2003-11-26 00:04:59# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÁI
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[24:04]

Álfheiður Ingadóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umræður um kjördæmapot og fyrir hvern þingmenn eru, en það hefur löngum legið á orði að þingmenn Reykjavíkur væru hinir eiginlegu þingmenn þjóðarinnar og það er kannski þess vegna sem maður gleðst yfir því ef vel gengur í Hafnarfirði og á Suðurlandi að maður er ættaður þaðan og þannig er það nú með okkur Reykvíkingana.

Hér á undan mér hafa þrír þingmenn Vinstri grænna gert grein fyrir þeim reginmun sem er á stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjármálum ríkisins og þess fjáralagafrv. sem hér er til 2. umr. Þetta er fjárlagafrv. sem einkennist af aukinni misskiptingu, svo vísað sé í ályktun Alþýðusambandsins, þar sem álögur á heimili eru hækkaðar um 2,2 milljarða kr. en eini skatturinn sem er lækkaður er hátekjuskattur. Stefið sem hér hefur verið flutt af hverjum stjórnarþingmanninum á fætur öðrum er: Drögum úr samneyslunni, drögum úr samneyslunni. Til að forða þenslu, óðaverðbólgu og kollsteypu þarf að draga úr samneyslunni. Henni þarf að halda niðri, sagði hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fyrr í umræðunni í dag.

Enda gera þjóðhagsspár fjmrn. og Seðlabanka ráð fyrir að vöxtur samneyslunnar hjá ríki og sveitarfélögum verði ekki nema um 1% á næsta ári sem er töluvert undir meðaltali síðustu ára en vöxtur samneyslunnar á árabilinu 1990--2002 var að meðaltali um 3% og hefur þó heldur dregist aftur úr einkaneyslu og vexti þjóðartekna.

Í langtímaáætlun um ríkisfjármál sem ríkisstjórnin lagði fram með fjárlagafrv. fyrir árin 2005--2007 kemur fram að áformað er að halda vexti samneyslunnar undir sögulegu meðaltali öll þessi ár, þ.e. í kringum 2%. Um þetta má nánar lesa í nýjum Peningamálum Seðlabankans, virðulegi forseti, á bls. 37.

En hvað er samneyslan sem þarf að halda svona niðri, virðulegi forseti? Það er menntakerfið okkar, það er heilbrigðiskerfið okkar, það er tryggingakerfið okkar og það er samgöngukerfið okkar. Þarna á að þrengja að á næstu árum og ekki þarf að koma á óvart að það sé stefna núv. ríkisstjórnar.

Hér hefur verið lýst eftir kosningaloforðum bæði Sjálfstfl. og Framsfl. en þess ber að geta að í langtímaáætluninni góðu er að finna þessi týndu kosningaloforð, m.a. um 20 milljarða skattalækkanir, og þar eru líka kosningaloforðin um 3 milljarða kr. hækkun barnabóta o.fl. Kosningaloforð sem hvergi er að finna í því fjárlagafrv. sem við erum nú að ræða nema, eins og ég sagði áðan, lækkun hátekjuskatts. Að öðru leyti ganga stóru línurnar í fjárlagafrv. þvert á kosningaloforð eins og margir hafa talað um hér í dag.

En menn hafa þakkað það að fá tekjuáætlunina fram nú strax við 2. umr. og ekki skal ég kvarta undan því. Mér finnst það hins vegar öfugsnúið að aukin tekjuöflun ríkissjóðs upp á 2,2 milljarða kr., m.a. með lækkun vaxtabóta og sjúkratrygginga, með afnámi endurgreiðslu vegna viðbótarlífeyrissparnaðar, með hækkun þungaskatts og vörugjalds skuli í raun ekki vera til umræðu nú. Þessir liðir hafa sömu áhrif og hækkun skatta en teljast til gjaldaliða frv. og munu koma hér frekar við sögu við 3. umr. Þá munu þingmenn Vinstri grænna væntanlega flytja brtt. við þessar ósvífnu fyrirætlanir ríkissjóðs um tekjuöflun.

