Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 20:54:47 (2082)

2003-11-25 20:54:47# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[20:54]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Þetta er alveg rétt, virðulegur forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir er sleip í samlagningu. En hv. þm. er líka búin að koma auga á það að við erum með tekjutillögur á móti og hún er líka búin að sjá að þær nægja ekki að öllu leyti fyrir þeim útgjöldum sem við erum hér að leggja til. En má ég minna hv. þm. á það að fjárlagafrv. er lagt fram með tekjuafgangi og við ætlum okkur að ganga á þann tekjuafgang en engu að síður að skilja eftir 4 milljarða í tekjuafgang á þeim fjárlögum sem við værum tilbúin til að standa á bak við.

Síðan vil ég líka benda hv. þm. á það að við erum hér við 2. umr. og 3. umr. er eftir og við getum vel átt eftir að koma með frekari tillögur og þá um niðurskurð á útgjöldum sem meiri hlutinn hefur verið að leggja til. Það er því ekki öll nótt úti enn í þessum efnum.

Varðandi hins vegar náttúrustofurnar sem hv. þm. gerði að umtalsefni þá er hv. þm. að misskilja tillögur meiri hlutans. Meiri hlutinn gengur út frá því að grunnframlagið til stofanna verði óbreytt 7,7 milljónir á hverja stofu. Síðan leggja þeir til 5 milljónir í verkefni til stofanna, þ.e. algerlega fyrir utan grunnframlagið. Ég lýsi stuðningi við það að slík verkefni séu fjármögnuð og mæli því sannarlega ekki gegn þessum 5 milljóna aukafjárveitingum sem meiri hlutinn er að leggja til til stofanna. En það breytir því ekki að grunnframlagið verður að hækka úr 7,7 milljónum í 11,6 til þess að hægt sé að segja að verið sé að fara að lögum. Lagaleg skylda okkar er sú að greiða sem nemur launum forstöðumanns að viðbættri sömu upphæð til almenns rekstrar. Laun forstöðumanna náttúrustofanna með launatengdum gjöldum eru 5,8 millj. kr. Tvisvar sinnum 5,8 milljónir eru 11,6. Það þýðir að grunnframlagið á að vera 11,6 en ekki 7,7. Hvað meiri hlutinn bætir síðan mörgum 5 milljónum ofan á það í sjálfstæð verkefni, skal ég styðja allt.