Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 11:45:55 (2590)

2003-12-04 11:45:55# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., BÁ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[11:45]

Birgir Ármannsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í mikla rökræðu við hv. 10. þm. Norðaust. um almenna stefnu í áfengis- og tóbaksvörnum. Ég tel hins vegar að það breyti ekki því fyrir fólk sem neytir þessara vörutegunda, áfengis og tóbaks, hvort heldur það neytir þeirra yfir höfuð eða neytir þeirra í óhófi, hvort það kaupir vöruna af ríkisstarfsmanni eða ekki. Og ég átta mig ekki á því að málið eins og það liggur fyrir, þetta þingmál hæstv. fjmrh. sem slíkt, snerti heilbrigðissjónarmiðin með neinu móti, enda er á engan hátt verið að draga úr eftirliti, merkingum eða neinum slíkum þáttum sem varða tóbaksvarnasjónarmið. Ég tel því að þau ummæli þingmannsins að vísa ætti málinu til umsagnar í hv. heilbr.- og trn. séu kannski byggð á einhverjum misskilningi á efni þessa frv.

En varðandi þetta mál þá er auðvitað ljóst, eins og hæstv. fjmrh. sagði, að frv. felur í sér ákveðnar lágmarksbreytingar á núverandi fyrirkomulagi samkvæmt ábendingum frá Eftirlitsstofnun EFTA og það er auðvitað sjálfsagt að við gerum þær breytingar. Um leið vil ég leggja áherslu á að við íhugum og tökum til umræðu í kjölfarið heildarfyrirkomulag þessara mála með það að markmiði að ríkið hætti að standa í fyrirtækjarekstri á þessu sviði.