Happdrætti Háskóla Íslands

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 13:48:00 (2338)

2003-12-02 13:48:00# 130. lþ. 39.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, KolH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[13:48]

Kolbrún Halldórsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það mál sem hér eru greidd atkvæði um er hið vandræðalegasta fyrir hæstv. dómsmrh. Látið er í veðri vaka að í gangi sé eða einhvers staðar á leiðinni heildstæð endurskoðun á löggjöfinni um happdrætti. Ef það er vilji hæstv. ríkisstjórnar að þessi löggjöf verði endurskoðuð frá grunni hefði verið hægur vandinn að gera það í sumar og í haust og búa þetta mál þannig út að hægt hefði verið að leggja það fyrir nú í haust endurskoðað svo við værum ekki að framlengja einkaleyfi Háskóla Íslands og kröfur um leyfisgjald til 15 ára á sama tíma og menn tala um það í almennri orðræðu, í þingræðum sem annars staðar, að um afar ósanngjarnt einkaleyfisgjald sé að ræða og íþyngjandi fyrir Háskóla Íslands.

Hér þarf að gera bragarbót á. Hv. allshn. hefur lýst því yfir að vilji hennar standi til þess að löggjöfin verði endurskoðuð og það hratt og að forsendur einkaleyfisgjaldsins verði skoðaðar. Það liggur á að þessi mál komist á hreint. Það hefði verið hægt að koma þessu þannig fyrir að við stæðum ekki í þessum sporum. Það hefði verið hægt að gera þetta með góðum fyrirvara. Alla vega telur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs ekki tímabært að framlengja einkaleyfið til svona langs tíma. Við ætlum því að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna sem hér fer fram.