Beiðni um fund í efnahags- og viðskiptanefnd

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 10:52:57 (2566)

2003-12-04 10:52:57# 130. lþ. 42.94 fundur 208#B beiðni um fund í efnahags- og viðskiptanefnd# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[10:52]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég tek undir það sem hæstv. forseti sagði. Ég tel líka að hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efh.- og viðskn., hafi heyrt þessa beiðni. En ég túlka líka ummæli hæstv. forseta þannig að hann sé að beina því til hv. formanns efh.- og viðskn. að kveðja til fundar fyrir umræðuna til þess að hægt verði að leggja þetta álit fram.

Auðvitað er með ólíkindum ef það er þannig að meiri hluti stjórnarliðsins í efh.- og viðskn. situr á áliti sem fram er komið frá Lagastofnun háskólans. Kann skýringin að vera sú, herra forseti, að fyrir liggi að álitið sé neikvætt fyrir stjórnarliðið og að verið sé að reyna að draga birtingu þess fram yfir umræðuna? Er möguleiki á því? Ég óska eftir því að hv. formaður efh.- og viðskn. komi hingað í þennan stól og lýsi því yfir í fyrsta lagi að hann muni kalla til fundar í nefndinni fyrir umræðuna í dag og í öðru lagi að ekki sé verið að reyna að fela niðurstöðuna og draga hana fram yfir umræðuna.