2003-11-26 01:54:37# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[25:54]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Við erum að ræða hér fjárlög fyrir árið 2004, sem er nokkurs konar fjárhagsáætlun ríkisins. Í öllum rekstri, hvort sem það er heimilis- eða fyrirtækjarekstur, er mjög mikilvægt að vanda til fjárhagsáætlana og stofna ekki til meiri útgjalda en tekjur ráða við. Það er einnig rétt að hafa í huga að það er ekki hægt að gera allt fyrir alla og að þeirra fjármuna sem ríkið ver í hin og þessi verkefni þarf ríkið að afla með skatttekjum af almenningi.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gumaði af því hér fyrr í umræðunni að ríkisfjármálin væru í góðu lagi en minntist ekkert á að það væri vegna sölu eigna ríkisins, en alls ekki vegna aðhalds í rekstri. Í umfjöllun um fjárlög fyrri ára er rétt að hafa í huga að menn selja ekki sömu eignina nema einu sinni.

Í tilefni þess að við erum að ræða fjárlagafrv. fyrir árið 2004 er rétt að skoða hvernig hæstv. fjmrh. hefur tekist til í gegnum tíðina að áætla útgjöld ríkisins. Hæstv. fjmrh. Geir Haarde tók við sem fjmrh. þann 16. apríl 1998. Því er rétt að skoða hvernig honum hefur tekist til, frá og með árinu 1999. Í fjárlögum ársins 1999 er gert ráð fyrir að útgjöld verði 182 milljarðar rúmir, en niðurstaðan er allt önnur: 199 milljarðar og fer fram úr um 9%.

Árið 2000 tekur ekki betra við. Þá er í fjárlögum áætlað að útgjöldin verði 193 milljarðar rúmir, en niðurstaðan er tæpir 230 milljarðar. Að vísu verður að gæta að að þarna voru lífeyrisskuldbindingar færðar inn á einu bretti fyrir 17,5 milljarða.

Árið 2001 er áætlað að útgjöldin verði 219 milljarðar. En niðurstaðan er allt önnur: 228 milljarðar.

Árið 2002 er áætlað að útgjöldin verði í kringum 240 milljarðar, en útgjöldin eru miklu hærri, rúmlega 10% hærri: 267 milljarðar.

Árið 2003 er gert ráð fyrir að útgjöldin verði 260 milljarðar, en það stefnir vel í yfir 280 milljarða. Nú er verið að fjalla um að útgjöldin verði rúmir 270 milljarðar, en hver ætli niðurstaðan verði? Við vitum ekki hver hækkunin verður, en að jafnaði hefur hækkunin á útgjöldum ríkissjóðs verið í kringum 10% frá samþykktum fjárlögum. Mun hæstv. fjmrh. geta gumað af því að hafa hækkað útgjöld ríkisins um 100 milljarða kr. á sex árum? Ef að líkum lætur verður hann ekki langt frá því markmiði.

Af framansögðu má vera ljóst að ríkisstjórnin á mjög erfitt með að standa við allar fjárhagsáætlanir. Við höfum orðið vitni að því að ríkisstjórnin hefur ekki getað staðið eða viljað standa við kosningaloforð sín varðandi skattalækkun og lagfæringu á fiskveiðistjórnarkerfinu sem hefur gengið mjög nærri mörgum sjávarbyggðum. Ríkisstjórnin hefur heldur ekki staðið við loforð um Héðinsfjarðargöng. Fyrr í umræðunni kom fram enn eitt kosningaloforðið sem ríkisstjórnin ætlar ekki að standa við. Það er samkomulag sem hæstv. heilbrrh. skrifaði hátíðlega undir ásamt Garðari Sverrissyni fyrir hönd öryrkja um að hækka grunnlífeyri þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Það kom fram að ríkisstjórnin ætlar að hafa af ungum öryrkjum 500 millj. kr.

