðugt einmenningsvinnustaðir. Það hlýtur því að gefa augaleið að við þurfum að setja meira fé í þessar stofur sem tryggir það að sess þeirra verði aukinn og að þær nái einhverri fótfestu í sínu samfélagi. Sumar stofurnar hafa getað tengt sig öðrum vinnustöðum og hafa þannig getað vaxið og dafnað. Aðrar hafa ekki náð eins góðri fótfestu. Ég tel því að hér sé tilefni til þess að sinna virkilega vel þessu verkefni og legg til að þetta fasta grunnframlag hins opinbera til þessara stofa verði 11,6 millj. á hverja þeirra. Hitt samþykki ég síðan og set mig alls ekki upp á móti, að fjárln. veiti að auki til einstakra verkefna þessara stofa til að tryggja að þær hafi úr nógu að moða.

Virðulegur forseti. Þá er ég komin að brtt. á þskj. 446. Þar eru nokkrir óskyldir liðir settir fram. Þar ber fyrst að nefna lið undir dómsmrn., 190 Ýmis verkefni, umferðaröryggisáætlun. Þar gerum við ráð nýjum lið sem í verði settar 25 millj. kr. Forsaga þessa máls eða grunnur að baki þessu máli, virðulegur forseti, er sá að hinn 20. apríl árið 2002 var samþykkt á Alþingi þáltill. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi. Þar var gert ráð fyrir að á næstu ellefu árum eða til loka ársins 2012 skyldi stefnt að fækkun banaslysa og annarra alvarlegra umferðarslysa um 40% miðað við fjölda slysa árin 2000 og 2001. Hugmyndin samkvæmt þáltill. er að þessu takamarki verði náð með sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga, fyrirtækja, áhugahópa um umferðaröryggismál og alls almennings, og dómsmrh. er gert að kynna Alþingi í byrjun hvers árs stöðu umferðaröryggismála og hvernig miðar í átt að settu marki. Síðan er tekið fram í þessari þingsályktun að starfs- og framkvæmdaráætlun skuli endurskoða árlega.

Nú verð ég að viðurkenna, virðulegur forseti, að það hefur ekki verið gerð nein starfs- eða framkvæmdaráætlun fyrir þessa umferðaröryggisáætlun þannig að það er í raun ekkert til að endurskoða. Það þýðir, virðulegur forseti, að markvisst starf til að fækka slysum er ekki hafið. Þarna stendur ríkisvaldið sig sem sagt alveg hörmulega. Það sniðgengur jafnvel eigin ályktanir með því að drattast ekki úr sporunum varðandi þessa framkvæmd.

Upp á síðkastið hefur verið talsverð umræða um það í fjölmiðlum hversu mikið Reykvíkingum virðist hafa tekist að fækka alvarlega slösuðum í umferðinni, eða úr 70 að meðaltali fyrir nokkrum árum niður í 40--50 núna á hinum seinni árum. Mikla athygli hefur vakið talan yfir alvarlega slasaða í umferðinni í Reykjavík 2001, en samkvæmt upplýsingum Umferðarstofu munu einungis 28 manns hafa slasast alvarlega í umferðinni Reykjavík það ár.

Hverju er þetta nú að þakka? Halda menn að fækkun alvarlega slasaðra í umferðinni í Reykjavík hafi bara komið af sjálfu sér? Ef svo er, ætti þá ekki slysum að hafa fækkað samsvarandi annars staðar á landinu? Jú, að sjálfsögðu. En svo er ekki. Slíkt hefur ekki gerst. Þess vegna tel ég að ástæðuna megi rekja til meðvitaðs átaks sem hefur verið gert í þessum málaflokki á vegum stjórnvalda í Reykjavík. Í Reykjavík hefur verið í gildi umferðaröryggisáætlun sem farið hefur verið eftir og settir fjármunir til síðan 1996. Á þeim tíma hefur fækkun slysa innan borgarmarkanna verið yfir 30% miðað við árin 1992--1996. En þetta hefði aldrei gerst án þess að fjármunir væru lagðir til einstakra verkefna sem tengjast umferðaröryggisáætluninni. Reykjavíkurborg setur um þessar mundir á bilinu 150--200 millj. á ári í þennan málaflokk og það er lykillinn að því að árangur er að nást.

Það ber að hafa það líka í huga hér, virðulegur forseti, að lagfæringar á vegakerfinu skila sér nú oft betur með tilliti til fækkunar slysa en dýrar og umfangsmiklar nýframkvæmdir þannig að það má alveg brýna alþingismenn hér til að hafa þetta í huga þegar forgangsraðað er til vegamála því að við þurfum að sinna hér af alvöru fækkun svokallaðra svartra bletta í umferðinni og hafa þá í huga um leið að um 70% þeirra svörtu bletta sem við viljum fækka í umferðinni eru á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni höfuðborgarinnar.

En mergurinn málsins er sá, virðulegur forseti, að slysum fækkar ekki af sjálfu sér. Við Íslendingar höfum státað af því að vera ofarlega á listum OECD yfir löndin sem standa sig vel í umferðaröryggismálum. Í yfirliti yfir 30 lönd og dauðaslys í umferðinni á hverja 100 þús. íbúa höfum við sem sagt á þessum lista komist í sjötta sæti hæst. En höfum upp á síðkastið verið að hrapa niður og síðast þegar ég kannaði þessi mál þá vorum við komin úr sjötta sæti niður í þrettánda sæti á þessum lista. Dauðaslysum er nefnilega ekki að fækka á Íslandi. En þeim mundi fækka ef við sem sýslum með fé skattborgaranna tækjum af skarið og settum fjármuni, þá fjármuni sem þarf, í það að fækka slysum.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggjum til breytingu við fjárlagafrv. til að bæta megi ástandið og gera framkvæmdaráætlun og fjárhagsáætlun sem tryggi að árangur verði af þeirri umferðaröryggisáætlun sem Alþingi samþykkti 20. apríl 2002.

