Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 14:51:09 (2357)

2003-12-02 14:51:09# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, Frsm. meiri hluta PHB
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Í umræðum áðan komu ummæli frá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og enn fremur frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni varðandi það að spara í lífeyrissjóði eða spara utan lífeyrissjóðs. Ég vildi rétt aðeins koma inn á þetta í örstuttu máli af því að þetta er ákveðin stærðfræði.

Maður sem sparar í lífeyrissjóði hefur 100 kr. til ráðstöfunar. Hann fær ávöxtun á þessar 100 kr., vexti og verðbætur. Annar maður sem sparar utan lífeyrissjóðs og borgar fyrst skatta, og ég geri ráð fyrir að skattprósentan sé 40% til einföldunar, hefur 60 kr. til ráðstöfunar. Hann leggur 60 kr. í banka og fær á þær vexti og verðbætur og borgar fjármagnstekjuskatt af þeim tekjum sem og eignarskatt. Á milli þessara tveggja sparnaðarforma er alltaf hlutfallið 60:100.

Þegar kemur að töku lífeyris á hinn fyrri í lífeyrissjóðnum 100 kr. plús vexti og verðbætur en hinn síðari á 60 kr. plús vexti og verðbætur mínus fjármagnstekjuskatt. Þetta er tekið út og af því sem er í lífeyrissjóðnum eru borguð 40% í skatt og þá á sá fyrri nákvæmlega það sama nema hann er betur settur af því að lífeyrissjóðurinn borgar hvorki eignarskatt né fjármagnstekjuskatt. Þetta ætti að upplýsa um það hvað um er að ræða fyrir þá sem spara í lífeyrissjóði. Það er mjög eðlilegt og sjálfsagt að þeir borgi venjulegan tekjuskatt á þá upphæð en ekki fjármagnstekjuskatt, eins og um hefur verið rætt.