Hæstv. heilbrrh. sá ástæðu til þess á sínum tíma að rita grein í Morgunblaðið. Ég vil grípa niður í grein hans frá því 27. mars sl., með leyfi frú forseta. En millifyrirsögnin er á þá leið:

Útspil vegna kosninganna?

,,Á blaðamannafundinum í fyrradag var spurt hvort samkomulagið nú væri nokkuð annað en rétt og slétt kosningabomba. Ekkert er eðlilegra en fréttamenn spyrji spurninga af þessu tagi í aðdraganda kosninga. Það sem athyglisvert var á fundinum með blaðamönnum var að báðir aðilar, bæði sá sem þetta ritar og Garðar Sverrisson, formaður ÖBÍ, lýstu yfir að þannig bæri ekki að skilja niðurstöðuna og báðir sögðumst við sannfærðir um að enginn stjórnmálaflokkanna myndi einn eða í samráði við aðra flokka reyna að rokka við því samkomulagi sem gert hefur verið.``

Er ekki hæstv. ráðherra sjálfur að rokka? Var þetta ekki kosningabomba eða kosningakanína úr hatti hæstv. heilbrrh.?

[26:00]

Frú forseti. Við skulum gæta að því að ef útgjaldaaukning hæstv. fjmrh. heldur áfram eins og hún hefur gert hingað til þá er einsýnt að ekki verði um neinar skattalækkanir að ræða enda ber frv. það sem hér er til umræðu með sér að það er ekki skattalækkunarfrv. Þetta er skattahækkunarfrv. Skattalækkunarfrv. er algjört öfugmæli á þessu frv. Að vísu er verið að lækka hátekjuskatt. En á móti hækka álögur á sjúklinga um 740 millj. Það á að skerða vaxtabætur um 600 millj. vegna íbúðakaupa og er í raun undarlegt að framsóknarmenn skuli ganga fram fyrir skjöldu og leggja í það eins og þeir héldu áróðri uppi um 90% lán í kosningabaráttunni. Er þeim ekkert heilagt?

Ríkisstjórnin ætlar að skerða greiðslur til almennings sem hyggur á viðbótarlífeyrissparnað, hækka þungaskatt um heil 8%. Það leggst sérstaklega illa á landsbyggðina, hækkar vöruverð og skerðir samkeppnisstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni. Síðast en ekki síst ætlar ríkisstjórnin að skerða atvinnuleysisbætur og taka af (Gripið fram í.) fólki sem missir vinnuna. Þar er peningana að finna. Þar er hægt að gæta aðhalds, hjá þessum aðilum, þ.e. atvinnulausum, þeim sem eru að kaupa íbúðir og sjúklingum.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hefur hlutur ríkisins vaxið sem hlutfall af vergri landsframleiðslu frá því að hæstv. fjmrh. tók við stjórn ríkisfjármála, eða úr 28,9% árið 1998 og í 30,8% árið 2002. Ég spyr: Er þetta ásættanlegur árangur fyrir hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem gefur sig stundum út fyrir að vilja báknið í burtu, þ.e. að hlutur hins opinbera hafi aukist? Er það ásættanlegur árangur að útgjaldaliðir fari að jafnaði 10% fram úr samþykktum fjárlögum?

Frú forseti. Blikur eru á lofti. Sjávarafurðir hafa lækkað í verði og nýlegar fréttir herma að ekki sé bjart útlit með loðnuveiðar. Í forsendum frv. til fjárlaga er áætlað að hagvöxtur fyrir árið 2004 verði 3,5% en í nýútkominni skýrslu Seðlabanka Íslands er ívið svartsýnni spá, en áætlað er að hagvöxtur verði einungis um 3%. Staðreyndir sýna að áætlanir ríkisstjórnarinnar hafa ekki gengið eftir. En við skulum vona að hlutirnir gangi betur nú en fyrri áætlanir því í raun hefur ríkisstjórnin bjargað reikningum hingað til einungis með því að selja eignir. Við í Frjálsl. munum leggja ríkisstjórninni lið við að ná endum saman og taka undir allar góðar tillögur sem verða til þess að rekstur ríkisins batni.