Lyfjaverð og fákeppni á lyfjamarkaði

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 11:23:54 (2581)

2003-12-04 11:23:54# 130. lþ. 42.95 fundur 209#B lyfjaverð og fákeppni á lyfjamarkaði# (umræður utan dagskrár), HlH
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[11:23]

Hlynur Hallsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu þróun lyfjaverðs og fákeppni á lyfjamarkaði. Eins og við vitum hefur lyfjaverð hækkað gífurlega hér á landi á sama tíma og stórar blokkir hafa verið að myndast á lyfsölumarkaðnum. Forsvarsmenn neytenda hafa lýst áhyggjum yfir ástandinu og það ekki að ástæðulausu.

Í samantekt lyfjadeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss um aukinn lyfjakostnað er tekið dæmi af skráðu lyfi, Glivec, sem notað er m.a. við langvinnu hvítblæði. Ársmeðferð fyrir einn einstakling kostar hér á landi rúmar 3,5 millj. kr.

Í samantektinni segir, með leyfi forseta:

,,Í Noregi kostar sama meðferð 2.761.216 (27,8% hærra verð á Íslandi, ...) Í Svíþjóð kostar þessi meðferð 2.600.842 (35,7% hærra verð á Íslandi, mismunurinn er 928.642 kr.), en hér er borið saman innkaupsverð til sjúkrahúsa (án VSK). Það er kaldhæðnislegt að hægt væri að spara pening með því að senda sjúklinginn á Saga Class til Svíþjóðar að leysa út lyfseðilinn!``

Þetta segir orðrétt í samantekt lyfjadeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Munurinn á verði á ársskammti af þessu lyfi á Íslandi og í Svíþjóð er næstum 1 milljón.

Þetta dæmi sýnir okkur að það er eitthvað meira en lítið að hér á landi í þessum málum. Svona munur getur ekki verið eðlilegur.

Ég spyr: Þarf ekki að efla Samkeppnisstofnun ef hún getur ekki sinnt hlutverki sínu vegna fjölda verkefna? Er ekki kominn tími til, hæstv. viðskrh. Valgerður Sverrisdóttir, að gera eitthvað í málunum?