Uppsagnir hjá varnarliðinu

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 10:50:57 (2279)

2003-11-28 10:50:57# 130. lþ. 38.94 fundur 198#B uppsagnir hjá varnarliðinu# (umræður utan dagskrár), ÖB
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[10:50]

Önundur S. Björnsson:

Virðulegi forseti. Nú í svartasta skammdeginu horfast margir starfsmenn varnarliðsins í augu við þá staðreynd að missa vinnuna. Þó eru aðeins fáeinir mánuðir síðan ríkisstjórnin sagði við þetta sama fólk að örvænta ekki þar sem engar breytingar væru fram undan hjá hernum. Samkomulag við bandarísk stjórnvöld hefði náðst um málefni herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og engar einhliða ákvarðanir af hálfu Bandaríkjanna yrðu teknar.

Þegar staðreyndir uppsagna blasa við segist ráðherra hafa búist við þessu en því hélt hann vandlega leyndu fyrir þjóðinni, ekki síst þeim sem byggja atvinnu sína á stöðu mála á Keflavíkurflugvelli. Suðurnesjamenn spyrja: Hvað er næst á dagskrá? Er þetta aðeins fyrsta skrefið? Verða áframhaldandi uppsagnir staðreynd á næstu mánuðum eða missirum? Veit hæstv. ráðherra um frekari samdrátt?

Ég spyr eins og Suðurnesjamenn og þjóðin öll: Hvaða lausnir eru stjórnvöld með í handraðanum varðandi atvinnumál á svæðinu? Hvaða mótvægisaðgerða verður nú gripið til þegar kreppir að?

Hvernig ber til að mynda að skilja hirðuleysi stjórnvalda við ítrekaðri beiðni sveitarstjórna á Suðurnesjum um viðræður til lausna? Ráðherrann segist ekki vilja blanda saman varnarmálum og atvinnumálum. Gott og vel. Hvað sem því líður stendur eftir spurningin sem brennur á 900 starfsmönnum varnarliðsins og hundruðum einstaklinga sem sinnt hafa þjónustu við varnarliðið áratugum saman. Og henni verður ráðherrann og ríkisstjórnin að svara. Hvernig á allt þetta fólk að snúa sér í því að afla sér atvinnu sér og sínum til framfærslu? Mér finnst eiginlega vera komið að svardögum, hæstv. utanrrh.