Miðstjórn ASÍ hefur ályktað um einkenni fjárlagafrv. og gefið því einkunn, og með leyfi forseta, segir þar:

,,Miðstjórn ASÍ telur mikilvægt að árétta að sú samfélagssýn og stefna sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2004 getur aldrei orðið grundvöllur að sátt á vinnumarkaði.``

Það er miður þegar til þess er litið að á næsta ári eru allir kjarasamningar lausir og virðist að þessu leytinu til stefna í stríð á vinnumarkaði.

En ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að fylgja úr hlaði þremur tillögum sem allar eru mjög smáar í tölum talið, samtals 165 millj. kr., en þær skipta þó ótrúlega miklu máli.

Það er fyrst brtt. á þskj. 455 við fjárlagalið 14-190 Ýmis verkefni 1.24 Landsúttekt á fyrirkomulagi sorpförgunar. Þessa brtt. flytja auk mín hv. þm. Jón Bjarnason og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir.

Þetta er einföld tillaga. Hér er gert ráð fyrir að gerð verði landsúttekt á því hvernig sorpförgun, þ.e. söfnun, eyðingu og förgun sorps er fyrir komið. Við höfum nýlega undirgengist strangar kröfur Evrópusambandsins með lagasetningu um frágang og eftirlit með förgunarstöðvum sorps en eins og menn vita þá er þetta víða erfitt úrlausnar úti um land, kostnaður mikill og gæta þarf að gerð berggrunns og vernd vatnsbóla. Markmiðið má ekki vera að hvert sveitarfélag fyrir sig fari að koma sé upp sínum eigin urðunarstað og það má heldur ekki verða að sorp verði flutt óhóflega langar leiðir með bílum eða bátum. Báðar þessar lausnir geta reynst litlum sveitarfélögum dýrar og því er hér lagt til að gerð verði landsúttekt á þessum málum til að hægt verði að bæta skipulag þeirra. Það er mjög brýnt að tekið sé heildstætt á málum sem þessum og förgunarstöðum fjölgi ekki heldur fækki eins og reyndar er gert ráð fyrir í lögunum sem ég nefndi.

Á þskj. 445 er brtt. við fjárlagalið 08-399 Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Þar er lagt til að liðurinn 1.55 Niðurgreiðsla hjálpartækja vegna heyrnar- og talmeina hækki um 10 millj. kr. Auk mín flytur þessa brtt. hv. þm. Þuríður Backman.

Á undanförnum árum hefur löng bið eftir heyrnartækjum verið gagnrýnd harðlega. Þess eru dæmi að gamalt fólk hefur þurft að bíða í allt að 10--13 mánuði eftir því að fá heyrnartæki hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni, en nú stefnir reyndar í að biðtíminn styttist nokkuð á næsta ári eða í sjö mánuði en betur má ef duga skal í þessum efnum.

Slík bið á ekki við alla. Hvað varðar heyrnartæki höfum við nefnilega tekið upp ameríska kerfið, þetta tvöfalda kerfi þar sem efnahagur ræður niðurstöðu mála. Sá sem nýtir sér 28.000 kr. niðurgreiðslu ríkisins og fullnægir skilyrðum laga um niðurgreidd heyrnartæki þarf að bíða sem fyrr segir eftir tækjum hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni í átta eða níu mánuði um þessar mundir og borgar þá 22.000--52.000 kr. fyrir hvert tæki, 44.000--104.000 kr. fyrir tvö með niðurgreiðslu.

Ef hann hins vegar greiðir sjálfur tækið hjá einkafyrirtæki sem hefur leyfi til innflutnings heyrnartækja þarf hann ekki að bíða nema í kannski þrjár vikur en þá kosta tækin í bæði eyru á bilinu 170.000--300.000 kr. eða 85.000--150.000 kr. stykkið. En hjá þessu fyrirtæki er líka biðlisti fyrir þá sem vilja njóta niðurgreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins og hann nær nú fram í maí á næsta ári, hann er sex mánuðir og lengist óðfluga.

