2003-11-26 01:24:26# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[25:24]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson hélt hér afar athyglisverða ræðu. Hann talaði um að þetta væri mikið velferðarfjárlagafrumvarp, en þegar kom að efnahagsmálum talaði hv. þm. eins og helfrosinn íhaldsmaður í efnahagsmálum og taldi allt snúast um það að reka ríkissjóð af nógu mikilli ábyrgð og úthúðaði þeim sem hér hafa leyft sér að leggja fram tillögur um úrbætur á brýnum sviðum velferðarmála.

Það er hárrétt, við höfum lagt fram brtt. með útgjöldum upp á u.þ.b. þessa stærðargráðu sem hv. þm. nefndi, en við leggjum líka til tekjuöflun á móti upp á rúma 3 milljarða og við sögðum það og segjum það að við sættum okkur við eitthvað minni afgang á fjárlögum sem nemi 2--3 milljörðum. Ég benti á í sambandi við atvinnuleysisbætur að Atvinnuleysistryggingasjóður á 9 milljarða í sjóði í eigið fé, og gæti vel gengið á þann forða til að þurfa ekki að skerða atvinnuleysisbætur. Og við teljum að það sé betra að hátekjufólk og fjármagnseigendur í landinu leggi eitthvað meira af mörkum til samfélagsins heldur en að fara að tillögum Framsfl. um að skerða atvinnuleysisbætur. Og hvernig ætlar hv. þm. að koma því heim og saman að það sé velferðaráhersla í frv. sem ræðst sérstaklega að þessum hópi?

Tillögur okkar eru í fullu samræmi við áherslur okkar í kosningabaráttunni, vegna þess að við fórum ekki á skattalækkunarloforðafyllirí eins og hinir flokkarnir. Það gerði hins vegar Framsókn og Framsókn lofaði 90% lánum, línuívilnun, Siglufjarðargöngum og hvað það nú var eða stjórnarflokkarnir (Gripið fram í: Og efna það.) og eru á fullri ferð með að svíkja það allt saman. Þannig að ég mæli með því að hv. þm. tali af aðeins minni gorgeir hér um hlutina þegar hann fer yfir þetta næst.

Hv. þm. saknaði þess að ég nefndi ekki sparnaðarmöguleika. Ég nefndi það nú í minni ræðu en við fórum út af fyrir sig ekki í það að semja ný fjárlög, það er rétt hjá hv. þm., en ég tek ábendingu hans. Þannig að hann telji að á því hafi verið full þörf skal það þá tekið til greina.