Í framhaldi á þskj. 446, virðulegur forseti, koma tillögur sem heyra undir umhvrn. Þar ber fyrst að telja fjárlagalið 190 Ýmis verkefni. Þar langar okkur til að setja meira fjármagn, meiri fjármuni í að undirbúa Vatnajökulsþjóðgarð, en svo sem kunnugt er hefur hann verið í undirbúningi nú um nokkurra ára skeið og Alþingi hefur samþykkt að slíkan þjóðgarð skuli stofna. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 3 millj. kr. í þennan undirbúning en þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vilja gera betur og um leið og fagnað er breytingartillögum meiri hluta fjárln. varðandi fjárframlag í þjóðgarðinn Snæfellsjökul leggjum við til að samsvarandi upphæð, þ.e. 10 millj. fari í undirbúning Vatnajökulsþjóðgarðs.

Við viljum líka gera vel við vernd Breiðafjarðar og eftir heimsóknir til Breiðafjarðarnefndar þá vitum við hvað þeirri nefnd er þröngur stakkur skorinn og leggjum því til í þessari tillögu að til verndar Breiðafjarðar verði aukið framlag um 3,1 millj., þ.e. að framlagið fari í heildina þá upp í 10 millj. á næsta ári.

[20:45]

Á fjárlagalið 211 Umhverfisstofnun undir umhvrn., leggjum við til 11 millj. kr. hækkun. Í brtt. meiri hlutans eru gerðar tillögur um 10 millj. kr. breytingu sem varðar, eins og ég sagði áðan, þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Þessar 11 milljónir sem við erum hér með í huga eru fjármunir sem Umhverfisstofnun vantar í þágu dýraverndar, en það kom fram í máli gesta umhvn. Alþingis sem komu frá Umhverfisstofnun að hálfgert ófremdarástand ríkir í þessum málaflokki, dýraverndarmálum, hjá stofnuninni vegna skorts á fjármunum. Sannleikurinn er sá að fjöldi einstaklinga og fyrirtækja eða félaga sýslar hér með dýr. Má þar nefna hestaleigur, fólk sem ræktar hvolpa eða önnur dýr til að selja, og þetta eru allt saman starfsleyfisskyldar starfsgreinar. En vegna fjárskorts hefur Umhverfisstofnun ekki getað sinnt þessum málum, ekki getað stundað það eftirlit sem eðlilegt er og henni ber samkvæmt lögum að stunda og hefur ekki heldur getað gefið út þau starfsleyfi sem gefa þarf út. Til þess að rétta við þennan málaflokk og koma fótunum almennilega undir hann leggur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð til að veittar verði 11 millj. kr. til hans á næsta ári og það er þá að sjálfsögðu framlag sem þyrfti áframhaldandi á næstu árum meðan verið er að leiðrétta þennan kúrs.

Þá erum við með enn eina brtt. sem varðar umhvrn. Hér leggjum við til að að 100 millj. kr. verði settar aukalega á fjárlagalið 281 Styrkir til fráveitna sveitarfélaga. Nú er það svo að átaksverkefni sveitarfélaganna og ríkisins í þessum málaflokki hefur staðið yfir í nokkur ár og samkvæmt mínum heimildum mun því ljúka á árinu 2005, þ.e. það eru tvö ár fram undan núna til að reka smiðshöggið á þetta átaksverkefni að koma fráveitumálum sveitarfélaganna í lag. Það eru dýr og stór verkefni sem blasa við sveitarfélögunum í þessum efnum og það vita allir sem rýnt hafa í þennan málaflokk að til þess að þessi lokahnykkur geti orðið farsæll þarf meiri fjármuni en hér er gert ráð fyrir í fjárlagafrv. og þess vegna leggjum við til þessa brtt.

Síðasta brtt. á þessu skjali, virðulegur forseti, lýtur að Náttúrufræðistofnun Íslands á fjárlagalið 401 undir umhvrn., en þar leggjum við til 30 millj. kr. í aukafjárveitingu. Þessar 30 milljónir viljum við eyrnamerkja til gerðar vistgerðarflokkunar og náttúrufarskorta af landinu, en samkvæmt upplýsingum forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands væri hægt að klára kortlagningu landsins á 4--5 árum ef til kæmi um 30 millj. kr. framlag á ári í þetta sérstaka verkefni næstu 4--5 ár. Þetta er afar mikilvægt verkefni sem stofnunin hefur fengið fjármuni til þess að undirbúa. Það hefur verið mjög vel undirbúið en nú ríður á að stofnunin fái að halda áfram með kortlagninguna og gerð kortanna þannig að þessir fjármunir eru nauðsynlegir í það og við höfum lagt hér til aukafjárveitingu í þetta verkefni upp á 30 millj. kr.

Virðulegur forseti. Ég hef þá lokið því að gera grein fyrir þeim brtt. sem ég er 1. flm. að ásamt með reyndar öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og tel mig þá hafa farið í gegnum það helsta í þeim brtt. En aðrir hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munu koma á eftir mér og gera grein fyrir einstökum tillögum og formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, gerir grein fyrir tekjutillögum okkar í ræðu sinni hér á eftir.