Fjárlög 2004

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 14:35:52 (2157)

2003-11-26 14:35:52# 130. lþ. 34.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JBjarn (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hér erum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að leggja til nokkuð aukna fjárveitingu til upplýsingamiðstöðva ferðamála, sérstaklega á landsbyggðinni. Upplýsingamiðstöðvar ferðamála gegna lykilhlutverki í að veita ferðaþjónustu úti um land bakstuðning. Að mati okkar kemur það einna best að notum við uppbyggingu þessa atvinnuvegar að ríki styrki og efli upplýsingamiðstöðvar ferðamanna og helst þannig að þær geti, nokkrar a.m.k., starfað á heils árs grundvelli.

Við leggjum þunga áherslu á að styrkja og efla ferðaþjónustuna og upplýsingamiðstöðvarnar eru einmitt lykillinn að því. Þess vegna leggjum við til fjárveitingu upp á 30 millj. kr. til þess að efla upplýsingamiðstöðvar ferðamála úti um land.