Virðulegi forseti. Þessu verður að breyta. Það gengur ekki að láta efnahag manna ráða því hvenær og jafnvel hvort viðkomandi fær jafnmikilvægt hjálpartæki sem heyrnartæki er. Þess vegna leggjum við til 10 millj. kr. viðbótarframlag til þess að létta greiðslubyrði þeirra sem þurfa á heyrnartækjum að halda. Á hverju ári eru afgreidd um 2.000 heyrnartæki frá Heyrnar- og talmeinastöðinni þannig að þetta þýðir aðeins um 5.000 kr. aukningu á niðurgreiðslunni úr 28.000 í 33.000. Eftir sem áður þyrftu menn að reiða fram allt frá 17.000--45.000 kr. fyrir hvert tæki þannig að auðsæilega mætti flytja tillögu um miklu hærri fjárhæð, bæði til að stytta biðtímann sem ég nefndi áðan og létta greiðslubyrðina enn meir. En þetta er skref í rétta átt til að útrýma því misrétti sem hér er á ferðinni og þetta gæti orðið til þess að þeir efnaminnstu, gamla fólkið mundi leyfa sér að láta það eftir sér að endurnýja gömlu tækin sín.

[24:15]

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, er hér á þskj. 429 brtt. við liðinn 07-700 Málefni fatlaðra. Þar er lagt til að við bætist liður 1.94 Sérstakt átak til að bæta aðgengi fatlaðra, 150 millj. kr.

Nú á ári fatlaðra 2003 má reyndar merkja nokkra áherslu á þann málaflokk í fjárlagafrv., og það ber að þakka það sem vel er gert, en framlög til þessa málaflokks hækka um 165 millj. umfram verðlags- og launahækkanir. Það er unnið eftir nokkurra ára gamalli áætlun um útrýmingu biðlista eftir húsnæði fyrir fatlaða sem átti að ljúka á árunum 2000--2005 í samræmi við samkomulag sem gert var á milli samtaka fatlaðra og félmrn. Því miður er ekki útlit fyrir að það muni takast á næstu tveimur árum því að enn eru biðlistar langir, einkum í Reykjavík og á Reykjanesi, reyndar ríkir algjört ófremdarástand þar í húsnæðismálum þessa hóps.

Það er nú svo að það er ekki bara á sviði húsnæðismálanna sem skortir á fullt jafnrétti fatlaðra í íslensku samfélagi. Það skortir því miður mikið á að aðgengi fólks með hvers kyns fötlun sé tryggt, jafnvel að opinberum byggingum. Hvað þýðir þetta í raun? Það þýðir að hreyfihamlað fólk er á meðvitaðan eða ómeðvitaðan hátt útilokað frá þátttöku í samfélaginu. Þetta er hrein mismunun og brot á sjálfsögðum borgaralegum réttindum. Því leggjum við hv. þm. Þuríður Backman hér fram tillögu um að ríkið byrji á því að taka til í eigin ranni með 150 millj. kr. framlagi til sérstaks átaks til að bæta aðgengi fatlaðra að opinberum byggingum í eigu ríkisins.

Það er erfitt að þurfa að viðurkenna það hér að margar opinberar byggingar, þar á meðal Náttúrugripasafn Íslands, sem er í skrifstofubyggingu á mínum annars ágæta vinnustað, á 3. og 4. hæð við Hlemm, er lokað hreyfihömluðum um helgar en mögulegt að fara með þá í gegnum skrifstofurnar þá tvo virku daga í viku sem opið er. Þetta er auðvitað ekki boðlegt, virðulegi forseti, en því miður er ástandið svona víðar í samfélaginu. Það er því við hæfi á ári fatlaðra að Alþingi ákveði að gert verði átak í þessum efnum og því er þessi tillaga hér flutt. Þá gætu stofnanir sótt sérstaklega í þennan sjóð til að bæta aðgengi á húsnæði sínu eftir reglum sem settar yrðu þar um.

Ég hef lokið við að kynna þessar þrjár tillögur, virðulegi forseti, og vænti þess svo sannarlega að þær hljóti náð fyrir augum meiri hlutans á þinginu.